c

Pistlar:

7. september 2015 kl. 16:23

Edda Jónsdóttir (eddajonsdottir.blog.is)

Að hrökkva eða stökkva

„Framtíðin er þeirra sem trúa á fegurð drauma sinna“, sagði Eleanor Roosevelt. Það hljómar mjög vel en vandamál margra felst í því að þegar við látum okkur dreyma þá kemur óttinn upp. Hann tekur völdin með sinni lamandi hendi.

Það er óttinn sem veldur því að við látum ekki drauma okkar rætast heldur sættum okkur við óbreytt ástand. Við látum okkur reka í stað þess að sigla seglum þöndum á vit þess sem hið óvænta getur fært okkur.

Ótti gamli ótti

Hræðsla við breytingar er í mörgum tilfellum svo raunveruleg að við finnum hana í líkamanum. Hún hríslast um okkur, laumuleg eins og þjófur að nóttu. Við fáum jafnvel magaverk eða þungt fyrir brjóstið. Upplifum að við getum ekki rönd við reist. Þessi hræðsla kemur gjarnan í veg fyrir að við stökkvum til þegar tækifæri gefst. Hún er einnig dragbítur á dagdrauma sem geta leitt af sér stórkostlegar breytingar.

Vitur kona sagði mér eitt sinn að best væri að láta sig dreyma, taka þvínæst ákvörðun um að láta drauminn verða að veruleika og finna svo að lokum útúr því hvernig best væri að byrja. Flest stökkvum við frá draumnum og yfir í stig númer þrjú – nema í stað þess að finna útúr því hvernig best sé að láta drauminn rætast – látum við óttann stoppa okkur.

„Hlustaðu bara á innsæið“, segja margir þegar ákvarðanataka er annars vegar. „Notaðu hausinn“, segja aðrir. „Fylgdu hjartanu“, segja enn aðrir. En það er ekki svo einfalt þegar hræðslan tekur völdin þannig að við heyrum ekki skilaboðin sem innsæið hefur fram að færa, í hausnum hljómar margradda kór og hjartað tekur aukakipp af ótta. En hvað er þá til ráða?

Óttakórinn syngur þekkta slagara

Boðskapur óttakórsins er tiltölulega einfaldur. Ekki breyta neinu, ekki láta drauma þína rætast, ekki taka áhættu. Með öðrum orðum - haltu þig til hlés.

Eitt gott ráð sem ég hef notað til að losna við ótta, er að skilgreina hann. Þá spyr ég mig að því hvort þetta sé ótti við breytingar eða með öðrum orðum, ótti við hið óþekkta. Eða jafnvel ótti við að mistakast, sem er mjög algeng tegund ótta. Sá er vissulega af sama meiði og óttinn við breytingar og stendur gjarnan í vegi fyrir því að við leyfum hugmynd verða að draumi og síðan að veruleika.

Rannsóknir hafa sýnt að fólk lætur óttann við að mistakast gjarnan stoppa sig en óttinn við velgengni er ekki síður algengur. Hugsanir á borð við: Hvað ef mér tekst vel til? Hvað ef hugmyndin slær í gegn, fyrirtækið stækkar og ég þarf að ráða starfsfólk og svo framvegis...

Ég finn gjarnan fyrir óttanum í líkamanum og nota þá oft tækifærið til að tengja við hann og sjá hann fyrir mér. Stundum hef ég spurt hann hver skilaboð hans séu. Óttinn er frumstæður og upphaflegi tilgangur hans var sá að auka líkurnar á því að við lifðum af. Færum okkur ekki að voða. Þessvegna er góð leið til að losna við óttann, að komast að því hvaða skilaboð hann hefur til okkar. Þakka fyrir skilaboðin og segja honum að við ráðum við þetta. Við ætlum bara að byrja og sjá svo til. Jú, við eigum eftir að gera mistök og misstíga okkur á leiðinni – en við ætlum að hefjast handa.

Máttur þess að taka ákvörðun

Bestu ákvarðanir lífs míns hef ég tekið þegar ég hef náð að útiloka raddirnar sem hljóma eins og kór á borgarafundi. Þessar góðu ákvarðanir sem bera með sér nýjungar og vöxt, hef ég tekið þegar ég fylgi forskriftinni góðu: draumur, ákvörðun, finna út hvernig. Staðreyndin er nefnilega sú að við búum yfir ótrúlegri færni til að finna lausnir og aðlagast breytingum. Svo nú er bara að ákveða – ætlar þú að hrökkva eða stökkva?

Edda Jónsdóttir

Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Meira