Pistlar:

7. maí 2020 kl. 11:53

Barnaheill - Save the Children á Íslandi (barnaheill.blog.is)

Réttur barna til hvíldar, tómstunda og menningar, 31. gr. Barnasáttmálans

Í tilefni þrjátíu ára afmælis Barnasáttmálans, á árinu 2019, tóku Barnaheill, Unicef og umboðsmaður barna höndum saman um að gera einstökum þáttum Barnasáttmálans skil með mánaðarlegum greinaskrifum. Við greinaskrifin var stuðst við almennar athugasemdir eða leiðbeiningar Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Greinarnar eru nú endurbirtar ein af annarri á vef mbl.is. Greinarskrifin eru liður í fræðslu um Barnasáttmálann, en til að tryggja megi að börn njóti mannréttinda sinna til fulls er mikilvægt að sem allra flestir þekki réttindi þeirra og lifi samkvæmt bestu getu eftir reglum Barnasáttmálans.

Grein þessi fjallar um 31. gr. Barnasáttmálans sem snýr að rétti barna til hvíldar, tómstunda og menningar.

Eins og alltaf þegar einstök ákvæði Barnasáttmálans eru túlkuð ber að hafa grunnreglur Barnasáttmálans í huga, en það eru 2., 3., 6. og 12. gr. 

Í heild sinni er 31. gr. Barnasáttmálans svohljóðandi:

  1. gr. 1. Aðildarríki viðurkenna rétt barns til hvíldar og tómstunda, til að stunda leiki og skemmtanir sem hæfa aldri þess, og til frjálsrar þátttöku í menningarlífi og listum.  2. Aðildarríki skulu virða og efla rétt barns til að taka fullan þátt í menningar- og listalífi og skulu stuðla að því að viðeigandi og jöfn tækifæri séu veitt til að stunda menningarlíf, listir og tómstundaiðju.

Verður nú nánar vikið að efnislegu inntaki greinarinnar.

 

Almenn athugasemd númer 17

Almennar athugasemdir Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðannar skipta miklu máli fyrir túlkun á Barnasáttmálanum og þróun hans. Þær geta snúið að ákveðinni grein Barnasáttmálans eða verið almennar hugleiðingar nefndarinnar um tiltekin réttindi barna.

Barnaréttarnefndin hefur gefið út almenna athugasemd númer 17 sem útfærir nánar hvað felst í 31. gr. Barnasáttmálans, sbr. lög nr. 19/2013. 

Þar tekur barnaréttarnefndin sérstaklega fram að leikur og afþreying séu mikilvæg fyrir heilsu og velferð barna ásamt því að ýta undir þroska til sköpunar, ímyndunarafls, sjálfstæðis, sterkari sjálfsmyndar sem og andlega, félagslega, tilfinningalega og hugræna hæfileika og styrk. Leikur og afþreying getur átt sér stað bæði þegar börn eru með jafnöldrum, eru ein eða með stuðningi fullorðins. Þegar fullorðnir og börn eru að leik þarf einnig að hafa í huga að sá fullorðni þarf að sýna aðgát þannig að hann yfirtaki ekki framlag barnsins til að skipuleggja og framkvæma sínar eigin athafnir. Þá er mikilvægt að fullorðnir taki líka þátt í leikjum en þátttakan veitir þeim fullorðna innsýn og frekari skilning á sjónarhorni barnsins ásamt því að byggja upp virðingu milli kynslóða. 

Börn leika sér á ýmsan hátt, svo sem endurgera, breyta og skapa menningu í gegnum eigin hugmyndaríka leik, til dæmis með söng, dansi, sögum, teikningum, leiklist o.s.frv. Þá áréttar barnaréttarnefndin að hvíld og tómstundir séu jafn mikilvæg fyrir þroska barns sem og hinar hefðbundnu þarfir líkt og umönnun, húsaskjól, aðgangur að heilbrigðisþjónustu og menntun. 

 

Nánari greining á  1. mgr. 31. gr. 

Réttur barns til hvíldar felur í sér að börn fái næga hvíld frá vinnu, menntun eða áreynslu af öðrum toga. Þá eiga þau líka að fá fullnægjandi svefn. 

