Pistlar:

27. febrúar 2019 kl. 15:56

Baldur Rafn Gylfason (baldurbpro.blog.is)

Krullur eru komnar til að vera

Krullurnar kæta og eru komnar til að vera. 

Náttúrulegar krullur og liðir hafa smátt og smátt verið að koma meira í tísku aftur en óhætt er að segja að það hefur sjaldan eða aldrei verið eins mikil stemmning fyrir krullum og liðum eins og núna. Til að svara þessari tískuþróun þá eru framleiðendur á hárvörum búnir að leggja sig alla fram í að þróa nýjar og fullkomnari vörur sem eru til þess eins gerðar að dekra og dúlla við snúnu og liðuðu lokkana.  Til að halda krullum og liðum heilbrigðum þá þarf sérstaklega að huga að því að nota réttu efnin og eins hafa það í huga að því krullaðara sem hárið því þyrstara er það. Það þýðir að krullað og liðað hár á auðveldara með að verða þurrt og þarf þar að leiðandi raka og meiri raka og enn meiri raka. Aðalástæðan fyrir þessu er að krullað hár er opnara og missir því raka mjög fljótt. Flestir geta verið sammála því að heilbrigt krullað hár getur verið einstaklega fallegt og mikil höfuðprýði og með nokkrum einföldum ráðum getur þú gert krullurnar þínar ennþá fallegri og líflegri.

Það er sem betur fer liðin tíð að þeir sem eru með krullur og liði þurfi að vera að halda hárinu frá reglulegum hárþvotti. Það hélst í hendur með því að það voru ekki til nógu og sérhæfðar vörur fyrir krullurnar og það gerði það að verkum að krullurnar urðu meira og meira „frizzy“ því oftar sem þær voru þvegnar. Það getur verið ansi óþæginlegt fyrir þá sem eru til dæmis virkir í ræktinni eða hreyfa sig að þurfa að takmarka hárþvott. Sérhönnuð krullusjampó eru til þess gerða að hámarka krullurnar, framkalla glans, loka hárinu og læsa rakann inni og byggja upp hárið. Það sem hentar einnig í krullurnar en ekki allir vita af eru vörur í flokknum „Anti-Frizz“. En þær vörur eru gerðar til þess að róa hárið án þess að að þyngja það, gefa því glans og eru einnig mjög uppbyggjandi. Varist þó að rugla saman við vöruflokka sem falla undir Smoothing og Sleek en það er frekar ætlað fyrir hár sem á að slétta úr eða róa mikið og gæti því þyngt krullurnar. Það er alltaf best að fá ráðleggingar hjá hárgreiðslumeistaranum þínum um hvaða vörur þú ættir að nota í hárið þitt svo það haldist heilbrigt.

Þá er það rakinn. Hvernig vökvar maður svona þyrsta lokka. Jú það er gert með því að velja góða hárnæringu og djúpnæringu sem róa, veita raka og loka hárinu. Notaðu ríflega af næringunni og berðu vel í allt hárið það er að segja í lengdir og út í endana en forðastu að bera næringuna í hársvörðinn. Mikilvægt að leyfa að næringunni að liggja í hárinu í nokkrar mínútur áður en þú skolar til að leyfa hárinu að drekka í sig næringarefnin. Djúpnæringu eða maska er oftast nóg að nota í þriðja til fjórða hvern þvott. Til að ná hámarksvirkni þá þarf að skipta hárinu niður í nokkra lokka og mjólka maskann vel inn í lokkana. Látið bíða í hárinu eins og stendur í leiðbeiningunum en yfirleitt eru það um 10 – 20 mínútur. 

Þegar komið er að því að greiða krullurnar þá þarf að hafa nokkur atriði í huga til að ýfa þær sem minnst. Þá er best að greiða niður úr krullunum á meðan hárið er enn blautt og þá skaltu nota grófa greiðu eða þar til gerða flækjubursta. HH Simonsen eru með snilldar flækjubursta sem eru sérstaklega gerðir til að nota í sturtunni. Þeir eru með götum á bakinu til þess að vatn festist ekki inn í púðanum þar sem það getur farið að úldna. 

