c

Pistlar:

21. júlí 2020 kl. 9:56

Ásdís Ósk Valsdóttir (asdisosk.blog.is)

Hvernig mælum við kvenleika?

 

Vertu þú sjálfur,

gerðu það sem þú vilt.

Vertu þú sjálfur,

eins og þú ert.

 

Margir þekkja þennan texta úr laginu Vertu þú sjálfur sem Helgi Björnsson söng með SSSól.

Hversu frábært og auðvelt væri lífið ef við gætum haft þetta að leiðarljósi? Að allir mættu vera þeir sjálfir ... eins og þeir eru.

Í síðustu viku framdi ég glæp, alveg hræðilegan glæp að mati sumra .... Í síðustu viku tók ég ákvörðun, án þess að bera það undir nokkurn mann eða konu, að ég ætlaði að gera ákveðnar breytingar á útliti mínu.

Í marga mánuði hef ég verið að bugast af hárlosi. Lúka á morgnana, önnur á kvöldin og fallegu hvítu flísarnar á baðherberginu mínu þaktar löngum dökkum hárum. Þegar ég lenti í gifsi annað árið í röð (án þess að vera brotin) fylltist ég hárbugun. Ég átti í verulegum vandræðum með að ráða við hárið á mér og sendi Örnu hárgreiðslukonunni minni skilaboð. Hárið þarf að fjúka, ég get ekki meira. Ég hef oft haft stutt hár og líkað það mjög vel. Það eru hins vegar orðin ansi mörg ár síðan og ég var pínu stressuð með þessa ákvörðun. Þetta er jú eitthvað sem þú tekur ekki til baka á stundinni. Um leið og það er búið að klippa hárið þá er það farið og það mun taka a.mk. ár að fá einhverja sídd af viti. Ég var næstum því hætt við daginn áður. Hvað ef ég verð hræðileg með þessa klippingu?, hvað ef mér líkar ekki við stutta hárið?, hvað ef? ...

Ég mætti í klippingu og ákvað að láta vaða. Hárið var eiginlega orðið ónýtt. Það var líflaust og leiðinlegt og algjörlega óviðráðanlegt. Ég íhugaði að fara aftur í Keratin meðferð hjá Hárnýung í Kópavogi því það gerði kraftaverk fyrir hárið á mér síðast þegar ég fór en var ekki viss um að hárlosið myndi lagast þannig að ég sá ekki aðra leið í stöðunni að losa mig við það og byrja upp á nýtt, svokallað RESETALL.

Stóri dagurinn rennur upp

Ég átti tíma rétt eftir hádegi. Eftir á hyggja mæli ég með því að eiga tíma eldsnemma svo að þú hafir ekki tíma til að hugsa of mikið um hvað sé framundan. Ég smellti mynd af mér áður en ég fór inn, svona til að eiga síðustu myndina af mér með sítt hár. Svo skellti ég mér í stólinn og Arna hófst handa. Ég ákvað að taka örvideo af því þegar hún klippti taglið af, kannski vottur af masókisma. Þegar Arna var búin að klippa mig gat ég ekki verið ánægðari. Mér fannst ég æðisleg með stutta hárið. Kvenleg, sæt og þessi klipping fór mér gífurlega vel. Þessi klipping var akkúrat ég. Ég fór í bílinn og smellti á mig rauðum varalit því þessi klipping hreinlega kallaði á rauðan varalit. Þetta var sannkölluð skvísuklipping. Ég ákvað að smella örvideóinu í story á Facebook og Instagram og svo setti ég inn svona fyrir og eftir mynd á samfélagsmiðlana. Ég nota samfélagsmiðlana mína sem dagbók. Mér finnst gaman að sjá hvað ég var að gera fyrir nokkrum árum og það koma allskonar minningar í ljós sem ég var jafnvel búin að gleyma. Þess vegna set ég inn það sem mig langar að muna. Einu sinni í svona kortér íhugaði ég að verða áhrifavaldur á Instagram. Ég var hins vegar fljót að átta mig á því að það var svo rosalega mikil vinna að ég myndi aldrei nenna því. Ég dáist hins vegar að þeim sem hafa náð árangri þar sem þetta er svo miklu meiri vinna en flesta grunar.

