c

Pistlar:

24. júní 2022 kl. 9:12

Ásdís Ósk Valsdóttir (asdisosk.blog.is)

Æskileg morgunrútína samkvæmt internetinu

Ég las pistil frá Röggu Nagla um daginn og varð steinhissa hvað hún þekkir mig vel. Ég meina, við höfum aldrei hist og ég held að hún viti ekki einu sinni hver ég er. En vá hvað hún þekkir mig vel. Ég ákvað að taka þessu sem hrósi og las pistilinn spjaldanna á milli. Mér leið samt pínu eins og það væri verið að njósna um mig, þvílík líkindi sem voru með pistlinum og mínu lífi. Þannig að ég ákvað að fara í samanburðarrannsóknir á þessum pistli og mínu lífi. Setti í bold frá Röggu og mitt svar kemur svo beint þarna undir.

“Rumskar í rólegheitum klukkan fimm núll núll við vekjaraklukku sem lýsir rýmið smám saman og fuglasöngur ómar í hárréttu desibeli úr hátalaranum”

Ég vakna klukkan fimm núll núll á virkum dögum við vekjaraklukkuna sem ég keypti hjá Nova. Elska hana því að hún er svo einföld og nóg að snúa henni við til að slökkva á henni. Veit ekki hvort að hún hefur Snús takka þar sem ég vel að vakna þegar klukkan hringir. Finnst Snús heimskulegt þar sem þú ert að eyða klukkutíma í að vakna ekki í staðinn fyrir að stilla klukkuna á þann tíma sem þú vilt vakna.

“Býrð um rúmið og hendir rúmteppinu sem var keypt í jógaferðinni til Indlands”

Ég bý um rúmið og set rúmteppið sem ég keypti í Epal á rúmið og 4 púða úr Ikea. Ég mun líklega aldrei eiga teppi frá Indlandi þar sem mig hefur aldrei langað til Indlands. Það er hins vegar á óskalistanum að fara í Yogaferð til Thailands eða Bali og þegar ég fer þá mun ég pottþétt kaupa rúmteppi úr lífrænni bómull sem er handofið í nálægu búddaklaustri og selt á lókal markaði. Á hverjum morgni mun ég hlakka til að búa um rúmið mitt þar sem þetta teppi mun vera stútfullt af minningum um frábæra ferð. Mér finnst amk svo góð tilfinning að sjá umbúið rúm þegar ég labba framhjá svefnherberginu mínu. Lætur mér finnast að ég hafi byrjað daginn á því að klára eitthvað og að herbergið taki vel á móti þegar ég fer að sofa.

“Skokkar glaðlega fram á baðherbergi”

Ég geng inn á baðherbergi. Það væri kjánalegt að skokka þangað þar sem það eru ekki nema 3 skref frá herberginu mínu fram á baðið og ég tel það auka hættuna á meiðslum að skokka áður en þú ert komin í gang. Eina skiptið sem ég skokka innanhús er þegar ég vakna á undan vekjaraklukkunni minni og gleymi að snúa henni við. Ég veit að ég yrði seint valin vinsælasta mamman ef ég færi út að skokka og krakkarnir myndu vakna við hana fimm núll núll á miðvikudegi. Ég sef reyndar út um helgar. Þá vakna ég yfirleitt ekki fyrr en sjö núll núll nema það hafi verið eitthvað teiti kvöldinu áður þá sef ég stundum til átta núll núll eða jafnvel níu núll núll. Ég þarf ekkert að sofa lengur þar sem ég fer yfirleitt heim ekki seinna en eitt núll núll. Það gerist yfirleitt ekkert markvert eftir eitt núll núll um helgar hvort sem er.Gallinn við að drekka ekki áfengi er að þolmörkin fyrir þeim sem innbyrða áfengi í miklu magni eru yfirleitt gufuð upp uppúr eitt núll núll.

