c

Pistlar:

27. desember 2019 kl. 13:27

Edda Jónsdóttir (eddajonsdottir.blog.is)

Er ár þakklætis framundan hjá þér?

Á þessum árstíma lít ég gjarnan yfir farinn veg og verð meyr þegar ég hugsa um allt það góða sem ég hef til að vera þakklát fyrir. Ég er þakklát fyrir lífið, góða heilsu og að hafa þak yfir höfuðið. Ég er þakklát fyrir allt yndislega fólkið í lífi mínu og fyrir að fá að vera til staðar fyrir aðra. Ég er þakklát fyrir verkefnin sem mér eru falin og fyrir að geta sinnt þeim af alúð.

En hvers er að minnast?

Valdimar Briem (1848-1930) orti Nú árið er liðið sem gjarnan er sungið við áramót. Í öðru erindinu varpar hann fram spurningunni: „En hvers er að minnast? Og hvað er það þá, sem helst skal í minningu geyma? Nú allt er á flúgandi ferð liðið hjá, það flestallt er horfið í gleymskunnar sjá.“

Ég segi stundum að lífið sé allskonar. Sum ár eru þannig að maður vill helst gleyma þeim en önnur eru full af gleðilegum minningum. En skildi munurinn á þessu tvennu hafa eitthvað með viðhorf okkar sjálfra að gera? Ég er sannfærð um að þakklæti skiptir sköpum í lífinu. Það að auðsýna þakklæti getur breytt viðhorfi manns til hlutanna.

Segðu takk!

Fyrir nokkrum árum las ég bókina „What I Know For Sure“ eftir Opruh Winfrey. Þar talar hún meðal annars um mátt þakklætis og leyndardóminn sem er fólginn í því að þakka fyrirfram fyrir óorðna hluti.

Í bókinni segir Winfrey sögu af því þegar hún upplifði myrka tíma og hafði samband við vinkonu sína og lærimeistara, Mayu Angelou. Winfrey grét í símann og sagði Angelou að hún væri að niðurlotum komin. Í stað þess að auðsýna henni þá samúð sem Winfrey hafði búist við, sagði Angelou að bragði: „Segðu takk!“ Winfrey hváði, en Angelou hélt áfram: „Segðu takk! Þakkaðu fyrir að fá að upplifa þessa erfiðleika. Þú átt eftir að sjá hvaða þýðingu þeir hafa. Svo vertu þakklát.“ 

Winfrey skrifar að hún hafi með erfiðismunum stunið upp orðinu: „takk“. Svo lýsir hún því hvernig viðhorf hennar breyttist og hún sá erfiðleikana skyndilega í nýju ljósi.

Nokkur ráð um þakklæti

Ég hef haldið þakklætisdagbók með ýmsum hætti síðastliðinn áratug. Stundum hef ég skrifað þakklætisorð beint í dagbókina sem ég nota til að halda utan um dagskrá vikunnar. Einnig hef ég haldið sérstaka þakklætisdagbók og auk þess hef ég notað minnismiða sem ég skrifa á og hengi upp til að minna mig á það sem ég vil færa þakkir fyrir daglega.

Einn af viðskiptavinum mínum deildi með mér þeirri hugmynd að setjast niður reglulega, skrifa þakklætismiða og setja þá í krukku. Í lok ársins er svo hægt að hella miðunum úr krukkunni, lesa þá upp og rifja upp þakklæti ársins.

Þakklætið skilar sér líka í samskiptum okkar við aðra. Ég hef til dæmis tamið mér að hefja tölvupóstsamskipti á þakklætisorðum. Það lærði ég af samstarfsfólki í Bandaríkjunum, sem hefur kennt mér heilmikið um þakklæti.

Hjartans þakkir

Um leið og ég óska þér og þínum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári, vil ég hvetja þig til að virkja þakklætið í lífi þínu. Prófaðu að skrifa niður hvað þú ert þakklát/ur fyrir. Prófaðu líka að skrifa lista yfir fólkið sem þú ert þakklát/ur fyrir og hvers vegna. Næst þegar þú talar við fólkið á listanum þínum, geturðu notað tækifærið og þakkað þeim fyrir það sem þú ert þakklát/ur fyrir.

Þess ber að geta að þessi aðferð nýtist einkar vel í erfiðum samskiptum. Þegar við byrjum erfitt samtal á þakklæti, snýst samtalið gjarnan í jákvæða átt.

Það er gefandi að vera þakklát/ur og algjörlega þess virði að láta á það reyna á nýju ári. Gleðilegt þakklætisár!

Edda Jónsdóttir

Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Meira