Fallegar jónur eiga ekki að vera með stutt

Ég var ekki fyrr búin að setja inn örvideóið en ég fékk skilaboð á Messenger á Facebook. Það var stutt og einfalt. Nei og reiður Emojikall. Ég var pínu týnd með þetta komment því ég kannaðist ekki við að hafa verið að gera neitt af mér. Ég sendi því ? til baka. Þá kom skýringin. Fallegar jónur eiga ekki að vera með stutt

Ég horfði á þennan texta í smá stund og hugsaði, hvað gengur manninum eiginlega til? Hvað er að vera falleg jóna?

Fyrst datt mér í hug að hann hefði ruglað mér við Jónu vinkonu sína. Hann hefði verið eitthvað pirraður út í hana og ætlað að senda henni skilaboð en ekki mér. Ég meina, það er mjög auðvelt að rugla þessum 2 nöfnum saman. Ásdís Ósk og Jóna er næstum því alveg eins. Ef þú telur stafina í Ásdís Ósk þá eru þeir 8, deilir þeim svo í 2 þar sem þetta eru 2 nöfn þá ertu komin með 4 stafi sem eru jafnmargir stafir og í nafninu Jóna og svo erum við báðar með ó í nafninu okkar. Mjög auðvelt að ruglast.

Hinn möguleikinn var að hann hefði ætlað að senda þetta á einhvern sem sæi honum fyrir ákveðinni tegund af sígarettum. Ég hef aldrei reykt, hvorki löglegar sígarettur né ólöglegar en einhvern tímann heyrði ég talað um að vefja jónu. Þannig að hinn möguleikinn var auðvitað að hann hefði ætlað að senda kvörtun yfir illa vafinni jónu. Það er reyndar líklegra þar sem hann notaði jónur með litlu J en kvennafnið Jóna er sérnafn og ef ég man nafnareglurnar í íslensku rétt þá skal alltaf rita sérnafn með stórum staf.

Svo fór ég að hugsa og hugsa. Kærastinn segir að ég eigi til að ofhugsa en þarna fór heilinn á yfirsnúning. Getur verið að það séu til einhver lög að allar konur á Íslandi sem heita Jóna og eru fallegar eigi að vera með sítt hár? Hvernig ætli þetta sé metið? Hvernig er fegurðarstaðalinn fundinn og hver er lögleg sídd á hári? Er það axlasítt, niður á mitt bak eða hreinlega alla leið niður á rass? Ég ákvað að googla þetta. Prófaði þetta: Mega fallegar jónur hafa stutt hár? Það skilaði ekki neinum vitrænum niðurstöðum. Það var í raun alveg sama hvaða texta ég reyndi að googla. Ég fann ekkert út úr þessu. Ég komst því að þeirri niðurstöðu að þetta hlyti að vera mjög lokaður klúbbur sem tæki þessa ákvörðun. Mögulega einhvers konar nefnd eins og mannanafnanefnd, nema þessi heitir: Viðurkennd hárlengd á fallegum jónum.

Ég þakkaði mínum sæla fyrir að foreldrar mínir hefðu þekkt þessa reglu þegar þau létu skíra mig og völdu því ekki nafnið Jóna heldur Ásdís Ósk (þó að það sé rosalega líkt Jóna) og ég mátti því ráða mér alveg sjálf. Ungabörn eru almennt voðalega sæt og því engin leið að sjá hvort að það verði nógu ljótt til að fá að ráða sér sjálft þegar það stækkar. Ég var því mjög ánægð að hafa sloppið með skrekkinn þarna.

