c

Pistlar:

15. maí 2015 kl. 9:18

Sveinn Valfells (brunanbuhr.blog.is)

Er sæstrengur glapræði eða gróðamylla?

Stærsta orkufyrirtæki landsins, Landsvirkjun, er þjóðareign. Fyrirtækið var stofnað 1965 eftir undirbúning Stóriðjunefndar, tilgangurinn var að sjá íslenskum heimilum og fyrirtækjum fyrir ódýrri orku. Stórkaupandi á raforku, Alusuisse, var hugsaður sem vogarafl sem létti kostnað verkefnisins og skyti stoðum undir nýjan útflutning, framkvæmdir við virkjanir myndu auka verkþekkingu í landinu.

Á fimmtíu ára afmæli Landsvirkjunar hefur upphaflegum markmiðum fyrirtækisins löngu verið náð. Nóg er af ódýrri orku fyrir almenning og atvinnulíf á Íslandi og verkþekking í orkugeira á háu stigi. Fyrirtækið stendur vel og fagna ber að það geti greitt eigendum allgóðan arð á næstu árum. Viðskipta- og fjárfestingastefna fyrirtækisins hefur hins vegar verið einhæf og umdeild, sérstaklega dýrar framkvæmdir við Kárahnjúka sem ollu umtalsverðum náttúrspjöllum.

Hvert skal haldið?
Reynslan sýnir að staldra þarf vel við og skoða gaumgæfilega alla valkosti um framtíð Landsvirkjunar áður en nokkur stór skref eru stigin. Sæstrengur milli Íslands og Bretlands er stórverkefni sem skoða ber af mikilli varúð. Áhættuþættir eru fjölmargir. Stórauka þarf innlenda orkuframleiðslu og efla þarf dreifinet. Náttúruspjöll eru óhjákvæmileg og einnig ruðningsáhrif í hagkerfinu, orkugeirinn myndi soga til sín fjármagn og mannafla á kostnað annarra atvinnugreina og valda mikilli þenslu.

Tvær nýjar Kárahnjúkavirkjanir?
Að sögn breskra sérfræðinga yrði strengurinn ekki sjálfbær, bresk stjórnvöld þyrftu að niðurgreiða framkvæmdina og tryggja langtímasamninga um sölu. Orkan þyrfti að koma frá nýjum virkjunum. Við sæjum líklega fram á tvær stórvirkjanir á borð við Kárahnjúka með tilheyrandi náttúruraski og brambolti. Íslendingar yrðu mjög háðir einum stórum kaupanda en myndu samt aðeins fullnægja broti af heildarþörfum hans. Samningsstaða væri því mjög kaupanda í vil. Íslendingar væru einnig mjög háðir eiganda sæstrengsins nema þeir vildu eiga hann og reka sjálfir.

Mikil óvissa - ör þróun
Helsta röksemd fyrir sæstreng er hátt verð á breskum markaði. En er víst að það haldist þegar fram líða stundir? Væru breskir neytendur eða stjórnvöld reiðubúi á taka sig þær skuldbindingar sem þarf til að gera sæstreng hagstæðan fyrir íslensk orkufyrirtæki? Mikil og ör þróun á sér nú stað í orkuframleiðslu, geymslu og dreifingu. Sólarrafhlöður hrapa í verði, mörg heimili og fyrirtæki víða um heim hafa komið sér upp eigin sólarsellum og kaupa og selja á víxl inn og út á dreifinetið, orkuframleiðsla er að færast frá fáum stórum aðilum yfir á marga dreifða. Nýlega kynnti Tesla fyrstu gerð rafhlaða sem líklegt er að muni gefa notendum kleyft að geyma orku með hagkvæmum hætti. Undrefnið graphene býður upp á marga möguleika, meðal annars að nota afgangshita til að framleiða orku á hagkvæmari hátt en hingað til. Á teikniborðinu í Bretlandi eru meira að segja smærri, ódýrari og öruggari kjarnorkuver en þau sem hingað til hafa þekkst.

Þýskaland fyrirmynd
Þýskland er um margt fyrirmynd annara ríkja í orkumálum. Þar ákváðu stjórnvöld fyrir nokkrum áratugum að kúvenda frá kolvetnis- og kjarnorku frá fáum, stórum orkuverum yfir í dreifða, vistvæna orkugjafa. „Energiewende“ Þýsklands hefur tekist vel, auðvelt væri fyrir Bretland að fara að fyrirmynd Þjóðverja. Fyrirtæki á borð við Ecotricity hafa þegar haslað sér völl í Bretlandi og beislað nýja orkugjafa. Slík vending hlyti einnig mikinn hljómgrunn meðal bresks almennings, en hætt er við að stór og mikil framkvæmd á við sæstreng yrði bæði umdeild og úrelt.

Framkvæmdagleði stjórnenda á kostnað eigenda
Orkuverð á Íslandi myndi einnig hækka ef sæstrengur væri lagður, fjármunir flytjast úr vasa innlendra kaupenda inn í stórfyrirtæki á borð við Landsvirkjun. Fullyrt er að auknar tekjur myndu skila auknum arði. En er víst að arðurinn myndi skila sér til eigenda Landsvirkjunar, íslensku þjóðarinnar? Fjárfestirinn Warren Buffett varar oft við framkvæmdagleði stjórnenda (e. institutional imperative), þeirri áráttu að búa til verkefni með óvissa arðsemi án þess að skeyta um hagsmuni eigenda. Í einni árskýrslu sinn segir Buffett, "hversu fjarstæðukenndar sem hugdettur forstjóra eru fylgir þeim fljótlega ítarlegur rökstuðningur fótgönguliða hans með vísan í ávöxtun og stefnu". Áður en lengra er haldið er þörf á ítarlegri úttekt óháðra aðila um kosti og galla sæstrengs.

Um sæstreng er því aðeins eitt hægt að fullyrða, að hann mun gjörbreyta atvinnulífi og ásjónu Íslands og hækka orkuverð hér á landi. En ábatinn er óviss og kannski minni en enginn. Ef af verður er óþægilega líklegt að á hundrað ára afmæli Landsvirkjunnar verði fyrirtækið og fólkið í landinu enn að rétta úr kútnum vegna sæstrengsævintýrisins.