“Stórt glas af ísköldu vatni með kreistri sítrónu”

Ég byrja alltaf daginn á 2 glösum af köldu vatni, drekk svo 2 glös eftir að ég kem inn af æfingu og áður en ég fæ mér morgunmat þá drekk ég eitt glas með vítamínunum. Ég toppa ég þetta með því að fá mér sítrónuvatn, kreisti hálfa sítrónu ofan í vatnsglas. Ég byrjaði alltaf daginn á sítrónuvatni en svo áttaði ég mig á því að það er ótrúlega gott að hita vatnið aðeins og taka lýsið með volgu sítrónuvatni í staðinn fyrir að drekka djús. Mæli eindregið með því. Ég drekk yfirleitt 3-4 l af vatni á dag og með morgunrútínunni er ég yfirleitt hálfnuð með vatnið. Algjör óþarfi að stressa sig á því að þetta sé hættulegt. Ég er ennþá á lífi. Mögulega kemur samt í ljós að þetta á eftir að drepa mig. Ég las það hjá vini mínum Google að ALLIR sem drekka vatn munu á einhverjum tímapunkti deyja. ALLIR.

“Bursta tennur með kókostannbursta og lífrænu plastlausu tannkremi”

Þetta var ágætis áminning að fara í Vistvera og kaupa betri tannbursta og tannkrem. Það tekur líklega jafnlangan tíma að bursta tennurnar með betri vörum og það er betra fyrir umhverfið. Ég er þekkt fyrir mikla tímastjórnun og þegar ég þarf að fara í sértækar verslanir þá kaupi ég yfirleitt slatta og þarf því ekki að fara nema 2var á ári til að fylla á lagerinn.

“Hysja uppum sig þrýstibrækur og henda mannbroddum utanyfir splunkunýja Brooks hlaupaskó og strappa höfuðljósið utan um flísfóðraða buffið”

Ég nota ekki þrýstibrækur en á frábærar hlaupabuxur frá NikeAir. Þær eru fullkomnar, nógu hlýjar á veturna og samt nógu kaldar fyrir sumarið. 2 stórir vasar á hliðunum fyrir síma og annað og svo vasi að aftan fyrir lyklana. Einnig eru þær með böndum þannig að þegar ég er extra mjó detta þær ekki niður um mig. Ég á ekki alltaf splunkunýja Brooks skó en þegar ég er nýbúin að kaupa þá þá jú á ég splunkunýja skó. Ég nota alltaf Brooks hlaupaskó á malbiki þar sem þetta eru einu skórnir sem ég fæ ekki beinhimnubólgu af og styðja samt vel við iljarnar á mér. Ég þarf ekki að nota höfuðljós því að þó að ég hlaupi snemma á morgnana þá er ég með upplýstan hlaupastíg sem er fullkominn. Ég á ekki flísfóðrað buff, verður of kalt með buff en ég á fína húfu.

Þegar ég las þessa setningu “mannbrodda utanyfir hlaupaskó” rann kalt vatn milli skinns og hörunds. Hvenær var þessi pistill skrifaður? Ætli það sé ennþá leyfilegt að vera á nagladekkjum á þessum árstíma eða yrði hlauparinn gripinn af Gísla Marteini á Ægissíðunni og tilkynntur til lögreglu? Ég þarf sem betur fer ekkert að hafa áhyggjur af því þar sem ég bý í Kópavogi og það má vera á nöglum í snjó. Hlaupaskórnir mínir hafa ákveðinn líftíma. Ég kaupi mér yfirleitt nýja utanvegaskó að vori og stundum duga þeir í 2 ár. Ég nota þá bæði í utanvegahlaup sem og fjallgöngur. Þegar botninn er farinn að grípa illa fer ég með þá í “Eins og Fætur Toga” og læt negla þá. Það er svo mikið snilld að eiga neglda hlaupaskó. Virkar jafnvel og broddar en miklu léttari og þægilegri.

“Út að skokka í hálftíma”

Eftir að ég fékk Covid hef ég þurft að breyta öllum æfingunum mínum og fór aftur til fortíðar. Ég þurfti að fara 3 ár aftur í tímann og bæði fækka æfingum sem og stytta þær og minnka álagið. Núna er rútínan þessi. Dagur 1 sund, dagur 2 hjól, dagur 3, hlaup og svo endurtekið út mánuðinn. Ég tók út lyftingar, ég tók út Yoga þar sem það var of mikið að taka 2 æfingar á dag. Mér finnst ég loksins vera komin á ágætisról og næ að lengja æfingarnar örlítið á hverjum degi. 

