c

Pistlar:

6. júní 2016 kl. 16:50

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Breytingaskeiðið; tiltekt í tíu liðum.

Bara orðið sjálft vekur upp tilfinningarsveiflur, breytingaskeið með þurrki, hitakófum, svefnleysi og ömmuskeggi. Hver vill það? Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart hvað við vitum almennt lítið um þetta merkilega skeið í lífi kvenna þegar hormónarnir taka að breytast eftir áralanga mánaðarlega reglulega sveiflur.

Fram að breytingaskeiði höfum við verið prógrammer-aðar til þess að eiga börn og mánaðarklukkan hefur tifað; tikk-takk með egglosi, blæðingum og hrynjanda sem stundum leiddi til þess að egg meðtók sæði. Viðhald stofnsins er fast víraður í heila okkar, hvort sem við eignuðumst börn eða ekki. Ekki nóg með að viðhalda honum heldur eru líka brautir í heilanum sem sjá til þess að við elskum afkvæmi okkar og leggjum hart að okkur til að koma til manns. Við eigum erfitt með að komast undan þeirri tilfinningu að nauðsynlegt sé að öllum líki við okkur til þess að tilheyra hópnum, slíkt er öruggara í lífríkinu. Hórmónarnir tikka og sjá til þess að við séum í formi til að hugsa um aðra.

 Allt í einu verður allt vitlaust (reyndar ekki allt í einu, breytingaskeiðið tekur allt að fimmtán ár) og hormónarnir sem hafa tifað síðan við urðum frjóar fara að detta úr takti.

 “Hvað með mig?” Er stóra spurninginn sem skellur á okkur eins og við séum að vakna af svefni líkt og Mjallhvít sem sofnaði eftir að hafa sinnt dvergunum sjö. En nú er það ekki prinsinn sem bjargar okkur heldur við sjálfar.

Breytingaskeiðið er tími til að taka til, flokka og henda. Oftast leitar á okkur það sem ekki hefur verið gert upp og við vöknum til meðvitundar um að lífið er ekki endalaust. Einn daginn munum við ekki vera hér lengur, sá dagur er ekki svo ýkja langt undan miðað við það sem liðið er. Hins vegar höfum við lifað nægilega lengi til að geta gert okkur grein fyrir hvernig við ætlum að ljá lífi okkar merkingu og gildi.

Ég hef glímt við þetta skeið vitsmunalega, miðbik lífsins, af ástríðu undanfarin áratug og er núna að skrifa að bók sem ber vinnuheitið: Sterkari í seinni hálfleik. Hún kemur út fljótlega. Ég verð að segja að eftir því sem ég sekk mér meira í þetta lífsskeið því áhugaverðara finnst mér það. Það sem ég hef lært á þeirri vegferð má draga saman í tíu punkta (alltaf gott að einfalda þetta en bókin verður aðeins ýtarlegri..).