Þegar búið er að dekra við krullurnar eða liðina og greiða létt í gegnum blautt hárið skaltu láta vera að fikta í því á meðan það er að þorna því það gerir hárið bara úfið. Ef vilt þurrka hárið með blásara skaltu hafa nokkur atriði í huga. Númer eitt, tvö og þrjú er að nota góða hitavörn. Notaðu hárblásara sem er með kælitækka en gott er að skiptast á að nota hita og kulda þegar verið er að þurrka hár hvort sem það er krulllað eða ekki. Það gefur hárinu extra kraft, meiri glans og heldur blæstrinum lengur. Til að fullkomna blástur á krullum er best að hafa dreifara framan á blásaranum til að gefa krullunum meiri fyllingu og leyfa lengdinni að þorna náttúrulega. Ef þú ert að fara að endurnýja hárblásarann þinn þá ættir þú að hafa í huga að nýji blásarinn sé gæddur Innrauðri tækni en sú tækni dregur úr úfningi og rafmögnun sem er hollt og gott fyrir allar hárgerðir og er virði hverrar krónu.

Ef þú vilt taka dekrið á krullunum alla leið er gott að leyfa lokkunum hvílast á satínkodda. Nú ertu með fullkomna afsöknun til að fjárfesta í góðu koddaveri. Satín koddaver sem eru sleipari en hefðbundin bómullar koddaver fara betur með hárið. Þetta á reyndar við um allar hárgerðir.

Eitt gott ráð að lokum. Vertu viss um að hver sem klippir þig kunni á krullur. Það mætti segja að það væri fag út af fyrir sig að vera fær í að framkvæma hina fullkomna klippingu í krullur. Það skiptir miklu máli að notast við réttar aðferðir þegar framkvæmdar eru sérmeðferðir eins og þegar á að lita krullað hár svo hárið skaðist ekki meira en þarf. 

Sem betur fer erum við svo heppin hér á Íslandi að hér finnast hárgreiðslustofur þar sem fagfólkið hefur tekið krullur og liði það alvarlega að þau eru meira að segja með sérhæfð skæri í lokkana þína. Það sakar ekki að spyrjast fyrir um hvaða stofur hafa krullusérfræðing á sínum snærum.

Ég vona innilega að þessi ráð hjálpi einhverjum. Þetta eru örfáar punktar sem gott er að fara eftir en auðvitað er endalaust hægt að bæta við þegar kemur að því að dekra við hárið. En eins og ég segi alltaf þá er ráðgjöf, ráðgjöf, ráðgjöf það allra mikilvægasta til þess að ná því besta fram úr hárinu þínu svo það sé sem heilbrigðast og fallegast.

mynd
24. ágúst 2018 kl. 14:45

Leiðir til að fá meira ,,volume" í hárið

Stórt og umfangsmikið hár er eitthvað sem ansi margar konur langar í. Það eru til mörg trix, tæki, tól og vörur til að fá meiri fyllingu í þunnt, líflaust, fíngert eða jafnvel hvaða hár sem er. Hér eru nokkur af mínum helstu ráðum:  Það er stundum sagt að „volume“ sé í tísku, en eins og svo margt þá er það inni núna og úti eftir einhvern tíma og svo, þið fattið. Það eru meira
12. júní 2018 kl. 10:39

Hvað á að gera þegar hárið brotnar?

Nú er „BLONDIE“ tíminn að koma Mikil efnameðhöndlun, aflitun og ýmiskonar hlutir geta valdið því að hárið fer hreinlega að brotna. Það getur verið ansi „scary“ moment þegar þú fattar að þú ert búin að missa alla stjórn á þessu og lokkarnir halda áfram að styttast. Þetta er stundum kallað Chemical Cut af því það er eins og efnin sem hafa verið meira
28. maí 2018 kl. 14:38

Hárvandamálið sem enginn vill tala um

Þegar við tölum um hárið á okkur við vin, vinkonu eða hárgreiðslumeistara er það auðvitað oftast tengt forminu, litnum eða einhverri spennandi breytingu. Auðvitað er það þannig, því það er spennandi og gaman að breyta til eða að fríska upp á sig. Það finnst öllum, sama hvað hver segir. Auðvitað skiptir útlit hársins fólk mismiklu máli, en flestir vilja þó almennt líta vel út. Það eru meira
mynd
17. maí 2018 kl. 16:11

Hver er þessi Baldur í bpro?

Komið þið sæl. Ég heiti Baldur Rafn, ég er hárgeiðslumeistari að mennt og nú eigandi bpro heildsölu. Ég er líka eiginmaður og þriggja barna faðir, en við hjónin stofunuðum bpro lok árs 2010. Ég hef  verið heppinn að fá að vinna við það sem mér finnst skemmtilegt alla mína hunds tíð. Það getur ekki kallast annað en heppni að vera með skemmtilegu fólki alla daga og fá stöðugt að fást við meira