c

Pistlar:

17. desember 2020 kl. 17:55

Ásdís Ósk Valsdóttir (asdisosk.blog.is)

Hvað er heilsusmánun?

Til að vera alveg hreinskilin þá veit ég ekki alveg hvort að þetta orð sé til í íslenskri tungu eða hvort að ég sé að búa til nýyrði. Eins og með margt annað þá fer ég mínar leiðir.

Ég er búin að vera lengi á leiðinni að skrifa þennan pistil en núna get ég ekki lengur setið á mér. Áður en þú hugsar, óttalega er konan pirruð ætli hún sé að byrja á túr þá er svarið alls ekki. Fór í legnám 2016 og því laus við það leiðindavesen.

Alveg frá því að ég byrjaði að breyta um lífstíl hef ég fengið að heyra það reglulega hvað þetta séu miklar öfgar hjá mér og þetta sé kannski ekki svakalega góð hugmynd.

Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég hef fengið vel meinandi athugasemdir sem byrja svona:
Ég ætla ekki að vera leiðinleg/ur EN
Nú er ég engin sérfræðingur EN
Þú mátt ekki fara framúr þér
Þú átt bara einn líkama
Er þetta ekki full öfgafullt hjá þér?
Er ekki betra að sníða sér stakk eftir vexti?

Það er gott að hafa á bakvið eyrað að þetta eru allt óumbeðnar athugasemdir frá vel meinandi aðilum. Svo eru það athugasemdirnar sem ég heyri útundan mér sem eru ennþá meira krassandi.

Hvað eru óumbeðnar athugasemdir?

Allar athugasemdir sem koma EKKI í kjölfarið á spurningu frá mér sem byrjar á HVAÐ FINNST ÞÉR?
Nokkrar klassískar eru:
Þú vaknar of snemma!
Þú sefur of lítið!
Þú æfir of mikið!
Er ekki komið nóg, þarftu að grennast meira?

Ég heyrði hins vegar aldrei neitt af neðantöldu þegar ég var 95 kg og stundaði enga hreyfingu:
Þú sefur of lengi!
Þú ferð of seint í rúmið!
Þú þarft að hreyfa þig meira!
Ætlar þú virkilega að borða þetta allt?
Er ekki nóg komið. Þarftu ekki að fara að gera eitthvað í þínum málum?

Hvers vegna gagnrýnir fólk frekar aktívan lífstíl og kjörþyngd frekar en kyrrsetu og ofþyngd?
Ég hef velt þessu fyrir mér alveg síðan ég breytti um lífstíl. Hvers vegna finnst mörgum þetta svona miklar öfgar hjá mér og hvers vegna þeim finnst þörf á því að hafa vit fyrir mér? Leiðbeina mér góðlátlega eingöngu af því að ég fer út úr þeirra þægindahring. Ég á vin sem er fallhlífastökkvari. Aldrei myndi það hvarfla að mér að benda honum á að fallhlífastökk geti verið mjög hættulegt bara af því að mér finnst það ógnvekjandi. Ég lít svo á að þetta sé hans líf og hans að taka ákvarðanir hvernig hann vill lifa því.

Froskurinn sem klifraði upp súluna

Ein uppáhaldsdæmisagan mín er af froskum sem bjuggu saman í þorpi. Í miðju þorpinu var há súla sem margir froskar höfðu reynt að klifra upp en aldrei tekist. Í hvert skipti sem einhver reyndi það söfnuðust allir froskarnir saman (gerðist pottþétt ekki 2020 enda voru þeir fleiri en 10) og hópurinn fór að viðra sína skoðun. Þú getur þetta aldrei, þetta er svakalega hátt, þú átt eftir að detta, ÞAÐ HEFUR ENGINN GETAÐ ÞETTA. Allir froskarnir sem reyndu duttu niður og hópurinn hafði sér fyrir sér. Hvers vegna að reyna? Það hefur enginn getað þetta. Einn daginn sáu froskarnir að lítill froskur var byrjaður að klífa súluna og þeir hófu upp sama sönginn. Aldrei þessu vant hélt litli froskurinn áfram að klífa og alveg sama hvað aðrir sögðu, hann hélt áfram. Hægt og rólega mjakaðist hann upp og loksins náði hann upp á topp. Þegar hann kom niður hópuðust froskarnir í kringum hann og vildu vita hvað leyndarmálið var.  Hvers vegna gat hann það sem enginn annar gat? Þá kom í ljós að froskurinn var heyrnarlaus og gat því ekki heyrt fortölur annarra.

