c

Pistlar:

23. maí 2019 kl. 14:01

Gunna Stella (einfaldaralif.blog.is)

Ég öskraði úr mér lungun...

Undanfarna daga hefur myndast mikill spenningur í bænum sem ég bý í. Fólk hefur klætt sig í vínrauð föt, hengt upp fána, keyrt um með fána og verið tilbúin í slaginn. Þú ert eflaust farin að átta þig á hvað ég er að tala um. Já, baráttan um Íslandsmeistaratitilinn í Handbolta. Selfoss átti von á Haukum í heimsókn. Heimaleikur í Hleðsluhöllinni. Þvílík spenna. Þvílík stemning í bænum. Leikurinn var magnaður. Liðið stóð sig frábærlega og áhorfendur einnig. Ég horfði á leikinn í háskerpu ein heima með drengina. Spennan var mikil og ég öskraði úr mér lungun. Við stóðum saman og héldum með Selfossi. Fyrir utan einn á heimilinu. Yngsti sonurinn hafði bitið það í sig að hann ætlaði að halda með Haukum þar sem þeir væru svo góðir í handbolta. Já, það er mikið rétt hjá honum en rótin að þessum skyndilega áhuga drengsins á því að halda með Haukum var sú að síðasta leikur sem hann hafði séð var þegar Haukar unnu Selfoss. Það var því nokkuð erfitt að sýna samstöðu á heimilinu. Ég öskraði af gleði við hvert mark og hann hélt fyrir eyrun og vildi ekki horfa lengur á þennan handbolta. Ég greip því á það ráð að kveikja á Hvolpasveit í tölvunni fyrir hann. Hann var mjög ánægður með það og kallaði svo úr herberginu síðar og tilkynnti okkur að hann væri hættur að halda með Haukum (Selfoss var jú að vinna).

 

Það er eitthvað sérstakt sem gerist þegar við stöndum saman. Það er auðvelt að finna það í heilu bæjarfélagi. Þegar þú heyrir bæjarbúa fagna Íslandsmeistaratitlinum langt fram á nótt með bílaflauti og flugeldum. Næsta árið verðum við svo öll sérstaklega stolt af því að vera Selfyssingar. Svo stolt að líklega hengja mörg heimili upp mynd af handboltaliðinu.

En er hægt að ná svona samstöðu í víðara samhengi. Er hægt að sýna meiri náungakærleika? Ég held að lífið verði einfaldara þegar við stöndum saman. Lífið verður einfaldara þegar við veljum það að huga að náunganum. Þegar við hættum að láta allt snúast um okkur sjálf. Þegar við veljum að gera góðverk. Gefa, hjálpa og nota þá hæfileika sem okkur hefur verið gefið öðrum til blessunar. Það var magnað að hlusta á lýsingar drengjanna í handboltaliðinu sem sögðu frá öllum sjálfboðaliðunum sem höfðu unnið óeigingjarnt starf. Það er frábært. En við þurfum ekki endilega að vera tengd íþróttafélagi til að geta unnið óeigingjarnt starf. Við getum gefið bros, gefið falleg orð, gefið góðverk, gefið af fjármunum okkar, gefið af tíma okkar. Ég held að lífið breytist á magnaðan hátt þegar það hættir að snúast um okkur sjálf og fer að snúast um að gefa ...

 

Sælla er að gefa en þiggja er það ekki? Ég er allavega á þeirri skoðun. Hamingjan er fólgin í því að huga að öðrum. Í ljósi þessa ætla ég að bjóða þér að taka þátt í ókeypis hamingjuáskorun, sem hefst 10. júní næstkomandi. Áskorunin stendur í 10 daga og mun ég koma með áskorun í formi myndbands dag hvern. Það eina sem þú þarft að gera er að líka við síðuna Einfaldara líf og þú munt fá tilkynningu þegar áskorunin hefst.

 

Hafðu það sem allra best,

 

Gunna Stella









Gunna Stella

Gunna Stella

Gunna Stella starfar sem Heilsumarkþjálfi, kennari og fyrirlesari. Hún er fjögurra barna móðir og eiginkona sem er búsett á Selfossi.  Gunna Stella sérhæfir sig í því að hjálpa einstaklingum  að minnka hraðann, njóta lífsins og finna leiðir til þess að einfalda lífið, heilsuna og heimilið. Hennar helstu áhugamál eru ferðalög, lestur, gæðastundir með vinum og fjölskyldu og góður nærandi matur. Nánari upplýsingar má finna á www.einfaldaralif.is og á Instagram:gunnastella

 

Meira