c

Pistlar:

9. febrúar 2022 kl. 11:33

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Skák, tíska og frumkvöðlar.

Hefur þú einhvern tíman velt því fyrir þér af hverju ákveðin tískumerki slá í gegn en ekki önnur? Eða hvaða vara verður algjörlega nauðsynlegt að eignast til þess að teljast maður með mönnum? Hvers vegna pólitískt umhverfi breytist eða fasteignaverð sveiflast?

Alveg eins og það er talað um að hafa pólitískt nef sem útskýrist einhvern veginn þannig að sjá fyrir og skilja þá pólitísku leiki sem leiknir þá byrjar góður skákmaður aldrei nema hafa séð fyrir sér fyrstu leikina. Til þess að hafa pólitískt nef þarf fólk fyrst og fremst að hafa bæði áhuga á pólitíkinni, hvort sem er stjórnmálum eða pólitík á vinnustað, klókindi og framtíðarlæsi. Er skák leikur, íþrótt eða jafnvel list? Spurningin snýst í rauninni ekki um "annaðhvort/eða" heldur bæði. Sumir segja að endataflið sé það stig skákarinnar sem krefst mestrar rökhugsunar. Oft þarf að reikna langt fram í tímann og velja vandlega gang peðanna og kóngsins. Steve Jobs sem hannaði og kom fram með snjallsímann var sannfærður um að í framtíðinni myndum við vera með í símanum okkar; vasadískó, ökuskýrteinið, sjónvarp, útvarp, myndavél, tölvuna, læknirinn og bólusetningavottorðin svo fátt eitt sé nefnt. Fólk taldi hann vera skrýtin.

Hvað eiga tíska, pólitískt nef, skák og frumkvöðlar sameiginlegt?

Þeir sem skilja og sjá fyrir hvaða þarfir eru næstar eða að koma fram á sjónarsviðið, sjá lengra en aðrir, hvort sem er á skákborðinu eða í viðskiptum og ná lengra. Vísindamenn, frumkvöðlar og tískumógúlar hafa alltaf haft óendanlega áhuga á því sem koma skal en ekki bara áhuga heldur líka viljan til þess að hafa áhrif á það sem koma skal. Móta framtíðina

Flestir sem leggja í vana sinn að hlusta eftir þeim þörfum sem eru að koma fram gera það með skipulögðum hætti með því að leggja í ákveðna rannsóknarvinnu. Fyrirtækjastjórnendur hlusta á viðskiptavini með ýmsum hætti, þekkja og afla sér upplýsinga um samkeppnina og reyna að sjá fyrir hvernig viðkomandi atvinnugrein muni þróast. 

Spurningar eins og: Ef ég væri að stofna fyrirtæki mitt í dag hvernig myndi ég skipuleggja það og hvaða þörfum myndi það þjóna? Allir stjórnendur þurfa að setja upp KPI (key performance indicators) eða lykil mælikvarða, strategíu eða stefnumótun til þess að ná framtíðarsýninni en þá þarf hún líka að vera til og vera alveg kýrskýr.

Hvað með alla aðra starfsmenn, mig og þig? Hvort sem við erum launamenn eða giggarar þá náum við ekki árangri í nútímaumhverfi nema með framtíðarlæsi. Þarfir breytast, störf breytast, tækninni fleygir fram og pólitísk, efnahagslegt og samflélagslegt umhverfi er stöðugt að breytast.

Hver viðhorf stjórnenda, starfsmanna og okkar allra til breytinganna er veltur á því hvort við kunnum að lesa í sjóndeildarhringinn. Framtíðarlæsi er eins og skák, miðtaflið er hjarta skákarinnar. Þar á mesta sköpunin sér stað. Sá sem hefur frumkvæðið eftir byrjunina getur fundið leiðir til árása. Oft er sókn besta vörnin. Næsta Coco Chanel er ekki fædd ennþá en hún mun nýta þrívíddartækni, gervigreindina og samkeppnisgreiningar, nýjasta tækninýjungin verður líkleg til þess að breyta lífi okkar álíka og snjallsíminn og Afríka er næsta álfa tækifæra á mörgum sviðum.

Sóknin fyrir okkur öll er að undirbúa framtíðina með því að lesa í það sem koma skal og það er lykillinn að endataflinu í hverjum leik fyrir sig.