Með tómstundum er átt við þann tíma sem leikur og afþreying getur átt sér stað. Það er að segja frjáls og óskilgreindur tími sem inniheldur ekki menntun, vinnu, skyldur heimavið o.s.frv., nánar tiltekið langur valfrjáls tími sem barnið má nota eftir eigin hentisemi. 

Réttur barna til að stunda leiki felur í sér þá hegðun, athöfn eða ferli sem er hafið, stjórnað og uppbyggt af barninu eða börnunum sjálfum. Leikurinn á sér stað hvenær og hvar sem tækifæri gefst. Umönnunaraðilar geta lagt til sköpunar á umhverfinu sem leikurinn á sér stað í. 

Þá er einnig komið inn á rétt barns til að stunda skemmtanir sem hæfa aldri þess en skemmtanir er regnhlífarhugtak til að lýsa mjög víðtæku sviði athafna, þar á meðal þátttöku í tónlist, listum, föndri, samfélagsþátttöku, klúbbum, íþróttum, leikjum, fjallgöngum og útilegum, þ.e. að stunda áhugamál. 31. gr. Barnasáttmálans leggur áherslu á að skemmtanirnar séu viðeigandi fyrir aldur barnsins. Aldur barnsins þarf að vega saman við tímalengd skemmtunar, umhverfið sem athöfnin fer fram í og hversu mikil yfirumsjón fullorðins með barninu þarf að vera á skemmtuninni.

Börn eiga rétt til frjálsrar þátttöku í menningarlífi og listum en barnaréttarnefndin styður það viðhorf að börn og samfélag þeirra tjái einkenni sín í gegnum menningarlíf og listir. Aðildarríki að Barnasáttmálanum skuldbinda sig til að virða og koma í veg fyrir hindranir á aðgengi barns, vali þess og nálgun á virkni og þátttöku í menningarlífi og listum. Aðildarríki verða líka að gæta þess að aðrir takmarki ekki þennan rétt. Ákvörðun barns um að nýta eða nýta ekki þennan rétt sinn er val barnsins sem á að virða og vernda.

 

Nánari greining á 2. mgr. 31. gr. 

Réttur barna til að taka fullan þátt í menningar- og listalífi felur í sér þrjú atriði sem þarf að uppfylla. Í fyrsta lagi er um að ræða aðgang.  Það felur í sér að veita eigi barni tækifæri til að upplifa menningar- og listalíf og læra um víðfeðmt svið þess, mismunandi form og tjáningu. Í öðru lagi þátttöku. Í því felst krafa um að börnum séu tryggð raunveruleg tækifæri, bæði sem einstaklingum og sem hópum, til að tjá sig, eiga í samskiptum, framkvæma og taka þátt í skapandi athöfnum, með hliðsjón af fullum þroska þeirra. Í þriðja lagi er um að ræða framlag til menningarlífs. Börn eiga rétt á að leggja andlegt, efnislegt, vitsmunalegt og tilfinningalegt framlag til menningar og lista, og þannig stuðla að framþróun og umbreytingu samfélagsins sem viðkomandi tilheyrir.

 

Tengsl 31. gr. við aðrar meginreglur Barnasáttmálans

  1. gr. – Bann við mismunun

Börn eiga rétt á að njóta hvíldar, tómstunda og menningarlífs án nokkurar mismununar.

  1. gr. – Það sem er barni fyrir bestu

Öll löggjöf, stefnumótun og fjárframlög í tengslum við þau réttindi sem tryggð eru í 31. gr. eiga að vera miðuð út frá því sem barninu er fyrir bestu. Sem dæmi má nefna löggjöf sem snýr að vinnu barna, skólatíma, skólalöggjöf, framboði á grænum svæðum og almenningsgörðum, aðgengi og hönnun á þéttbýlislandslagi  o.s.frv.

  1. gr. – Réttur til lífs og þroska

Í samhengi við 6. gr. Barnasáttmálans hvetur barnaréttarnefndin til að kannaðar verði allar víddir 31. gr. sem stuðla að þroska og getu barna.