Ég er ennþá að æfa fyrir hálfan járnkarl en ég er ekkert að stressa mig á þessu. Annað hvort get ég hann eða ekki. Ef ég get hann ekki þá er framundan 10 daga stelpufrí á Ítalíu og ég get litið á ferðina sem undirbúning fyrir næsta járnkarl sem ég fer þá í eftir ár.Löngu hætt að stressa mig á svona smámunum eins og hvort að ég geti klárað eitthvað sem ég ætlaði að gera. Ef þetta er ekki rétti tíminn þá kemur hann bara síðar. Í júlí ætla ég að bæta við YogaTeygjum og einni fjallgöngu á viku og fara að taka göngur eftir hjólið til að venja líkamann við að hreyfa sig eftir hjól. Í ágúst ætla ég svo að bæta við dansappi þar sem dans er einfaldlega skemmtilegasta hreyfingin sem ég veit um.

“Taka ískalda sturtu eftir skokkið”

Tek ekki kalda sturtu en er búin að setja á listann að fara á Kælinámskeið hjá Andra í haust eftir að ég klára járnkarlinn og þá reikna ég með að kaldar sturtur verði hluti af mínum lífstíl. Ég fer hins vegar alltaf í kalda pottinn eftir sund og er komin í 2 mínútur með það að markmiði að geta setið í 10 mínútur í kalda pottinum. Fín æfing fyrir Kælinámskeiðið. Ég hitti konu í kalda pottinum. Við tókum upp spjall. Henni svelgist aðeins á þessu plani mínu. “10 mínútur er alls ekki hollt. Nú sagði ég, hvers vegna er það. Það er bara of mikið. Of mikið hvernig. Hún hafði heyrt um eina konu sem fékk held ég bara hjartaáfall við það að vera of lengi í kalda pottinum, nú sagði ég, var hún eitthvað veik fyrir. Nei alls ekki, fór reglulega í sund”. Jújú það er fullkominn mælikvarði á heilbrigði að fara reglulega í sund. Ég elska að heyra þessar sögur. Sögur af alheilbrigðu fólki sem dó þegar það fór út að hlaupa eða hjóla eða guð má vita hvað. Það var enginn sem hafði áhyggjur af því þegar ég var 95 kg. sófakartafla með óheilbrigðan lífstíl. Það kom enginn og sagði mér sögur af fólki sem var óheilbrigt og dó. Hins vegar þegar ég fer yfir strikið í hreyfingu eða einhverju sem öðrum finnst klikkað þá eru þessar sögur alltaf dregnar upp. Einu sinni heyrði ég sömu söguna þrisvar sinnum í sömu vikunni af manninum sem fór út að hlaupa og dó. Ég velti því stundum fyrir mér hver tilgangurinn sé með þessum sögum. Mér er samt alveg sama. Aðrir mega hafa allar þær skoðanir sem þeir vilja. Það er þeirra réttur. Ef þú ert hins vegar sérfræðingur í kulda og köldum pottum og getur komið með einhverja vísindalega sönnun þá hlusta ég sannarlega á þig. Þangað til brosi ég bara og segi: “mér er alveg sama” svo fór ég heim og googlaði þetta og Google segir að allt að 15 mínútur sé í fínu lagi.

“Smyrja handarkrikana með matarsóda og kókosolíu”

Hef ekki séð neina þörf á þessu, ég nota ekki einu sinni svitarolló.

“Löðra skrokkinn með möndluolíu”

Ég set oft góða olíu á mig beint eftir sturtu og þurrka hana svo af mér. Ég verð svakalega mjúk og fín eftir það og þetta tekur ekki nema eina mínútu. Ég keypti góða Avocado olíu í Krónunni sem kostar ekki mikið og er ekki í gleri. Mæli eindregið með því að prófa.

