c

Pistlar:

14. desember 2015 kl. 11:44

Edda Jónsdóttir (eddajonsdottir.blog.is)

Væntingavísitalan þín fyrir árið 2016

Hagfræði er að mínu mati heillandi fræðigrein. Færa má rök fyrir því að hagfræði sé meðal þeirra greina sem hefur hvað mest mótandi áhrif á daglegt líf einstaklinga og samfélaga. Minn áhugi liggur helst á sviði atferlishagfræði því mér finnst heillandi að hve miklu leiti peningahegðun hvers og eins okkar, stjórnast af straumum og stefnum í efnahagslífinu.

Sjálf hef ég búið í þremur mismunandi löndum og upplifað bæði efnahagslegan uppgang og samdráttartíma í hverju og einu landi. Ég hef tekið eftir því að efnahagshorfur hafa mikil áhrif á það hvað fólk telur mögulegt. Einnig stjórnast líðan fólks og öryggiskennd á margan hátt af efnahagslegum hvötum.

Hvað er væntingavísitala

Væntingavísitala er sú vísitala sem mér finnst áhugaverðust. Þessi tegund vísitölu mælir væntingar fólks og tiltrú á efnahagslífinu. Hún mælir einnig trú fólks á atvinnuhorfum og framtíðartekjum.

Því má segja að væntingavísitalan sé samsett úr því sem aðspurðir á hverjum tíma hafa trú á að þeir geti fengið út úr lífinu, frá efnahagslegu sjónarhorni. Væntingavísitalan hefur mótandi áhrif á viðhorf samfélagsins til þess sem er mögulegt. Bæði þegar kemur að því sem telst efnislegt, eins og umhverfi okkar, heimili, bílnum sem við keyrum, matnum sem við neytum, fatnaðinum sem við klæðumst og öðru því sem við notum peningana okkar til að kaupa.

Ég velti því einnig fyrir mér að hversu miklu leyti hún stýrir því sem er óáþreifanlegt eins og heilsu okkar, andlegri og líkamlegri, samböndum okkar og samskiptum.

Peningahegðun þín endurspeglast á öllum sviðum lífs þíns

Ég þori að veðja að viðhorf þitt til peninga hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum árum. Skömmu eftir að efnahagskerfið lagðist á hliðina árið 2008, voru peningar gjarnan birtingarmynd þess sem við vildum hafna sem samfélag. Þeir þóttu ekki smart og upplifun margra var sú að þeir væru af skornum skammti.

Við lestur viðskiptafrétta að undanförnu kveður við nýjan tón. Nú er það uppgangur og gott gengi íslenskra fyrirtækja sem fjallað er um, auk þess sem rekstur ríkissjóðs er með skárra móti. Kjarasamningar eru um garð gengnir hjá mörgum og þrátt fyrir að ýmsir hefðu viljað ganga lengra í launahækkunum, hafa fréttir af kaupmáttaraukningu verið tíðar upp á síðkastið.

Allt hefur þetta áhrif á viðhorf okkar til þess sem er mögulegt. Þeim vex ásmegin sem hefur dreymt um að stofna fyrirtæki í áraraðir og viðskiptaáætlanir verða víða til. Þeir sem vinna hjá öðrum, leggja á ráðin um stöðuhækkanir samhliða því sem landvinningar íslenskra fyrirtækja ná nýjum hæðum.

Allt þetta hefur áhrif á daglegt líf einstaklinga. Ef við trúum því að peningar séu af skornum skammti, hefur það takmarkandi áhrif á það hvernig við kjósum að lifa lífi okkar. Að sama skapi hefur takmarkalaus tiltrú á það sem við teljum mögulegt áhrif á það sem við gerum og upplifum.

Árið 2016 er ár...

Hvaða væntingar hefurðu til ársins 2016? Er árið 2016 ár tækifæra, áskorana, mikillar vinnu, nýjunga, erfiðleika eða sigra? Hvert sem svarið er, þá hefurðu rétt fyrir þér.

Það getur svo sannarlega verið erfitt að kyngja því en það er engu að síður staðreynd, því upplifanir okkar stjórnast af viðhorfum okkar til lífsins.

Prófaðu að mæla þína eigin væntingavísitölu daglega og kortleggðu línurit á skalanum einn til tíu, þar sem tíu er hæsta stig væntingavísitölunnar þinnar. Fylgstu með því hvernig væntingar þínar stjórna upplifunum þínum, því sem þú telur mögulegt og jafnvel því hvernig þú leysir þær áskoranir sem verða á vegi þínum.

Árið 2016 er ár tækifæra, gleði og magnaðra upplifana í mínu lífi. Væntingavísitalan mælist tíu að meðaltali og ég mæti þeim áskorunum sem verða á vegi mínum með forvitni og hugrekki. Hvað með þig?

Edda Jónsdóttir

Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Meira