c

Pistlar:

12. september 2017 kl. 10:29

Edda Jónsdóttir (eddajonsdottir.blog.is)

Eyðir þú of miklu í mat?

Margir upplifa að eyða of miklu í mat. En er raunhæft að lækka matarkostnaðinn fyrir fullt og allt?

Sjálf hef ég lesið ógrynni af greinum og bókum þar sem fjallað er um ýmsar leiðir til að lækka kostnað við matarinnkaupin og skipuleggja eldamennskuna. Margir af þeim sem hafa verið hjá mér á námskeiðum og í einkaþjálfun hafa einnig deilt þeim áskorunum sem þeir standa frammi fyrir þessu tengt.

Ég hef reynt ýmislegt og komist að því að eins og með flest annað, er engin ein leið sem hentar öllum. Ástæðan er sú að við erum ólík og höfum bæði mismunandi venjur og þarfir.

Tvennt á þó við um okkur öll. Við þurfum að borða og við viljum gjarnan halda niðri kostnaði við matarinnkaupin.

Fyrir þá sem hafa keppnisskap getur verið gott að hugsa að þá peninga sem sparast með ráðdeild og skipulagi megi nota til þess að gera eitthvað skemmtilegt. Til dæmis að fara á kaffihús eða leggja fyrir og safna fyrir draumafríinu.

Hér á eftir fara nokkur ráð. Taktu það sem þér geðjast að og láttu á það reyna. Það gæti virkað fyrir þig og þitt heimili. Ef ekki, er um að gera að gefast ekki upp heldur halda áfram að reyna.

Almenn markmið

  • Nýta vel það sem keypt er inn
  • Henda helst ekki mat
  • Skipulag og ráðdeild

Tímaskortur

Langir vinnudagar, skutl í íþróttir seinni partinn og umferðaröngþveiti geta gert það að verkum að margir freistast til að kaupa tilbúinn mat til að redda kvöldmatnum. Þó svo að það geti verið dásamlegt af og til, getur það líka verið kostnaðarsamt og jafnvel leiðigjarnt til lengri tíma litið.

Hví ekki að laga nokkra geymsluþolna rétti á sunnudögum og hafa tilbúna í ísskápnum til að grípa í? Til dæmis góða súpu, lasagna eða pottrétt sem auðvelt er að hita upp. Einnig er hægt að búa til pastasósu og setja í krukkur. Það er fljótlegt að sjóða pasta og blanda saman við.

Það er gott að hafa í huga að laga rétti sem öllum þykja góðir og líklegt er að muni klárast. Það er nefnilega enginn sparnaður að henda mat. Hvorki fyrir budduna né umhverfið.

Skipulagsleysi

Sumir af þeim sem ég hef unnið með í markþjálfuninni hafa borið fyrir sig skipulagsleysi þegar kemur að matarinnkaupunum. Rannsóknir sýna að þeir sem notast við innkaupalista eyða að jafnaði minna í mat. Svo það er gott ráð að gera innkaupalista. Það getur þó verið áskorun að halda sig við hann, því það getur verið margt sem glepur þegar í matvöruverslunina er komið.

Góð undantekning frá reglunni er þó þegar um tilboð er að ræða. Þá er samt gott að spyrja sig hvort tilboðsvaran verði örugglega notuð og/eða hvort hægt sé að frysta hana eða geyma með öðrum hætti. Hér komum við aftur að markmiðinu um nýtingu.

Annað sem gott er að muna er að fara ekki svangur í búðina því þá er líklegra að hvatvísin nái yfirhöndinni. Reyndu frekar að skipuleggja matarinnkaupin, til dæmis á laugardögum eftir morgunmat eða hádegismat.

Sumir skrifa niður hvað á að vera í matinn alla vikuna og fara svo í búðina til að kaupa inn það sem vantar í þá rétti. Aðrir skoða hvað til er í skápunum og frystinum áður en þeir gera lista yfir það sem þeir þurfa að bæta við til að gera sem mest úr því sem til er. Enn aðrir hafa til dæmis alltaf fisk á mánudögum, pizzu á föstudögum osfrv. Margir hafa líka afganga að minnsta kosti eitt kvöld í viku. Annað sem ég hef reynt er að fresta því að fara í búðina þangað til daginn eftir og skora á sjálfa mig að elda eitthvað gott úr því sem til er.

 

Líta aldrei á verðmiðana

Sumir þeirra sem ég hef unnið með hafa aldrei litið á verðmiða í verslunum. Þeir kaupa bara það sem þá vantar án þess að velta því fyrir sér. Ef þú samsamar þig með þessum hópi, er ráð að taka ákvörðun um að breyta þessu. Prófaðu að gera þetta að skemmtilegum leik. Geymdu nóturnar úr búðinni og berðu saman hversu mikið þú getur lækkað kostnaðinn við matarinnkaupin.

Það er líka um að gera að kenna börnum að bera saman verð og gera hagstæð innkaup. Þau geta haft bæði gagn og meira að segja gaman af.

En hvaða aðferð sem þú ákveður að prófa, gerðu það með opnum huga og finndu hvað hentar þér og þínu heimili.

Edda Jónsdóttir

Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Meira