  1. gr. – Réttur barns til að láta í ljós skoðanir sínar

Barnaréttarnefndin leggur áherslu á mikilvægi þess að veita börnum tækifæri til að leggja sitt af mörkum til þróunar á löggjöf, stefnumótun, aðferðum og hönnun á þjónustu sem á að tryggja framkvæmd á réttinum sem felst í 31. gr. Í því framlagi gæti m.a. falist þátttaka þeirra í stefnumótun sem varðar leiki og afþreyingu, í löggjöf sem hefur áhrif á réttinn til menntunar og skólaskipulagi námsskrá eða verndarlöggjöf sem varðar barnavinnu, löggjöf og reglur sem varða almenningsgarða og aðra aðstöðu í nærumhverfi barna, þéttbýlisskipulag og skipulag og hönnun á barnvænum samfélögum og umhverfi.

hjghjg

mynd
20. apríl 2020 kl. 14:41

Barnasáttmálinn og ofbeldi gegn börnum

Í tilefni þrjátíu ára afmælis Barnasáttmálans, á árinu 2019, tóku Barnaheill, Unicef og umboðsmaður barna höndum saman um að gera einstökum þáttum Barnasáttmálans skil með mánaðarlegum greinaskrifum. Við greinaskrifin var stuðst við almennar athugasemdir eða leiðbeiningar Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Greinarnar eru nú endurbirtar ein af annarri á vef mbl.is. Greinarskrifin eru liður í meira
mynd
30. mars 2020 kl. 12:58

Réttur barna til menntunar og markmið menntunar

Réttur barna til menntunar og markmið menntunar   Í tilefni þrjátíu ára afmælis Barnasáttmálans, á árinu 2019, tóku Barnaheill, Unicef og umboðsmaður barna höndum saman um að gera einstökum þáttum Barnasáttmálans skil með mánaðarlegum greinaskrifum. Við greinaskrifin var stuðst við almennar athugasemdir eða leiðbeiningar Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Greinaranar eru nú endurbirtar meira
20. febrúar 2020 kl. 10:48

Forvarnir virka

Ekkert barn á að þurfa að þola ofbeldi. Raunin er samt sú að kynferðislegt ofbeldi gegn börnum er staðreynd í okkar samfélagi. Á Íslandi verða 17– 35%  barna fyrir slíku ofbeldi fyrir 18 ára aldur. Það er þriðja hver stúlka og fimmti hver drengur. Mikilvægasta markmiðið er að koma í veg fyrir ofbeldi. Fyrsta stigs forvarnafræðsla felur í sér fræðslu til fullorðinna, fjölskyldna og meira
14. febrúar 2020 kl. 15:16

Börnum bjargað úr ofbeldisaðstæðum

Mörg dæmi eru um að börnum í ofbeldisaðstæðum hafi verið komið til bjargar eftir tilkynningu til ábendingalína um ofbeldi gegn þeim á neti. Í gegnum Inhope, regnhlífasamtök ábendingalína um allan heim, er unnið að því hörðum höndum að bregðast við ábendingum á skjótvirkan hátt, þannig að efni sé fjarlægt af netinu innan 48 stunda frá því að tilkynning berst. Barnaheill eru þátttakendur í meira
4. febrúar 2020 kl. 13:23

Það sem er barninu fyrir bestu

Margir þekkja meginreglu Barnasáttmálans um það sem er barninu fyrir bestu. En hvað þýðir hún nákvæmlega? Hvað felst í þessari grunnreglu í málefnum barna? Í tilefni þrjátíu ára afmælis Barnasáttmálans, á árinu 2019, tóku Barnaheill, Unicef og umboðsmaður barna saman höndum um að gera einstökum þáttum Barnasáttmálans skil með greinaskrifum. Munu greinarnar birtast hér á Mbl. ein af annarri. Við meira
Barnaheill - Save the Children á Íslandi

Barnaheill - Save the Children á Íslandi

Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru hluti af alþjóðasamtökunum Save the Children sem stofnuð voru árið 1919 og vinna að réttindum og velferð barna með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Barnaheill eru leiðandi afl í að breyta viðhorfum og verklagi varðandi málefni barna og réttindi þeirra. Framtíðarsýn Barnaheilla er heimur þar sem sérhvert barn hefur tækifæri til að lifa og þroskast, fær gæðamenntun, lifir öruggu lífi og hefur tækifæri til að hafa áhrif. Við stöndum vaktina í þágu barna og gætum réttinda þeirra.

Meira