c

Pistlar:

17. febrúar 2016 kl. 13:07

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Hvað er á "Bucket" listanum þínum?

Eitt það skemmtilegasta sem ég veit er að haka við markmið sem ég hef sett mér. Ég fæ mikla sigurtilfinningu sem ég skola niður með þakklæti yfir að hafa getað gert það sem ég stefndi að. Í yfir áratug hef ég kennt mismunandi hópum að gera svokallaðan "Bucket" lista eða það sem ég kalla 101-lista.

Fyrsta forsenda þess að gera listann er að gera sér grein fyrir að við vitum einungis tvennt í lífinu. Í fyrsta lagi að við munum deyja og í öðru lagi vitum við ekki hvenær. þetta setur okkur þær skorður að nýta tíma okkur mjög vel. Við vitum ekki hvort við eigum annað líf fyrr en að því kemur að tékka á því en þá erum við líka farin úr þessari jarðvist.

Með það í huga skrifar maður niður - alveg upp í 101 atriði, allt sem maður vill; gera, eiginast eða verða áður en maður kveður.

Á listann eru sett markmið sem hægt er að strika út þegar þau hafa verið framkvæmd. Til dæmis að ganga á Hvannadalshnjúk (margir með það á sínum lista, ekki ég..), gefa út skáldsögu (tékk hjá mér), kaupa húsnæði á ákveðnum stað. Listinn getur verið endalaus, fara á Hornstrandir, skrifa ljóð, hlaupa maraþon, eignast barn, fara til Indlands í jógaferð eða á ljósmyndanámskeið o.s.frv.

Málið er að gera listann, viðhalda honum og setja sér ný markmið. Það er fátt meira gefandi en að setja strik yfir markmið sem hefur tekið blóð, svita og tár að ná. Þá kemur líka krafturinn til að halda áfram og ná því besta út úr þessari dýrlegu jarðvist og vonandi skilja heiminn eftir aðeins betri en þegar við komum í hann.