c

Pistlar:

19. september 2016 kl. 14:14

Edda Jónsdóttir (eddajonsdottir.blog.is)

Til hvers að spara?

 

Heilbrigð skynsemi

er skömmtunarvara.

Þeir sem hafa hana

hljóta að spara.*

Þessa vísu er hægt að skilja á ýmsa vegu. En hver sem tilætluð merking vísuhöfundar var, eru velflestir á sama máli um að það sé skynsamlegt að spara. Þó er það svo að fæstir leggja fyrir. „Jú, ég hef lífeyrissparnaðinn“, segja sumir. En aðrir varasjóðir virðast nokkuð fátíðir.

Á þeim árum sem ég hef beint sjónum að sambandi fólks við peninga í vinnu minni sem markþjálfi, hef ég einnig tekið eftir því að viðhorf fólks til sparnaðar er mjög misjafnt.

Með fjárhagslegt frelsi að markmiði

Enn hef ég engan hitt sem ekki stefnir að fjárhagslegu frelsi með einum eða öðrum hætti, leynt eða ljóst. Það sem ég hef komist að er að það eru margar mismunandi leiðir að þessu sama markmiði – að öðlast fjárhagslegt frelsi. Enda hefur fjárhagslegt frelsi mismunandi merkingu fyrir hvern og einn.

Fyrir suma er fjárhagslegt frelsi fólgið í því að hafa þak yfir höfuðið og eiga fyrir mat út mánuðinn. Fyrir aðra er það fólgið í því að hafa fasta vinnu. Fyrir enn aðra er fjárhagslegt frelsi fólgið í því að eiga varasjóð – nú eða lífeyrissparnað. Þeir eru líka til sem finna fjárhagslegt frelsi í að þurfa ekki að vinna fyrir aðra – geta ráðið sér sjálfir. Fjárhagslegt frelsi á sér því mismunandi birtingarmyndir fyrir mismunandi einstaklinga.

Tekurðu lán eða borgarðu út í hönd?

Á árum áður safnaði fólk almennt fyrir hlutunum enda var aðgengi að lánsfé aðeins fyrir útvalda. Í dag er öldin önnur og frekar undantekning að fólk safni fyrir hlutunum. Sumir skilgreina það sem fjárhagslegt frelsi að geta tekið lán en aðrir hafna valkostinum og finna frelsi í að borga út í hönd. En hver er ástæðan fyrir þessum mun?

Svarið felst í því að mismunandi þræðir liggja að baki persónugerð okkar. Það sama má segja um samband okkar við peninga. Þar að baki liggja mismunandi þræðir, sögur, hugmyndir, viðhorf og upplifanir. Þetta má kalla peninga dna-ið okkar. Þar liggur skýringin að baki því hvers vegna fjárhagslegt frelsi er skilgreint með mjög ólíkum hætti eftir því hver á í hlut.

Hverjir spara?

Ein persónugerð er afgerandi þegar kemur að því sem er oft kallað „hefðbundinn sparnaður“ en þeir sem tilheyra þeim hópi eiga undantekningarlaust einhverskonar sjóð, annan en lögbundinn lífeyrissjóð. Önnur persónugerð er líklegust til að leggja fyrir með þann tilgang í huga að breyta heiminum. Nú eða til að kosta það að góð hugmynd fái byr undir báða vængi. Þriðja persónugerðin er líklegust til að spara við sig – jafnvel fimm daga vikunnar – til að geta notið þess að gera eitthvað stórbrotið hina tvo. Fjórða persónugerðin hefur þannig upplegg að hún sér afar lítill tilgang með að spara, enda finnst henni mikið mikilvægara að tengjast fólki og njóta samveru. Fimmta persónugerðin á það til að leggja fyrir ef sjóðurinn gæti nýst til fjárfestingar sem gæti skilað verulegum fjárhagslegum ávinningi. Sjötta persónugerðin leggur helst fyrir í aðdraganda stórhátíða til að geta gert vel við sig og sína. Sú sjöunda upplifir öryggi og vernd frá hættum þegar hún safnar fjármunum en finnst þó aldrei vera nóg af peningum. Sú áttunda sér sjaldnast tilgang með því að spara peninga þar sem henni finnst peningar vera til að njóta þeirra.

Eins og dæmin sýna er uppleggið afar mismunandi og viðhorfið til sparnaðar eftir því. Það felast ótal tækifæri í því að þekkja þræðina sem liggja að baki peninga dna-inu þínu. Þegar tilgangurinn er að öðlast fjárhagslegt frelsi, helgast meðalið af því.

 

 

*Þessi vísa var ein af uppáhaldsvísum ömmu minnar. Ég fletti henni upp á netinu og sá að hún hafði birst í tímaritinu Helgafelli undir lok ársins 1945. Vísan er sögð þýdd og endursögð.

Edda Jónsdóttir

Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Meira