“Sötra sellerídjús macha dufti, hörfræjum, spírúlína, hveitigrasi og haframjólk úr nýja NutriNinja blandaranum”

Eitt af því fáa sem ég get ekki borðað er Sellerý. Finnst það eins og mold á bragðið. Ég fæ mér aldrei djús á morgnana. Ég byrja mína morgna annað hvort með góðri ommlettu eða Chiagraut. Ég æfi mikið og þarf að borða mikið. Ein stærstu mistök sem fólk gerir varðandi heilsuna er að borða of lítið. Eitt af því sem ég lærði í Clean hjá Greenfit var að drekka ekki ávextina mína heldur borða þá. Djúsar eru ekkert endilega hollir. Svo er líka spurning hvað þú borðar allan daginn. Ef þú byrjar daginn á því að fá þér sellerídjús og færð þér svo pylsu og kók í hádeginu og Pizzu um kvöldið er það þá sniðugt? Mín leið til að vera í lagi er að vera með ákveðið mataræði. Ég finn gífurlegan mun á bæði andlegri og líkamlegri heilsu ef ég vanda matarvalið. Það lærði ég hjá Greenfit og allar mælingar sýna það.

“Jógadýnan handofin úr örtrefjum af munkum í Nepal lögð á parketlagt gólfið”

Jógadýnan er keypt á Íslandi enda hef ég ekki ennþá farið til Nepal en ég er sannfærð um að þegar ég fer til Nepal þá mun ég kaupa mér eina handofna frá munkum. Á mínum bucketlista er að fara í klaustur í viku og stunda jóga, íhugun og þagnarbindindi. Það yrði líklega stærsta áskorunin sem ég get tekið, sleppa símanum og þegja í viku. Ef þú veist um gott klaustur máttu endilega senda á mig skilaboð.

“Kveikja í reykelsi og brenna myrru”

Ég þoli ekki reykelsi eða myrru þannig að það er no no

“Hugleiða í hálftíma”

Ég hugleiði ekki mikið. Mín hugleiðsla er yfirleitt fólgin í því að fara út að ganga eða hlaupa rólega og hlusta á gott Podcast nú eða prjóna. Það er frábær hugleiðsla fólgin í því að prjóna.

“Leggjast á nýju náladýnuna úr Eirberg”

Ég elska náladýnuna frá Eirberg. Nota hana reyndar ekki oft, bara þegar ég fer í nudd þar sem nuddarinn á svona dýnu og ég get vottað að hún losar ótrúlega mikið um allt saman.

“Öndunaræfingar eftir formúlu frá frægum hollenskum gúrú”

Þegar ég byrjaði að æfa hlaup hjá Greenfit þá var það fyrsta sem ég þurfti að bæta var öndun. Með því að nota neföndun þá bætti ég heilsuna á allan hátt. Ég sef betur, ég hleyp betur og mér líður betur. Neföndun er allra meina bót og ég mæli eindregið með því að kynna sér það. Fullt af góðum hljóðbókum um málið og einnig hægt að googla æfingar. Eftir síðasta test hjá Greenfit sendi Már mér nokkrar öndunaræfingar til að iðka. Þær eru reyndar ennþá á bucketlistanum, sorry Már en ég get bara gert fáar breytingar í einu.

“Hreyfiteygjur í lokin”

Hreyfiteygjur eru nauðsynlegur hluti af mínu lífi. Ég fann að þegar ég var farin að teygja reglulega varð nuddið ekki svona vont. Ég fór í hjólaferð til Spánar um daginn og nuddarinn var heilsunuddari sem var nýbúin að nudda danska hjólaliðið. Hún gaf mér toppeinkunn í liðleika og hreyfileika og sagði að ég væri með húð eins og þrítug kona. Ég er 53 ára og elsti sonur minn er 26 ára. Mér fannst þetta vera ansi góð meðmæli með mínum lífstíl.

“Skrifa þrjá hluti sem gefa lífinu gildi í þakklætisdagbókina”

Ég skrifa ekki þakkardagbók. Hins vegar er það síðasta sem ég geri áður en ég sofna er að þakka fyrir það sem var jákvætt í dag. Ég áttaði mig á því að ég sef miklu betur þegar ég er þakklát en þegar ég er stressuð og fylli hausinn á mér með neikvæðum hugsunum.

“Vekja síðan börnin blíðlega með kossi svo þau fari ekki í streituástand”

Börnin mín eru 13, 20 og 26. Strákarnir myndu líklega fara í streituástand ef ég færi inn til þeirra og vekti þá með kossi. Hins vegar tók ég eftir gífurlegum mun á krökkunum þegar þau voru minni hvort að ég vakti þau með VILJIÐI KOMA YKKUR Á FÆTUR eða færi inn til þeirra, vekti þau rólega með kossi og knúsi og byrjaði daginn vel (ég var mun meira í fyrri pakkanum og skildi ekkert í því hvað börnin voru öfugsnúin á morgnana). Mæli með að prófa seinni aðferðina og sjá hverju hún skilar.

