c

Pistlar:

28. september 2021 kl. 9:54

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

"Roskin" þingmaður.

Þá eru kosningar afstaðnar, þrátt fyrir að ekki sé alveg ljóst hvort talningar munu fara fram fram að jólum. Ég hef að sjálfsögðu mjög gaman af kosningabaráttu, kjöri og pólitískum umræðum enda sjtórnmálafræðingur. Oft finnst mér vanta upp á áhuga og umræðu um forystu en það er eingöngu vegna þess að það er mitt fræðasvið. Það sem manni sjálfum finnst merkilegt er ekki alltaf það sem öðrum finnst merkiegt sem betur fer er fjölbreytni í mannlífinu.

Forysta snýstum vald og hverjir gegna forystu og hvernig viðkomandi gera það hefur heilmikið að segja um völd í samfélaginu. Nú þegar Angela Merkel stígur til hliðar bíður flokkur hennar afhroð. þegar mjög sterkur leiðtogi stígur til hliðar þarf að hafa farið fram ferli þar sem væntanlegir leiðtogar eru undirbúnir en slíkt gleymist ansi oft. Sáum það þegar Thatcher fór frá, Churschill, svo nefnd séu nokkur dæmi. Forysta er bæði list og vísindi og það er munur á forystu í opinberum störfum og á almennum markaði.

Ég hafði gaman af því að hlusta á umræður um "roskna" þingmanninn sem er sjötíu og tveggja ára. Biden var að taka við einu af stærstu forystu embættum heimsins og hann er 78 ára, Nancy Pelosi er 81 árs en hún hefur gengt forystustörfum í bandaríska þinginu. Elísabet drotting Breta er 95 ára. Flestir þingmenn í Bretlandi eru á sextugsaldri, í Danmörku er meðalaldurinn um 47 ár og er Marianne Bruus Jelved elst eða 75 ára. Í Svíþjóð er meðalaldurinn um 45 ár og er Barbro Westerholmel elst 85 ára. Í þýskalandi var meðalaldur þingmanna fyrir kosningar 49.7 ár en í Frakklandi er hann 62.8 ár.

Fjölbreytni snýst ekki bara um kyn, kynþætti og kynhneigð heldur líka um aldur. Í framtíðarfræðunum er því haldið fram að hinir rosknu munu taka við völdum og hinir yngri munu ekki hafa aðgang því flestir kjósendur núna eru á miðjum aldri víða um heim og þeir eldast. Líklega verða fréttir um "roskna" þingmenn ekki fréttnæmar eftir áratug nema að þeir séu á níræðisaldri. 

Fjölbreytni í mannlífinu verður að endurspeglast á hinu háa Alþingi. Ef að vinnustaður hefði sömu starfsmannaveltu og flokkar á alþingi þá myndu vera fengnir margir sérfræðingar til að ráða í það. Ákveðin starfsmannavelta er heilbrigð en of mikil skapar rof í þekkingu og reynslu sem er erfitt.

Ég óska öllum þingmönnum, rosknum, ungum og miðaldra til hamingju og vona að þeir hafi mestan áhuga á að vinna landi og þjóð gagn.