c

Pistlar:

4. nóvember 2015 kl. 19:57

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Í gamla daga..

Við vorum á leið heim úr fjölskylduboði og dóttir mín sneri sér að mér: "mamma, hvað gerði fullorðna fólkið áður en internetið kom?" Ég skildi ekki spurninguna og einbeitti mér að því að komast áfram í myrkrinu. Ég hváði, gerði ráð fyrir að þetta væri ein af þessum: ... mamma, voru til bílar þegar þú varst lítil í gamla daga... athugasemd. Ég einbeitti mér að henni aftur. Hún byrjaði aftur:  "Fullorðna fólki er alltaf í símanum sínum þegar við hittum þau. Þau taka alltf símann upp og horfa á hann, þó að það sé langt síðan við hittum þau.." 

Ég næstum snarstansaði á veginum og leit á hana. Þetta var alveg rétt. Flestir gestirnir höfðu tekið upp síma sinn, allavega einu sinni. Gónt ofan í símatómið og flétt í gegnum það sem aðrir voru að gera þá stundina en ekki á fjölskylduna sem sat í kringum það. Ég hafði sjálf örugglega tekið upp símann, eins og hinir.

Hjarta mitt sökk niður í gólf, hvernig er að vera barn í dag? Hver er athyglin sem þau fá. Ég man eftir því að það þurfti að þegja þegar fréttir og veður gengu yfir í gamla daga en skyldu þau þurfa að þegja oftar núna? Erum við duglegri að kíkja á líf fólks í símatóminu heldur en það sem í kringum okkur er? Er mikilvægara að ná rétta sélfí-inu heldur en að brosa framan í hvort annað?

Ég sneri mér að stelpunni minni og leit lengi á hana. "Áður en internetið kom þá töluðum við bara saman og stundum horfðum við saman á eitthvað, öll í einu." Hún horfði á mig og endaði með að segja, hugsandi meðan hún horfði út í myrkrið, "það hefur örugglega verið gaman.".

Ég er að hugsa um að fjarlægja síma í upphafi fjölskylduboða núna og geyma minn heima þegar ég er boðin eitthvað næst, þ.e. ef einhver skyldi bjóða mér!