c

Pistlar:

5. september 2016 kl. 11:07

Edda Jónsdóttir (eddajonsdottir.blog.is)

Fékkstu gott fjármálauppeldi?

Aðspurður um hvað ég hefði kennt honum um peninga, svaraði tíu ára sonur minn að bragði: „Ekkert“.

Í stundarkorn var ég algjörlega slegin útaf laginu því ég tel mig hafa lagt rækt við fjármálauppeldi hans. Skömmu síðar spurði ég hann hvað hann hefði lært af því að koma með mér út í matvörubúð og hjálpa mér að versla. Hann svaraði þá að hann hefði lært að það væri sniðugt að velja vel og nota ekki of mikla peninga til að kaupa í matinn, því þá ætti maður meiri peninga til að gera eitthvað skemmtilegt.

Ég spurði hann þvínæst hvað hann hefði lært af því að kaupa sér tölvu fyrir allan sparnaðinn sinn. Hann svaraði að hann hefði lært að það væri ekki gaman að eiga engan pening eftir. „Það borgar sig að spara“, bætti hann svo við.

Ekki hvernig heldur hvað

Þetta samtal okkar mæðgina staðfesti fyrir mér að börn læra ýmislegt um peninga af umhverfi sínu. Þau læra af peningahegðun foreldra sinna og þeirra sem þau umgangast. Þau læra einnig af þeim peningahugmyndum sem eru á borð bornar á heimilinu og í samfélaginu. Þetta gerist alveg óháð því hvort foreldrarnir setjast niður með þeim gagngert til að kenna þeim æskilega fjármálahegðun – eða ekki. Þau læra nefnilega um peninga á sama hátt og þau meðtaka aðra færni og kunnáttu í lífnu. Þau draga ályktanir og hegðun þeirra tekur að stjórnast af hugmyndum þeirra.

Ég man til dæmis að skömmu eftir hrun íslensku bankanna, varð sonur minn æfur þegar ég ætlaði að fara í bankann með peningana sem höfðu safnast í sparibaukinn hans. Ég varð að fullvissa barnið um að það væri öruggt að bankinn myndi ekki glata smáaurunum hans og að hann gæti endurheimt peningana þegar á þyrfti að halda. Hann ætti peningana sína sjálfur, þó bankinn tæki þá í vörslu sína um stundarsakir gegn því að greiða honum vexti.

Peningahugmyndir úr æsku

Á þeim árum sem ég hef fengist við markþjálfun hef ég fengið það staðfest að fólk situr almennt uppi með einhverjar peningahugmyndir úr æsku. Ég þekki það jafnframt af eigin raun. Sumar þeirra kunna að vera nytsamlegar og eru jafnvel kjarninn í þeirri góðu peningahegðun sem við höfum tamið okkur. Aðrar eru þess eðlis að full ástæða er til að skoða þær gaumgæfilega með það í huga að skilja við þær fyrir fullt og allt. Hluti af þeirri vinnu sem ég vinn með fólki er að bera kennsl á hvaða peningahugmyndir það situr uppi með og hvaða peningahegðun endurspeglar þessar hugmyndir. Í kjölfarið kenni ég fólki svo aðferð til að losa sig við þær hugmyndir sem standa í vegi fyrir að það geti upplifað fjárhagslegt frelsi. Þessa aðferð hafa margir nýtt sér með góðum árangri og upplifað mikinn létti í kjölfarið.

Halda eða sleppa?

Ég gæti tekið fjöldamörg dæmi um peningahegðun ýmiss konar sem á rætur að rekja í peningahugmyndum úr æsku og fylgir okkur fram á fullorðinsár. En hver svo sem sagan kann að vera og hverjar sem hugmyndirnar eru, þá eru skilaboðin einföld: Við erum ekki sagan okkar og við þurfum ekki að láta stjórnast af peningahugmyndum sem ekki þjóna lengur tilgangi í lífi okkar.

Fjárhagslegt frelsi fæst meðal annars með því að segja skilið við fortíðina og taka upp nýja siði. Eða eins og Carl Jung sagði: „Þú ert ekki það sem kom fyrir þig – þú ert það sem þú velur að verða“.

Edda Jónsdóttir

Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Meira