Eftir að ég ákvað að verða froskurinn og loka eyrunum fyrir óumbeðnum athugasemdum hefur allt gengið miklu betur. Ég þarf ekki lengur að velta mér upp úr þessu. Hvað ef þau hafa rétt fyrir sér, hvað ef ég get þetta ekki, hvað ef ég er að fara fram úr mér, hvað ef ég borða vitlaust, HVAÐ EF....

Það er átak að byrja á nýjum lífstíl

Ég ræði stundum við vini mína hversu þreytt ég er á þessum óumbeðnu athugasemdum. Að ég þurfi stöðugt að vera að réttlæta mitt líferni og mínar ákvarðanir fyrir öðrum. Þau segja yfirleitt. Það er einmitt svo flott hjá þér, þú svarar svo vel fyrir þig og stendur með þér. Já í dag geri ég það og í dag hefur þetta miklu minni áhrif á mig en samt í hvert skipti sem ég fæ svona óumbeðna athugasemd sest pínkuponsulítill efasemdarpúki á öxlina á mér og hvíslar. “Hvað ef þau hafa rétt fyrir sér”. “Hvað ef” segi ég á móti, “ég reyni þá bara aftur” og hristi hann af mér.

Hann var ekki alltaf svona lítill. Þegar ég byrjaði mína vegferð var hann stór og pattaralegur sem sligaði mig og öskraði að þau hefðu rétt fyrir sér, að ég gæti þetta pottþétt ekki. Ég var stútfull af efasemdum um hvað ég gæti og allt sem ég gerði efaðist ég. Þegar ég skráði mig í Landvættina þá vissi ég alveg að ég væri í ömurlegu formi en ég ræddi við nokkra. Sumum fannst þetta galin hugmynd en þeir sem höfðu gert þetta áður studdu mig. Arna Torfadóttir sagði þetta svo vel, “ef þú vilt þetta getur þú það”. Hilda vinkona sem hefur staðið eins og klettur með mér allan tímann sagði “þetta er ekki auðvelt og þetta verður hellings vinna”. Ég vissi það alveg. Hún sagði hins vegar aldrei, “þú getur þetta ekki, þetta er of mikið fyrir þig”.

Það er gífurlega mikið átak að hefja nýjan lífstíl og þeir sem fara þá leið þurfa á stuðningi að halda, ekki gagnrýni og niðurrifi.

Hættu að deila á Samfélagsmiðlana ef þú höndlar þetta ekki!

Jú, þetta er ágætispunktur. Ég nota mína samfélagsmiðla sem dagbók. Instagrammið mitt er dagbókin mín. Mér finnst gaman að sjá hvað ég var að gera fyrir ári og/eða í síðasta mánuði. Margir hafa samband við mig til að láta mig vita að þetta efni sé hvetjandi fyrir þá og mér þykir alltaf gífurlega vænt um það. Svo eru aðrir sem eru minna hrifnir og láta mig líka vita af því. Samfélagsmiðlar eru samt svo þægilegir að þeir eru valfrjálsir. Ef eitthvað efni pirrar fólk þá er best fyrir sálartetrið að hætta að skoða efnið.