Sú sem er hægra megin er kvenlegri og hefði átt að vera jafn vel til höfð

111691021_691801951403255_2196943807433001764_nÉg setti inn fyrir og eftir myndina mína. Hún er tekin á sama stað og í sömu fötum. Eini munurinn var hárlengdin og rauði varaliturinn. Flestum fannst þetta mjög fínt en svo kom þetta komment: Sú sem er hægra megin er kvenlegri og hefði átt að vera jafn vel til höfð. Sem sagt þessi hægra megin var þessi með síða hárið og hún var kvenlegri. Ég velti því fyrir mér hvaða staðlar eru fyrirmynd þess að dæma hvort að konur með sítt eða stutt hár séu kvenlegri. Þessi ókvenlega var með rauðan varalit. Er það að hafa sig til að setja á sig rauðan varalit? Er kona ótilhöfð ef hún fer út úr húsi án þess að setja á sig varalit? Hvar liggja mörkin, dugar varalitur eða verður kona líka að setja á sig maskara og augnskugga?. Hver sér um að dæma þetta? Er einhver nefnd sem dæmir og gefur út leiðbeiningar til kvenna hvernig þær geta verið kvenlegar og hvað dugar til að hafa sig til? Gildir það sama um karlmenn?

Þarna klóraði ég mér hressilega í hausnum og það verður að viðurkennast að það var svakalega auðvelt þar sem ég var með svo lítið hár. Ég hefði nú flækt puttana í hárflókanum sem ég var með og aldrei fundið lausnina. Ég mundi að ég átti leiðbeiningabæklinginn inn í stofu. Þetta er bók sem mamma hafði átt þegar hún var ung kona og ég hafði aldrei tímt að láta frá mér því ég vissi að sá dagur rynni upp að ég þyrfti á henni að halda. Dagurinn sem ég yrði að fá leiðbeiningar hvernig ég gæti verið kvenleg og haft mig til án þess að verða mér til skammar á almannafæri. Bókin heitir hvorki meira né minna en “In search of charm” eftir Mary Young og kom út 1962. Ég sá á Amazon að þetta var snilldarrit og hægt að kaupa á hvorki meira né minna en 230.74 dollara. Þetta hlaut að vera málið.

Tízkubókin

Mín bók er á íslensku og heitir tízkubókin. Hún er heildar leiðbeiningarit fyrir ungar stúlkur, allt frá svipmóti og fasi til að eignast sína eigin íbúð. Mér til happs var þarna kafli sem heitir Hreinlæti og þarna var undirkafli sem heitir hárið. Svo eru líka frábærir kaflar eins og Röddin og Hláturinn, þar er mitt uppáhald “að tala of hátt – þetta getur verið ókvenlegt, uppskafningslegt og ónærgætnislegt. Að nota skrílmál og bölva – Þetta er ekki síður ókvenlegt og mjög ógeðfellt. Meira að segja getur verið að sumir líti á það sem “fordild”” ja há, ég á greinilega ansi margt ólært um að verða kvenleg og settleg. Ég þarf líka mögulega að leggja hjólinu, hún Mary vinkona var nú ekki of hrifin af því að láta mana konu í að hjóla upp brekku "Látið ögranir beztu vina yðar, sem vind um eyrun þjóta, stígið af baki með fullri reisn og gangið. Að öðrum kosti eigið þér á hættu að ofbjóða öllum líkama yðar með gjörsamlega þarflausu striti" 

Kaflinn sem ég þurfti samt mest að kynna mér var kafli 7 sem fjallaði um hreinlæti og umhirða hárs er einn undirkafli þarna.

