c

Pistlar:

27. apríl 2016 kl. 17:00

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Próf

Í morgun var próf hjá mér og nemendur mínir sátu áhyggjufull á svip yfir lausnum sínum þegar ég kíkti á þau. Ég veit að ef þau hafa mætt vel, undirbúið sig og lesið efnið þá er í lagi með þau. Flest þeirra hafa gert það. 

Mér varð hugsað til prófa lífsins sem framundan er hjá þeim og get ekki annað en vonað að þau séu undirbúin fyrir þau líka. Ég er heppin að fá að kynnast þeim, unga fólkinu sem er að hefja starfsferill sinn. Þó að mér finnist synd hvað þau eru dugleg. Þau eru flest að vinna með náminu og sum eru komin með fjölskyldu eða börn og mörg hafa varla tíma til að mæta í skólann. Ég vildi að ég gæti sannfært þau um að flýta sér hægt til þess að þau séu betur undirbúin fyrir próf lífsins.

Þau eru ótrúlega vel undirbúin á mörgum sviðum, flest hafa ferðast um heiminn meira en nokkur kynslóð á undan þeim. Þau tala ensku lítarlaust, eru vel að sér í tækni og upplýsingum og fylgjast vel með heimsins málum. En eru þau undirbúin fyrir lífsins próf?

Stærsta prófið á lífsleiðinni er líklega hvort maður sé almennileg manneskja. Hvort maður þori að vera maður sjálfur, sé heiðarlegur og hugrakkur og æðrulaus gagnvart því sem lífið færir manni. Hvort maður geti staðið með sjálfum sér en á sama tíma verið til staðar fyrir aðra. Hvort maður geti haldið út þegar manni finnst öll sund lokuð. Hvort maður þoli leiðindin, þjáninguna, sorgina og hryggðina þegar hún heimsækir vitandi að slíkar stundir dýpka gleðina, kærleikann og sæluna þegar hún á leið til manns. 

ÉG vona svo sannarlega að þau séu undirbúin fyrir próf lífsins, finnst reyndar að þau séu það. Alveg ótrúlega klár og vel gerð þetta unga fólk sem þreytir nú próf í skólum landsins.