Hefst þá lesturinn J

  1. Flokkaðu viðhorf þín til sjálfar þín vel. Kastaðu vanmætti, skömm og fórnarlambinu. Farðu bara með þetta á Sorpu, algjör óþarfi að drattast með þetta lengur. Fáðu hjálp fagaðila ef með þarf.
  2. Finndu mátt þinn og megin í styrkleikum og lífsreynslu þinni. Settu þer markmið um hvernig þú ætlar að verða sterkari, líkamlega, tilfinningarlega og andlega. Markmið um fjármál, atvinnu, sambönd og heimili. Ekki seinna heldur núna eða fljótlega.
  3. Settu unað sterkt inn í líf þitt. Endurskilgreindu kynveruna, kastaðu hugmyndum um að þú þurfir að vera ung, grönn og stinn til að lifa góðu kynlífi. Aldeilis ekki, mundu að þegar börnin fara að heiman er tími til að stunda kynlíf mun rýmri svo ég tali nú ekki um plássið. Ekki leyfa þér að hætta að stunda kynlíf þó að þú eigir ekki maka. Það er fullt af tækifærum og sjálfs er höndin hollust í þessum efnum! Hvað vekur þér unað? Nudd, náttúran, góð bók, samvera, börn, barnabörn, kvikmyndir, ferðalög. Listinn er endalaus.
  4. Þegar þú ert búin að flokka og taka til settu þá forvitni á stall. Við lifum svo miklu lengur en áður og þeir sem lifa vel eru þeir sem eru forvitnir og halda áfram að læra lífið á enda. Hvað ætlar þú að læra? Dans eða tónlistarnám gefur heilanum sama kikkið og líkamleg hreyfing. Við getum gert svo margt til að halda heilanum við. Finndu þér fyrirmyndir í konum sem lífa ástríðufullu lífi og eru eldri en þú ert. Helst nokkrum áratugum eldri svo þú getir ímyndað þér hvernig þú vilt feta í fótspor þeirra með þeim fyrirvara að gera það sem til þarf.
  5. Taktu til í samböndum þínum. Konur sem eiga nánar vinkonur lifa lengur! Hvernig ætlar þú að rækta vinkonur þínar – eða eignast nýjar? Ekki hanga í samböndum sem ekki eru gefandi lengur. Hjónabandið þarf að fara í gegnum endurnýjun lífdaga þegar dagleg tilvera snýst ekki lengur um að koma ungunum á legg. Samband þitt við börn þín tekur líka breytingum, hvernig viltu hafa það?
  6. Líkaminn sem hefur haft mikla hormóna“vernd” þarf meiri athygli. Hreyfing, matarræði sem hentar þínum líkama, það er enginn lausn sem hentar öllum. Eigðu þitt ljúfa samband við mat og kropp. Nú er rétti tíminn til að losa sig við fíkn. Ef þú átt í erfiðleikum með áfengi, lyf, mat eða annað þá er breytingaskeiðstíminn brilljant til að losa sig við það.
  7. Lofaðu sjálfri þér að segja aldrei “en ég er nú komin á þennan aldur.” Aldur er afstæður og talan segir ekkert um hversu ung þú ert í anda. Fylgstu með og ekki leyfa þér að dragast aftur úr. Þú verður á vinnumarkaði mun lengur en kynslóðin á undan. Hvernig ætlar þú að halda þér við? Hættu að gera það sem þér finnst leiðilegt og finndu leiðir til að gera meira af því sem hefur merkingu fyrir þig. Það eru endalausar tækfæri til ef maður undirbýr sig fyrir þau.
  8. Vertu þakklát hvern dag fyrir allt sem við tökum sem sjálfsögðum hlut. Settu það á forgangslista að vinna að því að vera jákvæð. Skelltu skollaeyrum við neikvæðri umfjöllun um dægurmál og dægurþras. Taktu þátt í umræðum og láttu rödd þína heyrast þegar þér er misboðið en ekki nýta tímann í niðurrif.
  9. Kynntu þér allt sem þú getur um breytingaskeiðið og ef og þegar þú finnur fyrir einkennum talaðu um það við vinkonur, mömmu þína, dætur og kvensjúkdómalækni. Ekki þjást að óþörfu yfir hitakófum og svefnleysi, þurrki eða tilfinningarsveiflum. Finndu þér góðan kvensjúkdómalækni eða heimilslækni sem skilur hvað þú ert að fara í gegnum og kynntu þér hvað er í boði. Mundu bara að hitakófið hjálpar þér að svitna út öllum ruslhugsunum sem þú hefur safnað í gegnum tíðina.
  10. Farðu í innri fjársjóðsleit! Þetta er allt þarna – hið innra. Tengstu stelpunni aftur, hvað langaði hana? Hvað hefur hún að segja þér? Hver ertu án allra titla, starsheita, stöðu í fjölskyldunni. Hver ertu? Nýttu sköpunarkraftinn sem er í þessu lífsskeiði til hins ýtrasta. Málaðu, skrifaðu, syngdu, gólaðu eða bara hvað sem er, handavinna, smíðar, saumur. Endalaus uppspretta sköpunar bíður hið innra.

Ég gæti endalaust haldið áfram en eftir að hafa skoðað þetta lífsskeið er ég sannfærð um að ef maður nýtir kraftinn til að taka til þá verður maður mun sterkari í seinni hálfleik.