c

Pistlar:

23. júní 2017 kl. 15:52

Edda Jónsdóttir (eddajonsdottir.blog.is)

Hvernig týpa ert þú í sumarfríinu?

Sumarið er komið og margir eru þegar komnir í sumarfrí. Aðrir eiga frí seinna í sumar og leggja nú drög að upplifunum ársins með einum eða öðrum hætti.

En hvernig endurspeglast samband okkar við peninga í ákvarðanatöku og peningahegðun á þessum árstíma? Ég ætla að gera tilraun til að varpa ljósi á líklega peningahegðun peningapersónugerðanna átta þegar sumarfrí eru annars vegar.

Skipulag og ráðdeild

Ef þú ert meðal þeirra sem gæta þess ávallt að eyða ekki um efni fram og finnst peningar vera til að safna þeim – ertu líklega Safnari. Ætlir þú að leggja land undir fót hefurðu sennilega keypt flugmiðann með eins löngum fyrirvara og mögulegt er. Þú hefur væntanlega gert fjárhagsáætlun og ert búin/n að komast að því hvaða dag vikunnar er frítt inn á söfnin. Þetta er ekkert til að skammast sín fyrir! Þú þarft bara að muna að leyfa þér að njóta og ef til vill setja inn ákveðna upphæð í fjárhagsáætlunina til að kaupa þér eitthvað fallegt til minningar um ferðina.

Sjálfboðavinna í sumarfríinu

Ef þú hefur unnið sjálfboðavinnu í sumarfríinu þínu, ertu líklega Alkemisti. Þó er ekki svo að skilja að allir Alkemistar vinni sjálfboðavinnu í sumarfrínu hvert einasta ár. En sumarfríið þarf þó að hafa merkingu til að Alkemistanum þyki bragð að. Það þarf að gera eitthvað af viti. Ekki bara flatmaga á sundlaugarbakka og horfa á skýin fljóta um loftin blá. Nei, Alkemistinn er líklegri til að fara í pílagrímsgöngu eða hópferð með góðum vinum eða fjölskyldumeðlimum, sem hægt er að eiga djúpar samræður við.

Annað hvort eða

Ef þú ert Dægurstjarna viltu annað hvort fara í almennilegt frí eða sleppa því!

Upplifanir skipta Dægurstjörnuna miklu máli auk þess sem hún er nýjungagjörn og vill gjarnan kanna nýjar slóðir.

Dægurstjarnan fær mikið út úr því að finna hagkvæmar leiðir til að upplifa lúxus í fríinu. Hún ver gjarnan tíma til að finna út hvenær er hagkvæmast að ferðast. Ferðalög utan háannatíma eru því að skapi Dægurstjörnunnar. Hún gæti hæglega slegið sumarfríinu á frest og tekið sér frí í haust þegar hún getur heimsótt ákjósanlega áfangastaði fyrir lægri upphæð. Á þeim tíma er einnig líklegra að hún fái betri þjónustu og það skiptir hana miklu máli.

Hver borgar?

Tengiliðurinn vill helst ekki fara í frí nema einhver annar borgi brúsann. Þó er ekki svo að skilja að Tengiliðurinn sé nískur. Nei, ástæðan er frekar sú að það skiptir Tengiliðinn meginmáli að verja tíma með góðu fólki. Staðsetningin skiptir hins vegar minna máli. Gott sumarfrí getur þessvegna verið á svölunum heima eða í sundlauginni í hverfinu.

Það getur virkað mjög vel fyrir Tengiliðinn að leggja ákveðna upphæð inn á bók mánaðarlega árið um kring og fá svo einhvern annan í fjölskyldunni eða vinahópnum til að skipuleggja fríið. Þá líður Tengiliðnum vel.

Alltaf að græða

Frumkvöðullinn er týpan sem skellir sér í utanlandsferð með skömmum fyrirvara eftir að hafa fengið endurgreiðslu frá skattinum eða bónusgreiðslu í vinnunni. Hann nýtur hverrar mínútu og sér ekki eftir krónu.

Ef Frumkvöðullinn er langþreyttur eða illa fyrirkallaður er hann líklegri en aðrar peningapersónugerðir til að kaupa sér utanlandsferð út á krít og skipta svo greiðslum fram á haustið.

Einfalt að njóta

Nærandinn leggur mikið upp úr að næra sitt fólk. Það á einnig við um sumarfríið hennar. Hún er líkleg til að eiga sumarbústað þar sem gestir og gangandi fá gjarnan að njóta einstakrar gestristni hennar.

Hún er einnig líkleg til að skipuleggja sérstaka ferð til að halda upp á áfanga í lífi sínu og annarra í fjölskyldunni eða vinahópnum.

Nærandinn er líklegust af peningapersónugerðunum til að snúa til vinnu að loknu sumarfríi, þreyttari en hún var áður en fríð hófst. Það er gott fyrir Nærandann að hafa í huga að hún þarf að efla sjálfa sig til að geta verið til staðar fyrir aðra. Það á við í sumarfríinu, sem endranær.

Hvað kostar fríið?

Stjórnandinn getur verið óraunsær þegar kemur að því að átta sig á hvað sumarfríið kostar. Hann getur langað eitthvert í fríinu en þegar hann sest niður og reiknar út hvað það kostar að fara, getur hann einfaldlega hætt við.

Stjórnandinn er einnig líklegastur af öllum peningapersónugerðunum til að fara ekki í frí. Ástæðan er sú að vinnan tekur mikinn tíma og Stjórnandanum finnst hann ekki hafa lagt nægilega hart að sér til að eiga inni að taka sér frí.

Það er gott að hafa í huga að enginn er ómissandi og það er öllum mikilvægt að hlaða rafhlöðurnar inn á milli – líka Stjórnendum.

Að njóta lífsins hvað sem það kostar

Rómantíkerinn er lífsnautnamanneskja sem trúir því að það verði alltaf til meira. Hún sér ekki tilgang með því að spara peninga og kýs frekar að nota þá til að njóta lífsins til fullnustu. Henni finnst hún einfaldlega eiga það skilið að taka sér gott frí.

Frí Rómantíkersins einkennist af því að njóta. Hún vill dekra við fólkið sem henni þykir vænst um og því er hún líkleg til að bjóða einhverjum með sér í fríið. Hún splæsir gjarnan í upplifanir og kaupir minjagripi í formi vandaðs skófatnaðar og fær sér að auki tösku í stíl.

Gleðilegt sumar!

Edda Jónsdóttir

Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Meira