c

Pistlar:

6. desember 2016 kl. 14:23

Edda Jónsdóttir (eddajonsdottir.blog.is)

Tæmist buddan á aðventunni?

Er líða fer að jólum bresta ýmsar varnir. Peningahegðun okkar kemur þá berlega í ljós og sumir upplifa jafnvel að fara örlítið framúr sér.

Hvort sem jólaútgáfan af okkur er ofurskipulögð og útsjónasöm - utangátta á síðustu stundu eða einhverstaðar þar á milli, þá er þetta sú árstíð sem peningar koma hvað mest við sögu. Gjafakaup, jólaföt, hátíðarmatur, jólahlaðborð, jólatónleikar, áramótagleði, nýársgleði, flugeldar og þar fram eftir götunum. Kröfur samfélagsins eru miklar og því er rík ástæða til að staldra við á þessum tíma árs.

Að setja sjálfum sér mörk

Það er áhugavert að skoða mörk í samhengi við peninga og þá sér í lagi á þessum árstíma, þegar buddan tæmist hraðar en ella.

Það getur verið flókið að setja mörk. Sumum reynist það næstum óyfirstíganleg aflraun á meðan aðrir setja jafnvel of stíf mörk. Sumir eru mjög meðvitaðir um mörkin sín – eða skort á mörkum. En aðrir velta þeim lítið sem ekkert fyrir sér. Þó eru það mörkin okkar sem skilgreina okkur sem persónur á margan hátt.

Hvaða jólatýpa ert þú?

Hver og ein peningapersónugerð eða erkitýpa hefur sínar peningaáskoranir. Að sama skapi má segja að gjafir hverrar og einnar týpu hafi ákveðið fram að færa um jólin.

Ég ætla að fara í gegnum persónugerðirnar átta og deila með ykkur því sem þær hafa fram að færa um jólin – auk þess sem ég ætla að koma með nokkur ráð fyrir hverja og eina þeirra sem gott er að hafa í huga á aðventunni.

Rómantíkerinn – laðar fram fegurð jólanna

Rómantíkerinn elskar jólin því hún elskar að njóta lífsins. Áskorunin felst í því að Rómantíkerinn á það til að eyða miklum peningum um jólin og þar er hvergi til sparað!

Ég trúi því að Rómantíkerinn dragi fram fegurðina í heiminum og það veit sá sem allt veit að heimurinn þarf á því að halda um þessar mundir. Við þurfum reyndar á því að halda allt árið um kring, svo Rómantíkerar, vinsamlega ekki fara framúr ykkur fjárhagslega.

Finndu út upphæð sem þú veist að þú hefur tök á að eyða og notaðu svo einstaka hæfileika þína til að undirbúa fögur jól fyrir þig og þá sem þú elskar. Skoraðu á þig að finna stórkostlegar gjafir en haltu þig við fjárhagsáætlunina. Best væri ef þú ættir smá afgang. Smávegis sjóð til að hefja nýja árið með.

Nærandinn – kærleiksboðberi jólanna

Allar peningapersónugerðirnar eru einhvers konar kærleiksboðberar jólanna en jólin eru mjög sérstakur tími fyrir Nærandann. Um hátíðarnar hefur Nærandinn fullkomna ástæðu til að leyfa sér að dekra við fólkið sem hann elskar. Áskorunin er sú að Nærandinn á það til að fara yfir strikið. Eyða of miklu í gjafir og mat og hlaupa svo um til að hjálpa öðrum, jafnvel óumbeðinn. Nærandinn getur átt það til að verja síðustu dögum ársins í að vera þreyttur, í skuld og fullur af eftirsjá.

Að útbúa fjárhagsáætlun fyrir jólin og standa við hana er mjög hjálplegt. Finndu út upphæðina sem þú ræður við að eyða og haltu þig við hana.

Og anna, hvernig ætlar þú Nærandi góður að næra sjálfan þig um jólin? Hvaða gjöf ætlarðu að gefa þér? Heimurinn þarf á gjöfum þínum og umhyggju að halda. Taktu því tíma til að næra sjálfan þig og byggja þig upp fyrir nýja árið.

Safnarinn – færir okkur jólasjóðinn

Það er óþarfi að leggja það til við Safnarann að hann búi til fjárhagsáætlun fyrir jólin. Þú hefur sennilega búið til fjárhagsáætlun í september. Áskorunin fyrir Safnarann er að njóta þess að eyða peningunum sem þú hefur ákveðið að eyða í jólin. Jólin geta valdið Safnaranum kvíða því þrátt fyrir að þú sért með fjárhagsáætlun, getur verið stressandi að stíga skrefið og eyða peningunum.

Í stað þess að upplifa streitu þegar upphæðin sem er ætluð til jóla fer minnkandi, geturðu beint sjónum að því í hvað peningarnir fara, nefnilega í að gleðja aðra. Safnarar bera virkilega virðingu fyrir krafti peninga og ég trúi því að þeir spili lykilhlutverk í að breyta orku peninga í framtíðinni. Beindu sjónum að gjöfunum sem þú verð peningum í að kaupa til að gleðja þá sem þú elskar.

Frumkvöðullinn – færir okkur jólastuðið

Frumkvöðlar elska að taka áhættu og á jólum get ég ímyndað mér að það þýði að kaupa gjafir á síðustu stundu og þá oft sérkennilegar gjafir. Þetta mynstur hefur í för með sér að þeir eiga það til að eyða allt of miklu í gjafir sem viðtakendur kunna jafnvel ekki að meta, þrátt fyrir að þær séu minnistæðar.

