c

Pistlar:

18. maí 2016 kl. 9:52

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Alltaf í boltanum?

Ég er búin að vera tölvert í boltanum undanfarið. Á ráðstefnu með frægum fótboltamönnum og landsliðsþjálfara og svo með syni mínum á fótboltamóti. Fótbolti er meira en að sparka bolta í mark, hann er lífið og í sumar mun allt snúast um fótbolta hjá okkur öllum. Við munum sitja límd við skjáinn og fylgjast með okkar mönnum.

Í rannsókn sem ég gerði á íslenskum kvenleiðtogum kom í ljós að þær höfðu flestar stundað einhverja hópíþrótt. Ástæðan fyrir góðu gengi þeirra í viðskiptum mátti rekja til þess, að hluta, að þær voru aldar upp í samkeppninni og eru því alls óhræddar þegar kemur að pólitík á vinnustað. Þær skilja líka að hópurinn er stærri en þær einar og hvernig maður nær árangri með rétta liðinu.

Keppnisskap fleytir mörgum áfram enda þegar ég spurði leiðtogana úr fótbolta um hvað þeir gerðu þegar þeir töpuðu, horfðu þeir sljóum augum á mig og svöruðu svo allir sem einn: "Ég þoli ekki að tapa." 

Í viðskiptum, fótbolta og lífinu tapar maður stundum og reynir á karakter leikmannsins. Hættir hann við? Fer aldrei út á völl aftur eða kennir kannski lélegum bolta um? Svo er líka hægt að detta bara í það og gleyma tapinu. Þegar leikmenn hlaupa um með testrósteron og dópamín í æðum í sigurvímu þá upplifum við hin nákvæmlega það sama og í eitt andartak erum við hluti af sigurvímunni, ósigrandi, öflug og örugg. En svo kemur annar leikur og þá þarf að taka á því aftur. Eins gott að forðast bara þá tilfinningu að tapa.. hver vill það?

Það sem mér finnst þó verra er að reyna ekki aftur þegar maður hefur tapað. Þjálfunin sem fótboltamenn og konur fá er nefnilega frábær undirbúningur fyrir lífið (fyrir utan höfuðhögginn). Stundum vinnur maður og hleypur um og lætur öllum illum látum en stundum tapar maður og hatar þá tilfinningu og fer að sofa snemma með hausinn í bringu. En... svo fer maður bara aftur á völlinn og gefur allt sem hægt er að gefa. Það er alltaf nýr leikur að spila.  

Maður sér ekki eftir leikjum sem maður tekur þátt í - bara þeim sem maður tókst ekki á við.