Hárgreiðsla: Ef þér hafið fallegt hár og andlit og höfuð í stíl við sígilda gríska fegurð, skiptir væntanlega litlu hvaða hárgreiðslu þér notið. .... Aðeins sárafáar stúlkur njóta slíkrar fegurðar og því fyrr sem við gerum okkur þetta ljóst hvað við getum leyft okkur og hvað ekki í hágreiðslu, því betra. Já, það er bara þannig. Hún Mary var ekkert að grínast með þetta. Samt sló það mig aðeins þarna segir Mary að ef þú ert nógu falleg þá máttu gera það sem þú vilt við hárið á þér. Hún var ekkert að skilyrða þetta í hár niður á rass? Getur verið að það hafi ekki allir lesið tízkubókina? Ég ákvað því að skoða þetta aðeins nánar. Það fyrsta sem vakti áhuga minn var að það var mynd af 4 mismunandi hágreiðslum, þær voru allar stuttar. Mátti þetta í gamla daga?  Máttu konur vera eins og þær vildu? Hvenær breyttist þetta?  Þetta var nú samt ekki alveg svona einfalt. Mary var með nokkrar reglur en hún var ekki að horfa á útlit kvenna heldur gerð höfuðs. Hún skipti þessu í 4 tegundir: Stórt höfuð, lítið höfuð, breiðleit og hátt enni. Þarna vandaðist málið. Ég er nefnilega bæði með stórt höfuð og breiðleit. Mitt höfuð er svo stórt að þegar ég útskrifaðist sem stúdent frá MA 1989 þá þurfti ég næst stærstu stúdentshúfuna. Mér fannst þetta alltof flókið og ákvað að gera það sem ég er vön. Vera sjálfhverf og hafa ekki áhyggjur af því að ég passaði ekki inn í fyrirframákveðið norm og staðla sem einhver er búinn að ákveða að ég þurfi að uppfylla.

Hvert á að troða óumbeðnum athugasemdum?

Ég á þrjú börn og hef því náð að sjá Ávaxtakörfuna ótal sinnum og kanna alla textana utan að. Mér til happs fannst mér alltaf jafngaman. Það voru aðrir þættir sem ég átti aðeins erfiðara með eins og Stubbarnir og Dóra. Þegar þú ert búin að sjá 10.000 þætti af Stubbunum þá er komin smá andleg bugun. Ég tengdi vel við Evu Appelsínu. Þessi sem er svo hrjúf á yfirborðinu en er svo ljúf eins og lamb þegar á reynir. Eva syngur lagið Litir og það hefst á þessum línum:

Ef spegilinn gæti talað
þá myndi hann segja við mig
að ég væri fegurst, flottust og fínust
það myndi’ hann segja við mig

En ef að það væri eitthvað
sem mig líkaði ekki við
ég skæri það burt og límdi svo nýtt
sem ætti þá betur við mig

Það var akkúrat það sem ég gerði. Mér líkaði ekki við hárið á mér og læt því fjarlægja það. Hvernig stendur á því að fólki út í bæ finnst það hafa rétt á því að segja mér hvort að ég megi hafa stutt hár eða ekki?. Að ég sé ekki nógu kvenleg með stutt hár. Hvað ef þetta hefði ekki verið hárlos?, hvað ef ég væri á leiðinni í lyfjameðferð og vissi að ég myndi missa hárið og þetta væri mín leið til minnka áfallið við að missa hárið. Hvað ef ....

Í hvert einasta skipti sem þú velur að troða óumbeðnum athugasemdum upp á aðra þá ertu að segja að viðkomandi sé ekki nógu góður að þínu mati. Hver ert þú að ákveða að einhver eigi að vera svona eða hinseginn?. Væri ekki dásamlegt ef við gætum öll verið Eva appelsína, horft í spegillinn og sagt ég er æði alveg eins og ég er. Ekki heyra þú værir líklega sætari ef þú misstir nokkur kíló. Þessi kjóll er of stuttur á þig. Þú ert of hávaxin til að vera í svona háum hælum. Stelpur mega ekki vera með stutt hár, strákar eiga ekki að vera með of sítt hár eða í kjól. Í hvert skipti sem við gefum þessum óumbeðnu athugasemdum pláss innra með okkur þá taka þær pláss í sálartetrinu. Stundum eru þær svo veigamiklar að þær verða að þungum steinum sem fara neðst í bakpokann okkar og verstu athugasemdirnar hanga þarna á botninum út ævina. Eini aðilinn sem tapar erum við sjálf. Við sem leyfum þeim að sitja eftir. Það er ekki auðvelt að hunsa þær. Það þarf hins vegar að gera það. Ég er heppin. Ég fór í mikla sjálfskoðun fyrir nokkrum árum og tæmdi bakpokann minn að mestu en oft finn ég eitt og eitt grjót sem sat eftir og ég þarf að losa mig við. Í dag er mér alveg sama hvort að einhverju fólki út í bæ finnst ég ókvenleg með stutt hár eða hvort ég sé nógu sæt eða ekki til að þurfa að hafa sítt hár. Fyrir nokkrum árum hins vegar hefði ég tekið þetta gífurlega inn á mig.