Heilsusmánun vs fitusmánun

Í dag er viðurkennt að fitusmánun er ömurleg og mér finnst það mjög jákvætt framfaraskref. Hvers vegna er heilsusmánun þá í lagi? Hvers vegna er í lagi að gagnrýna fólk fyrir að lifa of heilbrigðum lífstíl (hvaða mælikvarði er í gangi og hver ákvað það) á meðan það er bannað að gagnrýna kyrrsetulífstíl?
Hvers vegna má gagnrýna fólk fyrir að vera of grannt á meðan það má ekki gagnrýna fyrir að vera of feitt?

Þú værir betri með aðeins meira utan á þér!

Ég er með allskonar vini á Facebook og ein setti inn mynd af sér á Facebook í nýja jólakjólnum. Þetta er kona sem er búin að vinna mikið í sér, taka til í sínu lífi bæði andlega og líkamlega og létta sig um tugi kílóa. Hún var stórglæsileg í kjólnum. Flestar athugasemdir sem hún fékk voru mjög jákvæðar og svo voru það þessar:

Stórglæsileg kona í grennri kantinum.

Ég bara verð að segja eins og er þá finnst mér þú Jóna mín þú vera flottari með smá utaná þér

Ef þessi kona hefði verið búin að bæta á sig tugum kílóa hefði einhverjum dottið í hug að kommenta. “Fallegur kjóll en hann myndi fara þér betur ef þú værir ekki svona feit”. Vonandi ekki, það sér hver heilvita maður og kona að það sé bæði meiðandi og særandi.Það gleymist oft að margir eru grannir að eðlisfari og geta ekki þyngt sig sama hvað þeir reyna. Svona athugasemdir eru alveg jafnsærandi hvort sem þú ert grannur eða ekki.

Passaðu þig að hverfa ekki!

Eftir að ég grenntist hef ég ekki tölu á því hversu oft ég heyrt “Passaðu þig á því að hverfa ekki”. Hvert heldur fólk að ég hverfi? Að ég þekki Harry Potter og hann hafi lánað mér huliðsskikkjuna sína og ég geti því horfið að vild. Hvað þýðir eiginlega ekki hverfa? Get ég orðið svo mjó að ég gufi upp einn daginn? Getur það gerst að ég verði svo létt að ég verði eins og biðukolla og í næstu vindkviðu muni ég fjúka út í buskann.

Ég las einu sinni bók um mann sem fann upp ferðaklefa. Þetta var algjör snilld og hefði nýst vel í ár. Þú fórst inn í svona símaklefa, valdir staðsetningu og svo varstu færður þangað á ljóshraða. Flugvélar urðu óþarfar. Svo dag einn fór fólk að hverfa í orðsins fyllstu merkingu út um allan heim. Það sat kannski við matarborðið sitt og hvarf. Þegar ferðaklefarnir voru rannsakaðir kom í ljós að við hverja ferð var í raun búið til ljósrit af manneskjunni og frumritið eyðilagðist. Ljósritin þoldu bara ákveðin fjölda afrita og svo urðu þau ónýt. Kannski er fólk að segja að ég sé ljósrit?

Ég hef meira að segja fengið að heyra. Þú mátt nú alls ekki missa meira, frekar að þú þyrftir að bæta aðeins á þig. Það myndi líklega einfalda lífið til muna ef það væri hægt að búa til einn alheimsstaðal sem við pössum öll inn í.

Hvað má þá segja?

Þessi setning, ef þú hefur ekkert jákvætt að segja er betra að þegja á alltaf við, ekki bara þegar þér hentar. Til að auðvelda þetta eru hér nokkrar æfingar.Ef þér finnst setningin óviðeigandi með of þungur eða of feitur þá er líka óviðeigandi að nota of léttur eða of grannur.

Tökum dæmi. Þú verður að borða meira, þú ert orðin alltof grannur er jafnóviðeigandi og þú verður að borða minna þú ert orðinn alltof feitur.


