c

Pistlar:

22. nóvember 2019 kl. 13:03

Gunna Stella (einfaldaralif.blog.is)

Ertu í fríi í fríinu?

Fyrir tveim vikum síðan fórum við hjónin í fjögurra daga ferð til Kanarýeyja. Það var afar ljúft að breyta aðeins til og fá smávegis frí. Ég var tvístígandi varðandi það hvort ég ætti að taka tölvuna mína með. Ég hef mjög gaman af því að skrifa og er að vinna að mjög spennandi verkefni þessar vikurnar. Ég sá fyrir mér að geta skrifa allan tíman í flugvélinni (heilar 5 klukkustundir og 40 mínútur) og hið sama á heimleiðinni. Ég var samt komin í þörf fyrir “hleðslu”. Ég líki líkamanum okkar oft við síma. Við þurfum að stinga reglulega í samband og hlaða okkur sjálf til þess að halda fullri orku. Það er misjafnt hvað er á okkar hleðslulista en vinnan okkar á í raun ekki að vera á honum þó svo okkur finnist hún skemmtileg eins og mér finnst mín. Ég ákvað því að skilja tölvuna eftir. Eftir smá stund náði ég í hana aftur og pakkaði ofan í tösku. Ég hélt á töskunni út að bíl og hugsaði mig tvisvar um. Hvað var ég að gera? Ætlaði ég ekki að nota þessa þrjá daga til að hlaða. Til þess að endurnæra mig til þess að ég hefði ennþá meiri orku þegar ég kæmi heim. Jú, það var víst það sem ég ætlaði að gera. Ég opnaði því töskuna. Tók tölvuna upp og fór með hana inn. Flugferðin var frábær. Ég var ekki að skrifa. Ég las, horfði á kvikmynd og hugsaði.  Ég kom endurnærð heim úr þessari ferð. Það voru ekki komin fleiri orð í skjalið mitt góða en þetta var hárrétt ákvörðun. Það er afar mikilvægt fyrir okkur að huga að því að stoppa, hætta vinnunni okkar og hlaða. Sama hversu skemmtileg eða leiðinleg okkur finnst vinnan okkar vera. Rannsókn sem var gerð á vegum blaðamannsins Dan Buettner og National Geographic hefur sýnt að það eru níu atriði sem einkenna hópa fólks sem lifir hvað lengst. Í heiminum fyrirfinnast svokölluð blá svæði sem hægt er að lesa um í bókinni The Blue Zones. Þessi bláu svæði eru Sardinía á Ítalíu, Ikaría á Grikklandi, Nicoya Peninsula á Kosta Ríka, Aðventistar í Loma linda í Kaliforníuog Okinawa í Japan. Eitt af því sem einkennir þessa hópa er að þeir taka reglulega hvíld. Við erum ekki að tala um að þeir sofi betur en við hin, eða sofi lengur heldur virða þeir hvíldardaga og/eða siestu. Mér finnst þetta mjög magnað og eitthvað sem ég er virkilega að skoða þessa dagana. Það er gott að horfa á frítíma okkar og/eða fríin okkar sem nokkurs konar hleðslu. Það er mismunandi hvað hleður okkur. Ég elska að lesa, fara í göngutúra og borða góðan mat. Þú upplifir kannski meiri hleðslu í því að fara út að hlaupa, hlusta á tónlist og fara í gufubað. Við erum svo misjöfn. En það er mikilvægt fyrir okkar andlegu og líkamlegu heilsu að við stundum reglulega hvíld með því að stoppa, hvíla, ígrunda og njóta. 

 

Hvernig væri að taka einn góðan hleðsludag í þessari viku. Hvernig væri að njóta umhverfisins, njóta samverunnar við fólkið sem þú umgengst og virkilega njóta þess þegar heita vatnið rennur um líkama þinn þegar þú ferð í sturtu. Ég ætla að taka einn góðan hleðsludag þessa helgi. Ég ætla að slökkva á netinu í símanum mínum eins og ég hef gert reglulega undanfarið. Ég ætla ekki að opna tölvuna. Ég ætla að lesa, njóta samveru með fjölskyldu minni, fara í göngutúr, heimsækja vini og setjast niður án þess að hafa samviskubit. Ég ætla að gefa þvottavélinni frí, ég ætla að gefa eldavélinni frí og ég ætla að vera mannVERA ekki mannGERA! Ertu með? 

Kærleikskveðja, 

Gunna Stella 





Gunna Stella

Gunna Stella

Gunna Stella starfar sem Heilsumarkþjálfi, kennari og fyrirlesari. Hún er fjögurra barna móðir og eiginkona sem er búsett á Selfossi.  Gunna Stella sérhæfir sig í því að hjálpa einstaklingum  að minnka hraðann, njóta lífsins og finna leiðir til þess að einfalda lífið, heilsuna og heimilið. Hennar helstu áhugamál eru ferðalög, lestur, gæðastundir með vinum og fjölskyldu og góður nærandi matur. Nánari upplýsingar má finna á www.einfaldaralif.is og á Instagram:gunnastella

 

Meira