Kosturinn við núverandi ástand, þ.e. Kórónuvírusinn og samskiptafjarlægðina er að þú þarft ekki lengur að segja neitt. Ef þú getur ekki sagt neitt jákvætt því ég er svo illa til höfð í ljótum óklæðilegum fötum með ömurlega klippingu þá dugar að kinka kolli og kannski splæsa í smá bros. Þú getur haldið góðri fjarlægð og sleppur við að koma með óumbeðnar athugasemdir.

Má þá ekkert segja?

Hvernig er það Ásdís, má þá ekkert segja?. Þolir þú ekki smá djók?. Jú ég geri það og það má segja allskonar. Það má segja, það er spínat fast í tönnunum á þér. Það er varalitur út á kinn. Kjóllinn þinn er girtur ofan í nærbuxurnar þínar. Gaman að sjá þig. Svona mætti endalaust segja. Hins vegar ef þú hefur ekkert gott að segja þá er yfirleitt betra að hafa það bara fyrir sjálfan þig. Það þurfa fáar konur að heyra að þær væru kvenlegri með sítt hár, eða kjóllinn gerir rassinn á þeim allt of stóran. Það sem er gott að hafa á bakvið eyrað er að neikvæðar athugasemdir sitja eftir og þær vega tífallt á við jákvæðar athugasemdir. Einhvern veginn seljum við okkur að þegar við fáum hrós að þetta sé nú bara fólk að reyna að vera kurteist en þegar við fáum löst að það hljóti að vera rétt.

Það var ekki fyrr en ég losnaði við hárið að ég fann hvað það var búið að vera íþyngjandi síðustu mánuði. Þessi daglegi morgunpirringur að vera með lúkuna fulla af hárum. Að þurfa alltaf að vera tilbúin ef ég þyrfti að fara á fund. Ég hef ekki tölu á því hversu oft datt inn óvæntur fundur eða ég var búin að gleyma eignavideo sem ég var að fara að mynda og hárið á mér var eins og á lukkutrölli. Það tók rúman klukkutíma að hemja hárið. Allir jakkar voru fullir af teygjum ef ég skildi fara í óskipulagða gönguferð og tíminn sem það tók að græja hárið eftir sundferð var svo langur að stundum nennti ég ekki á æfingar. Það sem ég öfundaði vinkonur mínar að geta skellt sér í sturtu og hárið þornaði á meðan þær voru að klæða sig og varð fínt á 5 mínútum. Mitt hár lét einfaldlega ekki að stjórn. Stundum var það gott í klukkutíma, stundum hálfan daginn og ef ég var virkilega heppin þá var það til friðs næstum því út daginn.

114899951_670313323571758_2942653313305183426_nÞegar hárið fór þá vaknaði skvísan í mér svo um munaði. Ég naut þess að setja á mig rauðan varalit (vitið þið hvað það er mikið vesen að vera með rauðan varalit á Íslandi. Það má ekki koma smá rok og þá flækist hárið í honum og þú verður rauðan varalit klíndan út á kinn) og fór í smá shopping með vinkonu til að kaupa mér skvísuföt.

Kærastinn var ánægður með breytinguna og sagði að ég hefði yngst um 15 ár. Það geislaði af mér hvað ég væri ánægð með breytinguna. Mér fannst Gígja Þórðardóttir segja þetta svo ansi vel í athugasemd á mínu Facebook: “þú ert alltaf flottust þegar þú ert sátt í eigin skinni, með eða án hárs, fata eða varalits.

