c

Pistlar:

16. nóvember 2015 kl. 10:59

Edda Jónsdóttir (eddajonsdottir.blog.is)

Í sambandi við peninga

Hefurðu leitt hugann að því að samband okkar við peninga hefst í móðurkviði og lýkur ekki fyrr en eftir að við erum komin undir græna torfu? Hvað á ég við með því? Jú, við heyrum samtöl um fjármál meðan við erum í móðurkviði. Hvernig skuli fjármagna komu okkar og það tímabil sem að minnsta kosti einn forráðamaður tekur sér frí frá störfum til að annast okkur. Hugmyndin um peninga og virði er því ein af kjarnahugmyndunum sem fylgir okkur alla ævi. Hún mótast á æskuárum og ræðst af því hvernig er talað um peninga á heimili okkar og meðal fólksins sem annast okkur.

Aldrei rætt um peninga

„En það var aldrei talað um peninga á mínu æskuheimili“, segja sumir þeirra sem leita til mín þegar ég inni þá eftir rótgrónum peningahugmyndum úr æsku. En staðreyndin er sú að peningahugmyndirnar mótast ekki eingöngu af orðunum sem við heyrum, heldur fyrst og fremst af aðstæðunum sem við búum við. Hugmyndirnar verða svo grunnurinn að peningahegðun okkar í framtíðinni.

Tökum dæmi um barn sem elst upp við að heyra að þegar eitthvað skemmist á heimilinu, sé viðkvæðið: „við kaupum nýtt“. Þarna mótast gjarnan hugmyndin um að það sé óþarfi að fara vel með – það sé hægt að kaupa nýtt. Fullorðinn einstaklingur með þessa peningahugmynd inngreipta, þarf oft að horfast í augu við peningaeyðslu sína og verða sér meðvitaður um gildi og virði.

Barn sem hins vegar elst upp við að matur sé af skornum skammti á heimilinu, verður oft mjög meðvitað um að safna þegar fram líða stundir. Fullorðin manneskja með þessa peningahugmynd undirliggjandi, safnar gjarnan mat eða peningum til „mögru áranna“. Undir liggur ótti við skort sem er slökktur með því að safna.

Peningahugmyndir og sjálfsvirði

Ég leyfi mér að nota orðið sjálfsvirði hér í ákveðnu samhengi. Með þessu orði á ég ekki við sjálfsvirðingu heldur frekar hugmyndina um hvers virði við erum.

Tengslin milli peningahugmynda okkar og sjálfsvirðis eru sterk. Peningahugmyndir okkar stjórna því að miklu leyti hversu mikilsverð við upplifum okkur. Tökum dæmi af vel menntaðri konu í vel launuðu starfi sem sárvantar nýja skó fyrir veturinn. Hún á peninga til að kaupa skóna en hún fær sig ekki til þess að kaupa þá. Einn daginn fer að snjóa og hálkan er slík að hún er tilneydd til skókaupanna. Hún réttlætir kaupin fyrir sjálfri sér með því að valið standi á milli grófra sóla eða sex vikna í gifsi, því fótbrot sé óumflýjanleg afleiðing þess að skauta um á blankskónum áframhaldandi.

Þegar peningahugmyndir konunnar eru skoðaðar ofan í kjölinn, kemur í ljós að hún er alin upp hjá einstæðri móður sem leyfði sér fátt til að geta komið börnum sínum sómasamlega til manns og stutt þau til mennta.

Það var ekki ætlun móðurinnar að dóttirin sæti uppi með þessar peningahugmyndir en það var þó afleiðing engu að síður.

Af þessu má ráða að sumar þeirra peningahugmynda sem við sitjum uppi með, eru vitagagnslausar og þjóna tæpast tilgangi. Hver svo sem forsaga peningahugmynda okkar er, skal tekið fram að þrátt fyrir að aðstæður okkar og í sumum tilfellum innprentun hafi stýrt innleiðingu þeirra, þýðir það ekki að við þurfum að sitja uppi með þær að eilífu.

Nýjar peningahugmyndir eru valdeflandi

Þú hefur eflaust þegar staldrað við og annað hvort borið kennsl á einhverjar þeirra peningahugmynda sem ég hef minnst á, eða lesturinn hefur gert það að verkum að þínar undirliggjandi peningahugmyndir hafa skotið upp kollinum. Ég hvet þig til að skoða þær eftir bestu getu og spyrja þig hvort þær þjóni tilgangi í lífi þínu áframhaldandi eða hvort tími sé kominn til að sleppa tökunum á þeim og skipta þeim út fyrir nýjar og valdeflandi peningahugmyndir.

Það margborgar sig að vera meðvitaður um þetta ævilanga samband okkar við peninga og hvernig það stýrir gangi lífs okkar á fleiri vegu en við almennt gerum okkur grein fyrir. Þér er velkomið að leita til mín ef þig vantar hjálp.

Edda Jónsdóttir

Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Meira