c

Pistlar:

19. ágúst 2015 kl. 10:36

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Kjarni málsins

".. þegar endalaust áreiti skellur á okkur daglega er mikilvægt að geta kjarnað sig." Ég lá upp í rúmi í gærkvöldi með æpaddinn minn og las þessar línur í þrjátíu ára gamalli bók. Ég lagði hana frá mér í augnablik og hugsaði um það sem hafði breyst síðan þá. Internetið sjálft var ekki komin í almenna notkun, samfélagsmiðlar, snjallsímar, tölvupóstar og annað sem núna tengir okkur við hvert annað allann sólarhringinn ekki heldur. Talandi um að kjarna sig!

En hver er kjarninn í okkur? Er hægt að finna hann mitt í öllu "þarf að vera, gera, framleiða, slá í gegn fyrir tuttugu og fimm ára aldurinn annars er ég búin að vera..". Er kannski dýrðleg þögn á undanhaldi, bæði ytri og innri?

Í fyrirtækjarekstri er nú að eiga sér stað merkilegur umsnúningur, hægt og bítandi eru leiðtogar að uppgötva að til þess að ná meiri árangri þá skiptir máli að fólk sé á staðnum. Að vera á staðnum snýst ekki lengur um að þú farir í vinnuna á ákveðin stað frá 9-17 heldur getur þú verið hvar sem er en með höfuðið "á staðnum" til að vinna verkefnin vel! Sköpunargleði, vellíðan og takturinn í verkefnum ræðst af því að fólk geti náð til kjarnans í sér. Eins og Adriana Huffington, ein af fremstu viðskiptakonum heims sem stofnaði Huffington Post segir "það sem vantar í viðskiptum er ekki hærri greindarvísitala heldur meiri viska." Við þetta bæta margir leiðtogagúrúar að í dýrðlegri þögn sé þar sem visku er að finna.

Ástæðan fyrir því að Ebay, google, Nike, LinkIN, Apple of fleiri fyrirtæki eru nú að leggja áherslu á "Mindful leadership" er nauðsyn þess að kjarna sig til að vinna betur og ekki síst líða betur.

Eftir þrjátíu ár verða einhverjir sem spyrja sig undrandi, var það í alvöru þannig að í fyrirtækjum var einungis verið að fókusera á samkeppni en ekki samkennd? Í alvöru?