c

Pistlar:

30. desember 2016 kl. 14:18

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Kynlíf, rokk og ról

"Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka." Madonna er víst fegin því allt of mörg söngvaskáld hafa fallið frá. Það er skrýtið að hugsa til þess að þeir sem hafa hjálpað manni yfir ástasorgir og lyft manni í hæðir á dansgólfinu eins og Leonard Cohen, George Michael, Prince og David Bowie séu nú allir. Eins og hluti af sögu manns sé horfin að eilífu. 

Það mætti halda að fólk ætti að forðast að vera frægt söngvaskáld, ríkur og fallegur. Það virðist vera lífshættulegt. Allir þessir einstaklingar voru háðir fíkn sinni, eiturlyf, kynlíf og rokk og ról. Flestir sækjast eftir einmitt þessu, að vera ríkur, frægur og geta stundað kynlíf með hverju sem er, hvenær sem er. Opinberalega hefur Trump, næsti forseti Bandaríkjanna, lýsti því yfir hvað þetta líf sé eftirsóknavert. Að geta gripið í píkur kvenna og láta fólk lúta í lægra haldi í krafti frægðar og valda. 

Þeir sem ná svo miklum árangri sem söngvaskáld eins og þeir sem fallið hafa frá á árinu eru allt yfirburðamanneskjur sem hafa fært miklar fórnir í lífi sínu. Yfirburðamanneskjur geta kannski ekki fengið allt og fæstir geta staðið undir því að álagi sem fylgir lífi þeirra nema leita í fíkniefni, virðist vera. 

Af þessu að dæma virðist svo vera sem hið hversdagslega líf sem við hin, hversdagshetjurnar, lifum sé - eftir allt það sem er líklegra til lífsfyllingar. 

Á næsta ári er ekki vitlaust að njóta þess í botn að upplifa hversdagsleikann. Yfirburðafólk verður oft snarbilað - tómið verður aldrei fyllt með kynlífi, rokk og róli. Tómið sem býr í okkur öllum er betur fyllt með því að gera hið smáa og hversdagslega. Eins og að rífast við börnin, taka fallegar myndir, fara í göngutúr og upplifa nánd. Nánd með sjálfum sér og nánd við aðra.

Árið 2017 verður ár hins hversdagslega hjá mér, hins smáa. Ár þess venjulega og ég þarf alls ekki nein fíkniefni til að komast í gegnum það en hins vegar mun fullt af tónlist frá yfirburðafólki fylla líf mitt ljómandi fínum tónum sem hjálpa mér að komast yfir það sem hendir í hversdagsleikanum. 

Ég óska ykkur gæfu og góðra stunda á nýju ári. Ég óska ykkur þess að hver venjulegur þriðjudagur verði svo venjulegur með sínum ryðma sem styður við góðar venjur, skemmtileg verkefni og ekki síst uppbyggilegar hugsanir. 

Takk fyrir samveruna á árinu 2016 sem nú er að kveðja .."nú gengin er sérhver þess gleði og þraut,það gjörvallt er runnið á eilífðar braut,en minning þess víst skal þó vaka."  Minning þeirra sem féllu frá lifir eins og góðar minningar um atburði og fólk frá árinu lifir með okkur um ókomna tíð. En ég segi eins og Madonna, mikið er ég fegin að þetta ár er að renna sitt skeið!