Frelsið þegar þú hættir að innbyrða óumbeðnar athugasemdir og burðast með þær í gegnum lífið er ólýsanlegt. Þegar þú færð kjark til að vera þú sjálf alveg eins og þú vilt. Ég hugsaði að líklega er þetta bara mín kynslóð sem er að velta því fyrir sér hvort að konur séu kvenlegri með sítt eða stutt hár og þetta myndi því smátt og smátt hverfa. Í dag er ekkert verið að spá í hvernig stelpur eiga að vera.

Ég var því mjög hissa þegar vinkona mín benti mér á pistil sem Bára Ingibergsdóttir skrifaði um upplifun dóttur hennar á Símamótinu. Símamótið er stelpumót og það má því leiða að því líkum að þetta séu stelpur að spila fótbolta. Dóttir hennar sem velur að vera snoðklippt varð fyrir ótrúlegu aðkasti vegna þess að síddin á hárinu á henni var ekki að passa inn í kassann. Hvaða kassa og hver ákvað kassann? Það er 2020 og stelpur eiga ennþá að vera með sítt hár, amk nógu sítt til að passa inn í normið?

Ég ætla að ljúka þessu bloggi með pistilinum frá Báru sem ég fékk leyfi til að birta í heild sinni

Símamótið 2020

Frábært Símamót að baki og það er alltaf jafn skemmtilegt að horfa á börnin sín spila, sjá baráttuna og framfarir hjá þeim.
Spennan er oft á tíðum mjög mikil og veldur meiri hjartsláttartruflunum hjá foreldrum heldur en þegar þeir horfa á Ísland spila. Talandi um foreldra þá er það okkar upplifun að lang flestir foreldrar eru til fyrirmyndar og hvetja börnin áfram með uppbyggilegum hætti. Hrósa sínum eigin börnum og liðinu þeirra og bera virðingu fyrir öðrum börnum. Það koma þó enn of mörg atvik upp þar sem framkoma foreldra er út úr kortinu.

Eins og flestir vita þá eigum við hana frábæru Hólmfríði Birnu sem kýs að fara sínar eigin leiðir í hárgreiðslu og fatavali og fellur því ekki í hið svo kallaða “norm” fyrir stelpur. Hófí okkar er samt æðislega flott og sjálfstæð stelpa sem æfir fótbolta og hefur gaman af öllum þeim hlutum sem börn hafa annars gaman af.
Hún getur hins vegar skilið að einhverju leyti af hverju fólk mistekur hana oft á tíðum fyrir strák. Hún skilur það samt ekki alveg fullkomnlega, því hún hefur oft sagt við okkur: En mamma, sér fólkið ekki á andlitinu á mér að ég er stelpa? Þegar fólk segir HANN um hana, í hennar viðurvist er hún alveg róleg yfir því og bíður bara eftir því að við segjum eitthvað. Hún er nefnilega oftast of feimin til þess að leiðrétta það sjálf við fullorðna og ef við erum ekki með þá sleppir hún því oft að leiðrétta. Hún á hinsvegar mun auðveldara með að leiðrétta þetta við börn. Hún biður okkur því ávallt um að leiðrétta fólk sem ávarpar hana sem strák, sem við gerum að sjálfsögðu með kurteisum hætti.

Hófí er búin að æfa fótbolta í 5 ár og hefur verið stuttklippt í 4 ár af þeim tíma, ég held að við höfum heyrt athugasemdir/vangaveltur frá foreldrum á hliðarlínunni á örugglega hverju einasta fótboltamóti sl. 4 ár. Er STRÁKUR í liðinu? Ætli það séu ekki nógu margar stelpur að æfa í Aftureldingu? Mega STRÁKAR keppa með stelpum? Slíkar vangaveltur eru að sjálfsögðu leiðréttar strax af okkar hálfu, því barnið okkar heyrir og börnin ykkar heyra líka. Með þessum athugasemdum er sífellt verið að efast um tilverurétt hennar á mótunum og það særir hana djúpt.

