c

Pistlar:

5. apríl 2016 kl. 16:38

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Leyndarmál og lygar

Flest eigum við okkur einhver leyndarmál og erum uppvís að einstakri lygi. Það er, til dæmis, sjaldan að maður segi manneskju særandi sannleika eins og til dæmis að kjóllinn eða jakkafötin séu forljót og fari illa. 

En leyndarmál, hvort sem eru stór eða smá, sem eru í skúmaskotum eru eins og hlekkir í kringum háls þeirra sem þau bera. Þegar fólk almennt er farið að fela slóð sína, hvort sem er gagnvart einum eða fleirum, er það að svíkja sjálfan sig og í leiðinni aðra. Afleiðingarnar af því eru oft skelfilegar, mannorðsmissir, sektarkennd, vanlíðan og vantraust annarra. Lygin er lævís og það getur farið ótrúleg orka í að viðhalda henni og fólk flýr þá enn lengra frá sjálfu sér. "Sannleikurinn gjörir yður frjálsan" stendur á góðum stað og ástæðan er þessi að maður geti gengist við sjálfum sér og öðrum og verið heill þó að það þýði að maður sé berskjaldaður. Þá fyrst er hægt að heila aftur það sem brotið er.

Þeir sem vilja gegna leiðtogahlutverkinu verða að gera sér grein fyrir þeim fórnum sem því fylgir. Fylgendur líta upp til þeirra því að ætlast er til þess að þeir gangi á undan með góðu fordæmi. Það er fylgst með hverri hreyfingu, blæbrigði raddar og líkamstjáningu og fylgjendur rýna í sögu og framgöngu. Ástæðan er einföld, fylgjendur eftirláta leiðtoga vald sitt, setja í hendur þeirra sameiginlega hagsmuni og vinna þess vegna fyrir þá. Alveg eins og rollurnar sem fylgja forystuasauði þann fjallstíg sem hann velur, treystandi því að það sé besti kosturinn.

Það er mannlegt að eiga sér leyndarmál og hver og einn er breyskur en það er líka mannlegur harmleikur að láta leyndarmál og lygar verða að hlekkjum. Heilindi eru ekki bara fyrir aðra heldur líka fyrst og fremst fyrir okkur sjálf. Það tekur langan tíma að byggja upp traust en það getur horfið á augabragði og fyrir það líða allir. 

Nú þegar ljós sannleikans beinist að leyndum afkomum samfélagsins er kannski rétt að heila það sem þarf heilunar við án þess að dæma of hart þá sem eftir sitja með sárt ennið.