c

Pistlar:

2. maí 2016 kl. 14:10

Edda Jónsdóttir (eddajonsdottir.blog.is)

Handbók leiðtogans - ný rafbók

Í huga sumra eru leiðtogar aðeins þeir sem hafa allt sitt á hreinu og gera aldrei mistök. Staðreyndin er hins vegar sú að leiðtogar mæta áskorunum daglega. Það er í rauninni sama hvort fólk hefur gegnt leiðtogastöðu um langa eða skamma hríð, áskoranirnar láta ekki á sér standa. Þetta á við bæði hjá stórum fyrirtækjum og stofnunum og einnig hjá þessum litlu.

Mín reynsla er sú að áskoranirnar eru svipaðar þó birtingarmyndin sé ólík eftir stærð og eðli fyrirtækisins eða stofnunarinnar. Það er að segja það er frekar stigsmunur heldur en eðlismunur á áskorununum. Þarna spila auðvitað ýmsir þættir stóra rullu, svo sem eins og menning fyrirtækisins eða stofnunarinnar og hinar mörgu óskrifuðu reglur sem starfsmenn hafa gjarnan spilað eftir svo árum og jafnvel áratugum skiptir.

Lausn í dagsins önn

Margir þeirra sem leita til mín hafa hug á að þróa leiðtogahæfileika sína og getu til að takast á við áskoranir en velta því fyrir sér hvernig best sé að bera sig að. Það er því nokkuð síðan ég fór að hugsa um að það væri gagnlegt að hafa aðgang að einhvers konar þróunaráætlun sem væri sérsniðin fyrir fólk í forystu. Nokkurs konar leiðtogahandbók.

Ég er þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa haft ótal tækifæri til að bera kennsl á það í hverju helstu áskoranir leiðtoga eru fólgnar. Því hef ég nú tekið saman leiðtogahandbók þar sem helstu áskoranir leiðtogans eru til umfjöllunar ásamt leiðum til að mæta þeim.

Hvers vegna leiðtogahandbók?

Leiðtogar mæta áskorunum rétt eins og aðrir. En það merkilega er að áskoranir leiðtoga birtast oft sem áskoranir teymisins alls. Tökum dæmi um leiðtoga sem á erfitt með að setja skýr mörk. Ef einstaklingar innan teymisins eiga til að varpa frá sér ábyrgð í stað þess að taka hana, birtist það mjög skýrt þegar mörkin eru ekki skýr. Aðrir einstaklingar innan teymisins taka þá gjarnan ábyrgðina á verkum þeirra sem varpa henni frá sér. Afleiðingarnar má gjarnan greina í óánægju, samskiptaleysi og jafnvel vantrausti innan teymisins. Nýlegar rannsóknir renna stoðum undir þetta dæmi. Sýnt hefur verið fram á að teymi standa gjarnan frammi fyrir þessum áskorunum og fleiri:

  • Skortur á ábyrgð
  • Skortur á samvinnu
  • Lítil þátttaka einstaklinga innan teymisins
  • Erfitt að taka ákvarðanir
  • Vanhæfni til að leysa deilumál
  • Árangurslaus forysta
  • Vantraust
  • Togstreita sem er tilkomin vegna þess að markmið einstaklinga og markmið teymisins fara ekki saman

Of mikið að gera?

Það er gömul saga og ný að álagið í íslensku atvinnulífi er mikið og vinnustundirnar margar. Áskoranirnar eru fyrir hendi þó tíminn til að leysa þær virðist naumur vegna mikilla anna. En vegna þess að ég geri mér grein fyrir að leiðtogar hafa nóg á sinni könnu, hef ég sett handbókina upp á aðgengilegan hátt. Hún er ætluð til uppflettingar í dagsins önn. Í stuttu máli er hún hnitmiðuð, einföld og aðgengileg. Hún er á rafrænu formi og henni má hlaða niður til geymslu á skjáborðinu. Einnig er hægt að prenta út eintak og hafa aðgengilegt á skrifborðinu.

Hvers vegna núna?

Við vitum að áskoranirnar eru til staðar og flestar eru þess eðlis að þær draga úr framleiðni, starfsánægju og hafa jafnvel neikvæð áhrif á rekstrartölur fyrirtækisins. Spurningin ætti því raunverulega að vera hvers vegna ekki? Eftir hverju bíðurðu?

Eintak af handbók leiðtogans má nálgast hér.

Edda Jónsdóttir

Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Meira