Um helgina var Hófí að spila leik með liðinu sínu og í liðinu hennar eru 7 frábærar stelpur, þar af tvær stutthærðar. Leikurinn byrjaði strax af krafti var æsispennandi frá fyrstu mínútu og við foreldrarnir vorum dugleg að hvetja stelpurnar. Við kölluðum iðulega inn á völlinn: Áfram STELPUR!!! Koma svo, berjast STELPUR!!! Hrósuðum og hvöttum einstaka leikmenn áfram með því að kalla nöfnin þeirra (ætti að vera nokkuð augljóst að það væru eingöngu stelpur í liðinu). Fljótlega heyrðu nokkrir foreldrar í liðinu okkar miður fallegar og háværar athugasemdir frá foreldrum í hinu liðinu. Athugasemdir á borð við: Já já, bara verið að leyfa STRÁKUNUM að skora!!! Koma svo ekki láta STRÁKANA taka ykkur!!! Passið ykkur á STRÁKUNUM!!! Við stóðum hinum megin á hliðarlínunni og heyrðum ekki þessar athugasemdir. Við urðum því ekki vör við neitt fyrr en við sáum litlu feimnu stelpuna okkar snúa sér að foreldrunum í hinu liðinu í miðjum leik og öskra úr sér lungun: VIÐ ERUM EKKI STRÁKAR, VIÐ ERUM STELPUR!!!
Hjartað í mér tók kipp, ég hljóp yfir til foreldranna í liðinu okkar og var upplýst um hvernig foreldrarnir í hinu liðinu voru búnir að haga sér gagnvart 10 ára gömlum börnunum okkar, þvílík vanvirðing og dónaskapur. Eingöngu til þess að stuða 10 ára gamlar stelpur sem eru að spila sinn leik.
Við bentum foreldrunum á að það væru bara stelpur í liðinu og settum út á þessar athugasemdir þeirra. Viðbrögðin sem við fengum frá þeim voru svo langt í frá að vera eðlileg. Ég, ásamt fleiri foreldrum, misstum því alveg kúlið og það gjörsamlega sauð á okkur. Þetta endaði því miður í háværu riflildi, sem stelpurnar urðu vitni að. Slíkt var auðvitað ekki hegðun til fyrirmyndar af okkar hálfu og alls ekki eitthvað sem að mig langar til að endurtaka. Það tók mig langan tíma að jafna mig á þessum samskiptum en á sama tíma og ég logaði af reiði, þá var ég svo ótrúlega stolt af stelpunni okkar að láta í sér heyra.
Ljósi punkturinn við þessa uppákomu var þó sá að tveir foreldrar í hinu liðinu komu eftir leikinn og báðu stelpurnar afsökunar á að hafa kallað þær stráka. Þær gengu því glaðar frá leiknum með sigur og afsökunarbeiðni í hendi. Sáttar með leikinn en atvikið situr ennþà í fersku minni hjá Hófí.

Svo að það sé á hreinu þá er mórall sögunnar ekki sá að það sé óeðlilegt halda að þær séu strákar, eins og hefur komið fram hér að ofan, þá er eðlilega hægt að halda það um Hófí. Hins vegar hafa ítrekaðar athugasemdir um útlit þeirra og athugasemdir þar sem er verið sí endurtekið að rengja rétt þeirra til tilveru á ákveðnum stöðum, hvort sem það er kvk fótboltamót, kvk salerni eða kvk búningaaðstaða, mikil áhrif á sjálfsímynd og sjálfstraust barnanna okkar til frambúðar.

Ég hélt hreinlega að við værum komin lengra.
Er ekki annars komið árið 2020 og mega börnin okkar ekki bara hafa fullt frelsi til þess að fylgja sínu hjarta hvað varðar útlit, stíl og áhugamál án þess að aðrir hafi skoðanir á því?

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals

Ásdís Ósk Valsdóttir

Ásdís Ósk Valsdóttir

Fasteignasali, 3ja barna móðir og áhugamanneskja um heilbrigðan lífstíl og njóta lífsins til fullnustu

Meira