c

Pistlar:

22. ágúst 2016 kl. 18:12

Edda Jónsdóttir (eddajonsdottir.blog.is)

Bleikir peningar

„Konur vilja það sama og karlar – bara meira.“* Þessi tilvitnun vakti áhuga minn enda er ég með ólæknandi áhuga á öllu sem viðkemur efnahagsmálum og þá sér í lagi frá sjónarhóli kvenna.

Tilvitnunin er höfð eftir Marti Barletta, markaðssérfræðingi og höfundi bókarinnar Prime Time Women. Barletta vill meina að auglýsendur vanmeti kaupmátt kvenna stórlega. Rannsóknir hafa nefnilega sýnt fram á að konur taka 70 til 80% af ákvörðunum um hvað kaupa eigi til heimilisins. Þó eru hlutfallslega fáir auglýsendur sem beina skilaboðum sínum til kvenna.

Barletta segir að kvennablöð ættu með réttu að vera full af auglýsingum frá bíla- og raftækjaframleiðendum en staðreyndin er sú að þar eru frekar auglýstar snyrtivörur og heilsutengdar vörur.

Markaðssérfræðingar mæla þó síður með því að búa til kvenvæna sérútgáfu af vörunni og beina auglýsingum á þeirri vöru til kvenna. Dæmi um slík mistök voru pennaframleiðandanum BIC dýrkeypt. Margir hafa hlegið að úttekt spjallþáttadrottningarinar Ellenar Degeneris á bleika BIC pennanum sem var „sérhannaður“ fyrir konur. Eini munurinn á bleika pennanum og öðrum pennum frá fyrirtækinu var sá að hann var bleikur og kostaði meira.

Fjöldi rannsókna bendir til að yfir 70% af kaupmætti heimsins lúti ákvörðunarrétti kvenna. Nýleg rannsókn í Danmörku sýndi fram á að konur taka ákvarðanir um hvað kaupa skuli í 74% tilfella. Þær tölur taka til ákvarðanatöku þegar kemur að ferðalögum, raftækjum, bankaviðskiptum, húsgögnum og einkabílum.

Tímarnir breytast og laun kvennanna með...

Nýlegar rannsóknir frá Bandaríkjunum hafa sýnt að ungar konur í stórborgum þéna mest. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar Reach Advisors sem birtust í Time Magazine, þénuðu ungar konur að jafnaði 8% meira en ungir menn á sama aldri í 147 af þeim 150 borgum í Bandaríkjunum sem rannsóknin tók til. Það vekur athygli að í New York er launamunurinn heil 17%. Rannsóknir frá Norðurlöndunum sýna fram á svipaða þróun.

Konur í fyrirtækjarekstri

Í umræðum um konur og nýsköpun er því gjarnan fleygt fram að konur þurfi að sækja fram, stofna fyrirtæki í auknum mæli og umfram allt sækja um styrki og þátttöku í viðskiptahröðlum. Það er gott og gilt að hvetja konur til aukinnar þátttöku í nýsköpun. Staðreyndin er hins vegar sú að fjölmargar konur reka fyrirtæki nú þegar og svo hefur verið um árabil.

Evrópuráðið stóð fyrir víðtækri samantekt á staðtölum um frumkvöðla í Evrópu árið 2012. Samantektin náði til Íslands. Niðurstöður þeirrar samantektar sýna að 11,6 milljónir kven-frumkvöðla voru að störfum í þeim 37 Evrópulöndum sem samantektin náði til, eða 30% af heildarfjölda frumkvöðla í löndunum. Af þessum 11,6 milljónum voru aðeins 22% kvennanna með starfsfólk en 78% voru einyrkjar.

Alþjóðlegar rannsóknir hafa sýnt fram á að rúmlega 60% fyrirtækja í eigu kvenna reiða sig eingöngu á svokallaða lífræna fjármögnun eða þá aðferð að taka fé úr eigin rekstri til að kosta vöxt fyrirtækisins. Sú spurning hefur því vaknað hvort konur sitji við sama borð og karlar þegar kemur að fjármögnun og stækkun fyrirtækja. Þess er að vænta að þeirri spurningu verði svarað með ýmsum hætti á næstu árum.

* Tilvitnanir í Marti Barletta er að finna í bókinni SHEconomy- din, min og vår business!, útg. 2015 hjá Fagbokforlaget í Bergen. Höf. Benja Sig Fagerland og Ingvill Bryn Rambøl. 

Edda Jónsdóttir

Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Meira