c

Pistlar:

20. maí 2020 kl. 14:13

Gunna Stella (einfaldaralif.blog.is)

Hvaða tilgang hef ég?

Sonur minn slasaði sig á hjóli í síðustu viku. Hann var bólgin og með saum í vör og svaf illa nóttina eftir slysið. Þegar börnin mín eru veik eða slasa sig þá þá gerir móðureðlið það að verkum að ég er alltaf að vakna til að athuga hvort  sé í lagi með þau. Þessi nótt var eins. Drengurinn svaf við hlið mér,umlaði mikið og var illt. Ég var mjög glöð þegar morguninn kom því ég vissi að það versta væri yfirstaðið og nú tæki við lækningaferli. Drengurinn var duglegur að kæla vörina allan daginn með frosnu jarðarberi í poka. Þvílíkur munur. Bólgan hjaðnaði og á einum degi gat hann drukkið úr glasi á venjulegan hátt án þess að nota rör. Þennan dag sat drengurinn mikið í sófanum. Hann gat lítið annað gert enda stokkbólgin og frekar lurkum laminn. Hann horfði á kvikmyndir og þætti og átti notalega stund. Ein kvikmyndin sem hann horfði á fjallaði um strumpana. Það sem mér þótti merkilegt við myndina var hversu góð lýsing var á því hvernig hver strumpur hafði sitt hlutverk. Það er svo sem ekki eins og ég hafi aldrei horft á strumpana áður en ég hafði aldrei hugsað þetta í þessu samhengi. Bakastrumpur bakaði, fýlustrumpur var í fýlu, gáfnastrumpur hafði eitthvað gáfulegt að segja, kraftastrumpur var sterkastur og svo mætti lengi telja. En svo var það hún Strympa. Í myndinni er sérstaklega tekið fram að Strympa var lengi búin að reyna að finna hvert hennar hlutverk væri. Hún klúðraði bakstrinum, hún gat ekki verið í fýlu, hún átti erfitt með að læra staðreyndir og hún var ekki sterk. En hún var að leita að sínu hlutverki og reyna að átta sig á því hver hún var. 

 

Mér fannst þetta mjög áhugaverð nálgun. Það er svo mikilvægt fyrir öll okkar hvort sem við erum strumpar eða menn, að hafa tilgang. Það er svo mikilvægt fyrir okkur að hafa eitthvað til að vakna til á morgnana. Það er svo mikilvægt að við upplifum okkur hluta af einhverju stærra, einhverri heild. Það að hafa tilgang getur breytt líðan okkar andlega og líkamlega. Rannsóknir hafa sýnt fram á að fólk sem hefur tilgang lifir lengur, er heilbrigðara og almennt sáttara í lífinu. 

 

Það sem vill þó oft gerast er að lífið “bara gerist.”  Við upplifum ábyrgð gagnvart fólki, samstarfsmönnum, fjölskyldu og vinum og allt í einu gefst lítill tími  til þess að átta sig á hvað það er sem maður raunverulega vill fyrir líf sitt. Þess vegna er mikilvægt að vera tilbúin að endurskoða líf sitt. Skoða hvort það sem þú ert að setja mesta tíma þinn í sé það sem skipti þig mestu máli eða hvort þú þurfir jafnvel að endurraða og endurskoða. Fordæmalausir tímar og allt sem honum fylgir gefur okkur einmitt tækifæri til þess að huga að framtíðinni, hvað það er sem skiptir okkur mestu máli og hvert við viljum stefna. 

 

Ef þú upplifir þig eins og Strympu, þ.e að þú vitir ekki hver tilgangur þinn er þá hefur þú tækifæri til að byrja að vinna í því í dag. Strympa þurfti að fara í vegferð til að átta sig á hver hennar tilgangur var og komst að því að lokum (án þess að ég uppljóstri um það hvernig myndin endar). Það sama á við um þig. Þú hefur tilgang. Þú hefur frábæra hluti að færa inn í samfélagið okkar. Þú hefur sögu að segja. Hver er þín saga? 



Til þess að kafa betur ofan í þetta. Hvet ég þig til að hlaða niður skjalinu “Hver er tilgangur minn?” og svara spurningunum sem eru þar.  Þú getur smellt hér til þess að hlaða því niður. 

 

Gangi þér vel 

 

Kærleikskveðja, 

Gunna Stella 

Gunna Stella

Gunna Stella

Gunna Stella starfar sem Heilsumarkþjálfi, kennari og fyrirlesari. Hún er fjögurra barna móðir og eiginkona sem er búsett á Selfossi.  Gunna Stella sérhæfir sig í því að hjálpa einstaklingum  að minnka hraðann, njóta lífsins og finna leiðir til þess að einfalda lífið, heilsuna og heimilið. Hennar helstu áhugamál eru ferðalög, lestur, gæðastundir með vinum og fjölskyldu og góður nærandi matur. Nánari upplýsingar má finna á www.einfaldaralif.is og á Instagram:gunnastella

 

Meira