c

Pistlar:

30. janúar 2020 kl. 16:02

Gunna Stella (einfaldaralif.blog.is)

Líkami minn kallar á 24:1 hleðslu

Undanfarna mánuði hef ég verið að æfa mig í að taka einn sólahring í viku þar sem ég legg alla vinnu til hliðar, loka tölvunni, slekk á netinu í símanum mínum og geri það sem mig langar til að gera þann daginn. Það er mjög sérstök tilfinning að vera aftengd samfélagsmiðlum. Fyrst þegar ég gerði þetta hélt ég að ég væri að missa af einhverju. Það merkilega kom hinsvegar í ljós er að lífið heldur áfram þó svo að ég slökkvi á netinu í einn sólahring. Fólkið sem ég umgengst mest er líka farið að átta sig á því að það þýðir ekki að ná í mig þennan dag í gegnum samfélagsmiðla. Því þarf fólk að taka upp símann og hringja. 

 

Tilhneiging flestra er sú að við förum í gegnum vikuna á sjálfstýringu, bíðum eftir helginni, notum helgina til að vinna upp það sem bíður okkar eftir brjálaða viku og höldum svo þannig áfram viku eftir viku. Staðreyndin er hinsvegar sú að við þurfum öll á hvíld að halda. Við þurfum reglulega að stinga okkur í hleðslu rétt eins og við setjum símann okkar í hleðslu. 

 

Í raun er enginn ein leið til að eiga sem bestan hvíldarsólahring. Það sem mestu máli skiptir er að þú staldrir við, minnkir áreiti og gerir það sem hleður þig. Á námskeiðum hjá mér hvet ég þátttakendur oft til að skrifa hleðslulista. Ég bið þau að sjá fyrir sér að þau séu sími sem þarf reglulega á hleðslu að halda. Sum hleðslutæki hlaða hraðar en önnur og sum símaforrit draga meiri hleðslu af símanum en önnur. Rétt eins og sími þá þurfum við á reglulegri hleðslu að halda. 

 

Þegar ég skoða hleðslulistann minn þá átta ég mig á því að ég elska útiveru, nærist á lestri góðra bóka, elska að borða góðan mat og nýt þess virkilega að vera í kringum fjölskyldu mína og annað fólk sem ég finn að hefur góð áhrif á mig. 

 

Það er leyndardómur í því að stunda hvíld. Það er munur á hvíld og frídegi. Á frídegi erum við að sinna heimilinu, þvo þvott og græja aðra hluti sem við náum ekki að græja í vikunni. Á hvíldardegi hefurðu góða afsökun til þess að læra að hægja á, njóta þess sem þú átt í lífinu, stunda samfélag við fólk sem þú elskar að vera í kringum og sinna áhugamálum þínum og leggja alla vinnu til hliðar í sólahring. 

 

Það merkilega er að þegar ég fór fyrst að taka frá einn sólahring í vikunni til þess að stunda markvissa hvíld þá kveið ég fyrir því. Ég vissi ekki hvað ég ætti að gera við tímann minn, hvernig ég gæti undirbúið það og hvað ég ætti að gera. Í dag þá skil ég ekki hvernig ég fór að því að keyra mig stöðugt áfram í hraðanum. Vinna jafnvel á hverjum einasta degi og sleppa því að gera hluti sem nærðu anda minn, sál og líkama. 

 

Ég hvet þig til þess að skrifa niður hleðslulista. Ég hvet þig til þess að skoða hvað það er sem endurnærir þig og hleður þig til anda, sálar og líkama. Ég hvet þig til að staldra við og hægja á, aftengjast netinu og stunda einn góða hleðslusólahring í viku. 

 

Fyrir þá sem eru að byrja er gott að byrja á hálfum sólahring og auka það svo smám saman. En vittu til,því fleiri hleðsludaga sem þú átt því meira fer líkami þinn að “rukka” þig um hleðsludaga. 

 

Ef þú vilt vita meira hvernig þú getur hægt á og einfaldað lífið þá hvet ég þig til að skrá þig á póstlista hjá mér og fylgjast með á samfélagsmiðlum

 

Kærleikskveðja, 

Gunna Stella 






Gunna Stella

Gunna Stella

Gunna Stella starfar sem Heilsumarkþjálfi, kennari og fyrirlesari. Hún er fjögurra barna móðir og eiginkona sem er búsett á Selfossi.  Gunna Stella sérhæfir sig í því að hjálpa einstaklingum  að minnka hraðann, njóta lífsins og finna leiðir til þess að einfalda lífið, heilsuna og heimilið. Hennar helstu áhugamál eru ferðalög, lestur, gæðastundir með vinum og fjölskyldu og góður nærandi matur. Nánari upplýsingar má finna á www.einfaldaralif.is og á Instagram:gunnastella

 

Meira