“Öll fjölskyldan borðar hafragraut úr glúteinlausum höfrum, heimagerðri kasjúhnetumjólk, með kanil frá Sri Lanka, lífrænum eplum og chiafræjum”

Þegar krakkarnir voru yngri þá var hefðbundinn morgunmatur hjá þeim hafragrautur með eplum, kanil og rúsínum. Ég er nýhætt að kaupa vörur frá MS og þessi yngsta er alveg til í að nota haframjólk í staðinn. Ég sá einmitt að það er komin vél til að búa til sína eigins möndlumjólk og er gífurlega spennt að prófa hana.

“Engir símar við matarborðið”

Við borðum á mjög mismunandi tímum þannig að þessi regla hefur ekki alveg gengið upp.Ég nota yfirleitt síma við morgunverðarborðið en er alltaf á leiðinni að bæta mig. Það er bara drepleiðinlegt að sitja ein við morgunverðarborðið og tala við sjálfa sig.Samt var ég að lesa að við hefðum gott að því að láta okkur leiðast þannig að kannski ætti ég að henda þessu á Bucketlistann, sef á þessu.

“Nestið fyrir börnin tilbúið. Heimabakað rúgbrauð með avocado og harðsoðnu eggi pakkað í endurnýtanlegan vaxpappír”

Mín vill helst ávexti og grænmeti í nesti. Ég set það í nestisbox þar sem það er hægt að nota það aftur og aftur.

“Gengur frá leirtauinu í uppþvottavélina, þurrkar af borðinu, því það er svo gott að koma heim eftir vinnu í hreint eldhús”

Guð minn góður já, var það sem ég hugsaði þarna. Það er dásamlegt að koma heim í hreint eldhús.

“Villtur lax og brokkolí í kvöld”

Lax og brokkóli er frábær kvöldmatur

Svo kom seinni hlutinn og ég hreinlega tengdi ekki við neitt í honum. Ég veit alltaf hvar bíllyklarnir mínir eru, þeir eru í skúffunni. Ég set upp matseðil fyrir vikuna og við verslum inn samkvæmt innkaupalista. Ég klára meira að segja vinnudaginn með því að setja upp planið fyrir morgundaginn. Æfingarnar mínar eru líka í plani. Síðast þegar ég átti ekki hreinar nærbuxur var 1990 þegar ég og Rebekka vinkona mín fórum í sex mánaða bakpokaferðalag um Suður Ameríku og þvottaaðstaða var ekki á hverju strái. Reyndar er oft hægt að bjarga sér eins og í góðri á eða læk.

Ég fór út að ganga og hlustaði á Podcast með Tim Grover og Tom Ferry. Tim Grover er algjör snillingur. Ég hitti hann fyrst á ráðstefnu 2018. Hann hefur þjálfað gífurlega mikið af topp íþróttamönnum og ég tengi ansi vel við það sem hann hefur að segja. Mitt tengslanet samanstendur af fólki sem segir einfaldlega: “þú uppskerð eins og þú sáir. Þú getur orðið allt sem þú vilt ef þú einfaldlega leggur inn vinnuna”.  Ég veit hvað ég vil. Ég vil vera heilbrigð og hamingjusöm manneskja. Ég vil eiga gott samband við krakkana mína og mína nánustu. Ég vil ná mínum markmiðum hvort sem það er í vinnu eða einkalífi og ég vil eldast vel og geta gengið á Esjuna þegar ég verð áttræð. Ég næ ekki þeim markmiðum með því að snúsa vekjaraklukkuna mína eða fylgja planinu stundum. Ég þarf að fylgja því alltaf. Michael Jordan varð ekki bestur með því að mæta stundum á æfingar og gera lágmarkið. Hann varð bestur af því að hann ögraði sér og gerði meira en hann þurfti.

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals

 

Ásdís Ósk Valsdóttir

Ásdís Ósk Valsdóttir

Fasteignasali, 3ja barna móðir og áhugamanneskja um heilbrigðan lífstíl og njóta lífsins til fullnustu

Meira