c

Pistlar:

2. október 2020 kl. 15:52

Edda Jónsdóttir (eddajonsdottir.blog.is)

Ertu nóg?

„Dýpsti ótti okkar er ekki fólginn í því að við séum ekki nóg. Dýpsti ótti okkar er sá að við búum yfir takmarkalausum styrk. Það er ljósið innra með okkur en ekki myrkrið sem hræðir okkur mest. Við spyrjum okkur: hver er ég að halda að ég sé ljómandi, glæsileg, hæfileikarík, stórkostleg manneskja?

Reyndar, hver ertu ef ekki allt þetta? Þú ert barn Guðs. Það þjónar ekki heiminum að þú spilir minni rullu en efni standa til. Það er ekkert uppljómað við það að þú takir minna pláss til að koma í veg fyrir að aðrir verði óöruggir í návist þinni. Okkur er öllum ætlað að skína, eins og börn gera.

Við erum fædd til að vera farvegur fyrir dýrð Guðs sem býr innra með okkur. Hún býr ekki bara í sumum okkar, heldur í öllum. Þegar við látum ljós okkar skína, veitum við ómeðvitað öðrum leyfi til að gera slíkt hið sama. Þegar við verðum frjáls frá eigin ótta, mun nærvera okkar sjálfkrafa veita öðrum frelsi.“

Hugsanir eða raunveruleiki?

Þetta prósaljóð eftir Marianne Willamson snerti mína dýpstu hjartans strengi þegar ég las það í fyrsta skipti. Ástæða þess er sú að ég, eins og svo margir aðrir, hef á stundum upplifað að ég sé ekki nóg. Hugsanir á borð við: Ég get ekki gert þetta því ég er ekki nógu klár/gömul/ung/menntuð/hæf osfrv. hafa haldið aftur af mér.

Fyrir þónokkru gerði ég þó merkilega uppgötvun og hún er sú að velflestir ef ekki allir, kljást við sambærilegar hugsanir, að minnsta kosti endrum og sinnum. Mörg okkar kljást við takmarkandi hugsanir en margir ná tökum á þeim og láta þær ekki stoppa sig. En hvað er til ráða í baráttunni gegn takmarkandi hugsunum?

Valdeflandi sjálfshugmyndir í stað takmarkandi hugmynda

Fyrsta skrefið stígum við þegar við áttum okkur á því að umræddar takmarkandi hugsanir eiga rætur að rekja í undirliggjandi hugmyndum eins og til dæmis „Ég er ekki nóg“.

Ég hef tileinkað mér aðferð til að losna við takmarkandi hugsanir og hugmyndir og skipta þeim út fyrir valdeflandi hugmyndir sem bera með sér valdeflandi hugsanir. Þetta er tiltölulega einföld aðferð sem hægt er að nýta bæði þegar hugmyndirnar snúa að sjálfinu og þegar um er að ræða takmarkandi peningahugmyndir sem skjóta einnig upp kollinum reglulega.  

Verum óhrædd

Af orðum Marianne Williamson má ráða að við sjálf erum það eina sem stendur í vegi fyrir okkur. Við þurfum að taka ákvörðun um að standa með okkur. Að trúa því að við megum taka pláss og breiða úr vængjum okkar.

Endilega hafðu samband ef þig vantar hjálp til þess að losna við undirliggjandi sjálfshugmyndir sem standa í vegi fyrir framgangi þínum. Það er léttara en þú heldur að losna við þær og tileinka þér nýjar sem geta veitt þér byr undir báða vængi.

Edda Jónsdóttir

Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Meira