c

Pistlar:

30. desember 2015 kl. 0:04

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Áramótakveðja

Þar sem ég sit í grænum sundlaugarlundi er fátt sem minnir á hefðbundin áramót, en ég finn á mér að þau nálgjast. Sama tilfinningin um uppgjör og nýtt upphaf rennur undan rifjum mér. Spurningar eins og: Hvernig hef ég farið með tíma minn á þessu ári sem nú er að renna sitt skeið? Smá eftirsjá krydduð með: Ó hvað tíminn líður hratt!

Um leið og ég ríf mig upp úr mistökunum og svekkelsinu þá hugsa ég um það sem tókst nokkuð vel og horfi á börnin mín og veit að hvað sem var og verður þá eru þau alla vega svo fullkomin, nákvæmlega eins og þau eru, svo eitthvað tókst vel til.

Þá kemur að því að horfa á næsta ár með tilhlökkun þess sem er alltaf tilbúin að gera smá fleiri mistök.. Ó en spennandi, hvíslar hið innra stúlkubarn, við munum geta fært fjöll... Hin fullorðni hluti af mér - er hins vegar löngu búin að læra að setja ekki áramótaheit. 

Það er þrennt sem ég hef lært að hafa í huga þegar ég, smíða nýja árið í huga og hendi.

Í fyrsta lagi:

Að setja mér nægilega erfiðar áskoranir. Reyna að koma sjálfri mér út úr þægindarammanum. Gera eitthvað nýtt, eitthvað sem reynir á mig. Þetta þýðir oftast mörg mistök :-). Ekkert að því að lenda á nefinu af og til. En stundum tekst vel til.

Í öðru lagi:

Láta ekki óttann stjórna mér. Þá er ég ekki að tala um að hoppa út úr flugvélum, voða lítið fyrir það, heldur bara óttann við hið óþekkta og óttann við hvað öðrum finnst. Óttann við að fara yfir mörkin, óttann við allt sem gæti gerst! Allt í lagi að vita af hræðslupúkanum sem býr innra með mér en órþarfi að láta hann stjórna.

Í þriðja lagi:

Velja vel hvernig ég ver tímanum og með hverjum. Reyna að kjósa nánd í stað yfirborðs og segja nei þegar ég á að segja nei! (ótrúlegt hvað þetta smáorð getur flækst fyrir manni)...

Nú er bara að smíða rétta hugarflugfarið með hæfilegri blöndu af draumum og skynsemi og láta reyna á hvort draumarnir flúgi ekki á nýju ári. 

Ég óska ykkur gleðilegs árs og vona að þið munið láta alla ykkar drauma og þrár rætast - líka þá sem þið þorið ekki að framkvæma!

areliaeydis.is