c

Pistlar:

10. apríl 2019 kl. 13:53

Gunna Stella (einfaldaralif.blog.is)

Á sundi með plaströrum, plastumbúðum og gullfiskum

Ég hef oft heyrt að plast sé slæmt fyrir jörðina og hef markvisst reynt að minnka plastnotkun. Ég er þó langt frá því að vera búin að fullkomna það enda vön að nota plast í allskonar stærðum og gerðum árum saman. Ég áttaði mig í raun ekki á því hversu slæmt plast er fyrir umhverfið okkar fyrr en ég fór að synda í sjónum á Balí. Í kringum mig flutu plastpokar og plastumbúðir og út um allt voru plaströr. Ástæðan er ekki sú að ruslið sem skilur sér á strendurnar hér sé ekki þrifið heldur hafa Balíbúar ekki undan. Hér á Balí vinna menn hörðum höndum við að þrífa upp allt ruslið sem skilar sér á strendurnar hér en ruslið virðist vera endalaust, því miður.

 

Þegar við fjölskyldan fórum að snorkla varaði leiðsögumaðurinn okkur við því að við myndum mjög líklega sjá fljótandi plast á ýmsum stöðum. Það reyndist mikið rétt. Samt fer hann mörgum sinnum í viku að snorkla og tekur yfirleitt vel til og týnir plastið úr sjónum. Það var ótrúlega magnað að sjá alla fiskana og alla fegurðina í því sem býr neðansjávar. En plastið átti svo sannarlega ekki heima þar og passaði ekki inn í umhverfið. Plast er svartur blettur á umhverfinu. Plast er víða þar sem því var aldrei ætlað að koma og plast er í mikið af þeim vörum sem við notum dags daglega og skilar það sér ekki allt í endurvinnslu. Ég fagna minnkandi plastnotkun á Íslandi. Eftir þessa upplifun er ég að nálgast þá skoðun það eigi að banna einnota plast og banna plaströr.

 

Ég hef sjálf tekið nokkur skref í átt að minni plastnotkun en þarf að gera mun betur þegar heim er komið. Upplifun mín á Balí mun verða góður drifkraftur til þess.

 

Kær kveðja,

Gunna Stella

 



Gunna Stella

Gunna Stella

Gunna Stella starfar sem Heilsumarkþjálfi, kennari og fyrirlesari. Hún er fjögurra barna móðir og eiginkona sem er búsett á Selfossi.  Gunna Stella sérhæfir sig í því að hjálpa einstaklingum  að minnka hraðann, njóta lífsins og finna leiðir til þess að einfalda lífið, heilsuna og heimilið. Hennar helstu áhugamál eru ferðalög, lestur, gæðastundir með vinum og fjölskyldu og góður nærandi matur. Nánari upplýsingar má finna á www.einfaldaralif.is og á Instagram:gunnastella

 

Meira