c

Pistlar:

20. september 2016 kl. 11:47

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Að lifa í stað þess að lifa af.

Í sumar, þegar ég var stödd erlendis, hitti ég konu sem hafði mikil áhrif á mig. Hún hafði verið forstjóri beggja vegna atlandshafsins og starfað víða um heim. Núna hefur hún snúið sér að öðru en að vera í forystusveit í atvinnulífinu. Ekkert merkilegt við þetta nema að við nánari kynni kom í ljós að hún hafði,frá því að hún var unglingur, þjáðst af mjög óvenjulegum sjúkdómi sem lýsir sér þannig að hún rífur hár sitt. Þetta verður að þráhyggju svona svipað og þegar fólk skaðar sig almennt. 

Þessi kona er komin vel yfir miðjan aldur og hefur aldrei getað hætt þessu þrátt fyrir að hafa reynt næstum allt til þess. Hún hefur þjáðst mikið í gegnum lífið vegna þessa leyndarmáls sem hún segir helst ekki frá. Hún er með hárkollur og maður sér ekki utan á henni það sem veldur henni sársauka. Við fyrstu kynni er hún full af sjálfstrausti heimskonunnar sem er vön að stjórna. En maður sér ekki alltaf utan á fólki hvernig því raunverulega líður. Hún lýsti því hvernig það væri að standa á sviði og halda ræður. Ganga síðan niður af sviðinu og fók kæmu til hennar og þakkaði henni fyrir og oft hafi henni verið hrósað fyrir hvað hún liti vel út og hvað hárið á henni væri fallegt. Henni finnst hún hafa farið á fölskum forsendum í gegnum lífið. Þessi kona hefur tekið margar erfiðar ákvarðanir og stýrt fyrirtækjum og hópum af myndarbrag en í hennar huga var hún "lúser" af því að hún hefur ekki getað hætt að rífa af sér hárið.  

Við vorum í því samhengi þar sem við gátum látið okkar innstu leydarmál í ljós og sagt sannleikann um okkur án þess að vera dæmd. Ég hef hugsað mikið um hana síðan sérstaklega vegna þess, eins og ég sagði við hana, þá er þessi þörf hennar fyrir að rífa hár sitt það sem mér fannst áhugaverðast við hana. Við erum öll að "rífa hár okkar og skegg" með einhverjum hætti. Það eru veikleikar okkar sem gera okkur áhugaverð, svo lengi sem við förum ekki í fórnarlambsgírin og tökum ábyrgð. Eins og Leonard Cohen segir í einum texta sínum; í gegnum brestina lýsir ljósið.

Vandamálið eru ekki brestir okkar, heldur einmannaleikinn sem fylgir því að skammast sín fyrir að vera mannlegur. Það er skömmin sjálf sem er vandamálið en ekki að við finnum til. Skömmin aðskilur okkur frá hvort öðru og manni finnst sem enginn geti skilið eða sé að fást við það sama og maður sjálfur. Þrátt fyrir að forsíðumyndin líti vel út þá glíma allir við eitthvað. Um leið og maður getur sætt sig við sínar hárreitingar án þess að dæma, og boðið lærdóm sársaukans velkomin þá sjáum við að við erum öll tengd og öll að fást við að lifa.

Sársaukinn kennir okkur nefnilega að lifa en ekki að lifa af - að er mikill munur þar á.