c

Pistlar:

21. september 2015 kl. 10:48

Edda Jónsdóttir (eddajonsdottir.blog.is)

Hvað stendur á þínum merkimiða?

Pistillinn sem fjallaði um þekkta slagara óttakórsins fór eins og eldur um sinu um netheima og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Í kjölfarið fór ég að velta ýmsu fyrir mér og meðal annars því sem hér á eftir kemur.

Andstæðar tvennur

Það er gömul saga og ný að það eru tvær hliðar á öllum peningum. Þessar tvær hliðar eru andstæðar tvennur sem togast á og skapa hvor annarri tilverurétt. Svo staðreyndin er sú að ef við göngumst við því að við erum stundum hrædd, þá er hin hliðin á óttanum hugrekki. Hin hliðin á klúðri er velgengni og hin hliðin á vanlíðan er hamingja.

En þó lögmálið sé einfalt, þá er upplifunin mjög oft flóknari. Sér í lagi þegar okkur finnst við skuggamegin í tilverunni. Það er að segja þegar við erum hrædd, höfum klúðrað einhverju eða upplifum að hamingjan hafi yfirgefið okkur.

Hvað stendur á þínum merkimiða?

Ótti, blankheit, klúður og óhamingja eru merkimiðar sem við setjum á upplifanir okkar og annarra. Við skilgreinum þessa merkimiða og upplifun okkar litast af skilgreiningunum. Við erum reyndar mjög oft undir áhrifum frá skilgreiningum annarra. Bæði fólksins í kringum okkur og samfélagsins.

Að sama skapi eru hugrekki, ríkidæmi, velgengni og hamingja hugtök sem við skilgreinum sjálf. Þau hugtök og þær hugmyndir sem við notum til að skilgreina okkar raunveruleika, hafa áhrif á væntingar okkar, gjörðir og þá upplifun sem við höfum af lífinu.

Tökum dæmi um tvær manneskjur sem eru í sambærilegu starfi, hafa sömu menntun og svipuð laun. Önnur hefur skilgreint að doktorspróf sé góð menntun og finnst því meistaragráðan sín lítils virði. Hin bjóst aldrei við að ganga menntaveginn og lítur á sína meistaragráðu sem afrek. Önnur tók við starfinu vegna þess að ekkert annað bauðst og finnst það fyrir neðan sína virðingu. Hin er hæstánægð í starfi og gerir sér vonir um að það leiði til frekari starfsframa. Annarri finnst launin of lág og nær varla endum saman. Hin skilgreinir öryggi útfrá því að hafa föst laun og lífstíll hennar passar innan þess ramma sem launin leyfa. Þínar eigin hugmyndir endurspegla það hvort þér finnst önnur metnaðarlaus og hin vanþakklát eða eitthvað allt annað.

Þetta getur ekki verið satt

Ég man að ég fékk hálfgert áfall þegar ég áttaði mig á því að upplifun mín af lífinu stjórnast af viðhorfi mínu til þess. Mér fannst þetta kaldranalega einfalt en á sama tíma var ég alls ekki tilbúin til að gangast við þessu sem sannleika. Sennilega vegna þess að mér fannst að þá þyrfti ég að verða fullkomin. Ég þyrfti alltaf að velja að vera hamingjusöm, hugrökk og bjartsýn. Þetta rjátlaðist þó af mér og staðreyndin er sú að ég á mína slæmu daga. Mig skortir oft þolinmæði, skorast stundum undan ábyrgð og svo mætti lengi telja. En vitneskjan um að líf mitt stjórnast af viðhorfi mínu, hefur þó breytt lífi mínu til hins betra. Hún hefur gert það að verkum að ég á auðveldara með að greina hismið frá kjarnanum. Boðleiðirnar hafa styttst innra með mér og ég sleppi fyrr tökunum á því sem ég get ekki breytt. Einnig er ég líklegri til að taka ábyrgð á því sem ég get breytt og er mitt að taka ábyrgð á.

Óttakórinn tekur enn lagið en ég sit ekki lengur á fremsta bekk og hlusta.

P.s. í undirbúningi er nýtt einstaklingsnámskeið sem miðar að því að takast á við óttann og læra aðferðir til að koma honum fyrir kattarnef.

 

Edda Jónsdóttir

Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Meira