Þú mátt ekki hverfa / Þú mátt ekki springa úr spiki
Ætlar þú ekki að fá þér meira? / Ætlar þú virkilega að borða allt þetta?
Þú hreyfir þig alltof mikið / Þú verður að hreyfa þig meira
Mér finnst þú fallegri með meira utan á þér / Þú værir fallegri ef þú værir ekki svona feit
Þessi kjóll færi þér betur ef þú værir ekki svona grönn / þessi kjóll færi þér betur ef þú værir ekki svona feit

Aðgát skal höfð í nærveru sálar gildir alltaf óháð líkamsþyngd. Líkamsvirðing er fyrir alla ekki suma.

Of aktíft fólk, pínu óþolandi ekki satt?

Ég þekki marga sem eru komnir yfir sextugt og eru í gífurlega góðu formi. Svo góðu að ég lít á þau sem mínar fyrirmyndir. Hvernig ég vil verða þegar ég verð sextug. Ég ræddi þetta við eina konu og ég sagði henni hvað mér finndist hún frábær fyrirmynd. Þá sagði hún: “ég er nú eiginlega hætt að deila því sem ég geri á Facebook þar sem ég fæ svo mikla gagnrýni á alla þessa hreyfingu”. Hvað er málið með það? Hefur einhver fengið gagnrýni fyrir að setja inn of margar myndir í notalegheitum, of mörg matarboð, aðeins að tríta sig, upp í bústað að slaka sér. Hinsvegar ef þú setur inn of margar hreyfimyndir þá færðu skammir? Þarf ekki eitthvað að skoða þetta?

Hver er munurinn á því að smána mig fyrir að hreyfa mig of mikið eða smána mig fyrir að hreyfa mig ekki neitt?
Hvers vegna er það viðurkennt að það sé í lagi að tríta sig smá (mjög loðin þessi skilgreining á smá) en það sé öfgafullt að borða ekki sykur.

Það þarf að njóta. Bolludagurinn kemur bara einu sinni á ári. Líka afmælið mitt, afmæli allra hinna sem ég er boðin í, páskarnir og páskaeggin, aðventan, jólaboðin, jólamaturinn, konudagurinn, bóndadagurinn, 17. júní og svo yndislega sumarið með öllum sínum grillveislum og hittingi.

Ef ég hefði hlustað á allar úrtöluraddirnar þegar ég var að byrja að hreyfa mig og breyta um mataræði þá væri ég ekki búin að ná þeim árangri sem ég hef náð í dag. Líklega hefði ég gefist upp eina ferðina enn og væri ennþá 95 kg. sófakartafla nema mögulega væri ég aðeins þyngri.

Hvernig væri að við myndum leyfa öllum að breiða út sína vængi og fljúga eins hátt og þeir vilja, ekki bara þeim sem fljúga innan þíns þægindaramma.

Það hafa allir rétt á að vera þeir sjálfir

Mig langar að ljúka þessum pistli með orðum Erlu Gerðar Sveinsdóttur læknis.

Heilsusmánun er frábært nýyrði en reyndar sorglegt að það þurfi að vera til. 
Holdafar fólks er ekki eitthvað sem öðrum kemur við -  i hvaða átt sem er.
Sama gildir um lífsstíl. Það er aldrei hægt að gera svo öllum líki og ekki þess virði að reyna það.
Kúnstin er að finna það sem hentar okkur sjálfum á hverjum tíma og standa með sjálfum sér.
Mikilvægt er að geta rætt sitt holdafar og lífsstíl við fagfólk í heilbrigðiskerfinu og fengið góð ráð sem veitt eru af virðingu fyrir vali hvers einstaklings.

Því miður er enn að finna fordóma og vanþekkingu í samfélaginu sem einnig finnst sumstaðar innan heilbrigðiskerfisins en ég er bjartsýn á að með aukinni þekkingu heyri það sögunni til.

Sýnum okkur sjálfum og hvort öðru virðingu. 

Erla Gerður Sveinsdóttir, læknir

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals

Ásdís Ósk Valsdóttir

Ásdís Ósk Valsdóttir

Fasteignasali, 3ja barna móðir og áhugamanneskja um heilbrigðan lífstíl og njóta lífsins til fullnustu

Meira