c

Pistlar:

12. febrúar 2019 kl. 10:56

Gunna Stella (einfaldaralif.blog.is)

Ég fékk nóg af draslinu

Þegar ég var ófrísk af fjórða barninu (árið 2015) þá fékk ég nóg af magni hlut á heimilinu okkar. Ég hreinlega hringsnerist í kringum sjálfa mig. Við eigum heima í stóru húsi á tveimur hæðum og einhverra hluta vegna var þetta hús yfirfullt af dóti, leikföngum, húsgögnum, þvotti, þvotti og þvotti og öllu því sem “á” að fylgja stórri fjölskyldu. Mér fannst ég ekki gera neitt annað við tímann minn en vinna og laga til.  

Árum saman var ég búin að leita að hinni fullkomnu leið til að skipuleggja. Skipuleggja fataskápana, skipuleggja þvottahúsið, skipuleggja eldhússkápana og svo má lengi telja. Ég var búin að eiga margar gerðir af kommóðum og geymsluhirslum en mér fannst þetta ekkert breytast.

Gunnhildur 076

Árið 2015 fékk ég nóg. Það hlaut að vera einhver önnur leið. Ég gerði það sem nútímaskynslóð gerir gjarnan og ég fór á netið að leita leiða til að Einfalda lífið. Mér til mikillar ánægju fann ég ýmsar lausnir. Sú fyrsta sem ég rakst á var Marie Kondo sem er einmitt mjög þekkt hér á landi í dag fyrir Netflix þætti sína.

Ég hlustaði á bókina hennar og byrjaði að fara eftir ýmsu sem hún kenndi. Sumt af því reyndist mér vel en ég áttaði mig þó fljótlega á því að hennar aðferðir við skipulagningu voru ekki endilega lausnin við vandamáli mínu. Ég þurfti ekki nýja leið til að skipuleggja eða koma hlutum fyrir. Ég hélt því áfram að nýta mér tæknina og fann frábærar leiðir til þess að Einfalda lífið. Ég las bækur og hlustaði á hlaðvörp eftir einstaklinga sem höfðu verið á sömu vegferð og ég. Einstaklinga sem upplifðu að heimilið væri yfirþyrmandi og ekki sá griðarstaður sem það ætti að vera.  Þessir einstaklingar eiga það allir sameiginlegt að hafa fengið nóg af magni hluta og kaupæðis og það var einmitt það sem ég var að leita að. Ég fór markvisst í gegnum heimilið okkar og minnkaði magn hluta, seldi, gaf á Nytjamarkaði o.sfrv. Ég fór að gera mér grein fyrir því að það var mun einfaldara að sinna því sem þurfti að sinna á stóru heimili ef það var minna af húsgögnum, minna af skrautmunum, minna af eldhúsdóti, minna af fatnaði og svo má lengi telja. Þessi vegferð okkar er ekki búin en við erum komin langa leið.

Einfaldara líf er betra líf

Í dag starfa ég sem Heilsumarkþjálfi, kennari og fyrirlesari og ég finn að svo margir upplifa heimilið sitt sem streituvald. Ég mæli því alltaf með því að markþegar mínir taki einföld skref í átt að Einfaldara lífi. Nú nýlega bjó ég til skjal TÍU TÍU (tíu skref í átt að einfaldara lífi) sem er útprentanlegt á PDF formi. Þú getur nálgast þetta skjal ókeypis hér!

 

Einfaldara líf er á allan hátt mun betra líf. Svarið við hraðanum og óreiðunni er ekki að endurskipuleggja dagatalið eða endurraða í skápana. Svarið er að láta það sem mestu máli skiptir í lífinu hafa forgang en fjarlægja úr lífi okkar það sem vinnur gegn því.Gangi þér vel að EINFALDA!

Gunna Stella

 

Gunna Stella

Gunna Stella

Gunna Stella starfar sem Heilsumarkþjálfi, kennari og fyrirlesari. Hún er fjögurra barna móðir og eiginkona sem er búsett á Selfossi.  Gunna Stella sérhæfir sig í því að hjálpa einstaklingum  að minnka hraðann, njóta lífsins og finna leiðir til þess að einfalda lífið, heilsuna og heimilið. Hennar helstu áhugamál eru ferðalög, lestur, gæðastundir með vinum og fjölskyldu og góður nærandi matur. Nánari upplýsingar má finna á www.einfaldaralif.is og á Instagram:gunnastella

 

Meira