Frumkvöðullinn er innri uppreisnarseggurinn með málstað og jólin með öllum sínum hefðum geta virkað leiðinleg fyrir hinn nýjungagjarna Frumkvöðul. Það sem kemur helst til Frumkvöðulsins er annað hvort að tékka sig út eða að hrista duglega upp í hlutunum. Hvorugur valkosturinn er auðveldur fyrir fólkið sem þú elskar.

Við þurfum öll á stuðinu að halda sem Frumkvöðullinn getur fært jólunum með hvatvísi sinni. Svo hvers vegna ekki að setja þér mörk kæri Frumkvöðull og gefa þér einn dag til að finna skynsamlegar gjafir fyrir þá sem þú elskar. Ég skora á þig!

Tengiliðurinn – sameinar fólk á jólunum

Tengiliðurinn elskar jólin. Næg tækifæri til að tengja saman fólk og góð afsökun til að þurfa ekki að hugsa um peninga. Það eru jól, ekki satt? Jú, það eru jól en við vitum öll að það kemur janúar þegar hátíðinni lýkur og það getur verið mjög óþægilegur tími ef þú hefur farið framúr þér í eyðslunni.

Fjárhagsáætlun hjálpar Tengiliðnum að vera við stjórnvölinn. Þrátt fyrir að það geti reynst erfitt að búa hana til, hvað þá að fylgja henni eftir. Þó Tengiliðir séu sérdeilis tengdir fólki eru þeir minnst tengdir peningum af öllum peningapersónugerðunum. Það felst einstakt tækifæri til valdeflingar í því að bæta sambandið við peninga.

Með öðrum orðum: þeim mun betur sem þér fer að líða með peninga, þeim mun fleira fólk geturðu sameinað. Þetta er í raun himneskt orsakasamhengi. Að búa til og standa við fjárhagsáætlun er því stórkostleg gjöf, ekki bara til þín heldur til allra í lífi þínu.

Dægurstjarnan – færir okkur jólafögnuðinn

Dægurstjörnur njóta sín um jólin. Á jólum gefst tækifæri til raunverulegrar sviðsetningar. Tilkomumiklar skreytingar, stórkostlegar gjafir og glæsilegur fatnaður. Jólin bjóða svo sannarlega upp á að öllu sé tjaldað til.

Jafnvel öguðustu Dægurstjörnur eiga það til að eyða of miklu og þá oft á síðustu stundu. Dægurstjarnan sér oft eftir þessarri hvatvísi og þá sérstaklega í janúar þegar þarf að gera reikningsskil.

Heimurinn þarf á glisi að halda - sér í lagi á jólunum og Dægurstjörnur kunna að glæða heiminn litum. Að fylgja fjárhagsáætlun er góð leið til að komast hjá því að eyða svo miklu að þú eigir enga peninga í janúar.

Þar sem ég er Dægurstjarna, get ég deilt með ykkur að besta leiðin til að koma í veg fyrir hvatvísa eyðslu er að setja sér tímamörk. Velja dag sem er síðasti dagurinn sem þú mátt kaupa fyrir jólin. Þannig seturðu þér mörk og lendir síður í því að kaupa þetta sem á að gera jólin fullkomin. Ég segi mér líka gjarnan að ég þarf ekki að kaupa til að jólin verði fullkomin.

Stjórnandinn – kemur jólunum heim og saman

Stjórnendur, leggið frá ykkur listann. Ég veit að þið eruð með hann. Sennilega er hann svo vel skipulagður að fjárhagsáætlun fylgir með. Þið komið því í verk sem gera þarf svo halda megi jólin. Vandamálið er hins vegar það að þið verðið sennilega svo þreytt og jafnvel pirruð af allri vinnunni og jólaundirbúningnum að það verður áskorun að njóta jólanna.

Stjórnandinn er innri stórveldisskaparinn en þegar hann er stressaður getur hann auðveldlega orðið innri einræðisherrann.

Stjórnandinn á það til að stýra jólunum. En hvernig væri að hugsa um jólin sem kvikmyndaframleiðslu þar sem allar persónur og leikendur fá að njóta sín og taka þátt. Hver og einn færir fram sína krafta og saman leysir hópurinn úr læðingi jólin sem eru áreynslulaus og allir fá að njóta sín. Líka þú Stjórnandi!

Alkemistinn – færir okkur anda jólanna

Alkemistar eiga oft í ástar/haturs sambandi við peninga. Þetta ástar/haturs samband getur yfirfærst á samband Alkemistans við jólin.

Kjarni jólanna getur svo auðveldlega tapast í verslunaræðinu og Alkemistinn tekur þetta nærri sér. Hættan er sú að Alkemistar sjái eftir peningunum sem þeir upplifa að þeir þurfi að eyða í jólin og að þá langi mest að láta sig hverfa um stund.

En við þurfum á töfrum Alkemistans að halda um jólin til að minna okkur á anda jólanna. Kæri Alkemisti - hvernig væri að líta á peningana sem þú eyðir um jólin sem tækifæri til að vefa töfra inn í líf þeirra sem þú elskar?

Ég vona að þessi ráð komi sér vel nú í aðdraganda jólanna. Mundu setja þér mörk svo þú getir notið alls þess góða sem jólahátíðin ber með sér.

Ég óska þér og fjölskyldu þinni gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Edda Jónsdóttir

Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Meira