c

Pistlar:

13. júlí 2015 kl. 7:04

Edda Jónsdóttir (eddajonsdottir.blog.is)

Ég fer í fríið...

„Sumarið er tíminn þegar hjartað verður grænt“, söng Bubbi Morthens svo eftirminnilega um árið. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að Bubbi noti samlýkinguna um grænt hjarta til að tákna nýjabrumið sem fylgir sumrinu. Nýtt upphaf. Ný von. Nýtt tímabil. Og nú þegar einhver lengsti vetur í manna minnum er að baki, andvarpa flestir af feginleik, að minnsta kosti innra með sér. Sumarnóttin ber með sér fyrirheit og uppskeran er á næsta leiti. Sumarfríið! Margir eru þegar farnir í frí en aðrir eiga það inni síðla sumars. 

Kaflaskipti

Frí táknar frelsi frá daglegum skyldum, að minnsta kosti á vinnustað. Með því myndast rými til athafna sem ekki eiga sér samastað í hversdeginum. Hvort sem þú hyggur á dvöl í sumarbústað, hringferð um landið, gönguferð um hálendið, utanlandsferð eða einfaldlega að láta þig fljóta í næstu almenningssundlaug, þá er tilgangurinn sá sami - að bregða útaf vananum og skipta um gír. Að njóta ávaxta erfiðisins og þess að hinn langi vetur er að baki. 

Sumarfrí má leggja að jöfnu við áramót í mínum huga. Ástæðan er sú að sumarfrí er ekki síður tími til endurmats en hvíldar og tilbreytingar frá hversdeginum. Sumarfríið markar endalok eins kapitula í árinu og upphaf annars. Það er því tilvalið að spyrja sig nokkurra nytsamlegra spurninga í sumarfríinu. 

7 SPURNINGAR Í SUMARFRÍINU

1. Hvernig hefur mér gengið á þessu ári í lífi og starfi? 

2. Hvernig miðar mér að uppfylla þau markmið sem ég setti mér í upphafi árs? 

3. Ef líf mitt í samhengi við kjarnagildin mín? 

4. Hvað get ég gert betur það sem eftir er árs? 

5. Hvað hefur verið skemmtilegt á árinu fram til þessa? 

6. Hvað hef ég lært? 

7. Hvað vil ég endurtaka/útiloka úr lífi mínu? 

Gefðu þér nokkrar mínútur og hripaðu niður svörin við þessum spurningum. Ef til vill eru sumar þeirra þess eðlis að þær krefjast endurlits og íhugunar. Gefðu þér tíma og notaðu sumarfríið sem meðbyr inn í nýtt tímabil. Hlustaðu á innsæið og leyfðu þér að upplifa, skoða og njóta. Mundu að lífið er núna!

Edda Jónsdóttir

Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Meira