c

Pistlar:

16. júní 2020 kl. 9:35

Gunna Stella (einfaldaralif.blog.is)

Ég vaknaði upp við vondan draum!

Ég vaknaði við vondan draum. Ég var mjög fegin að vera vöknuð og áttaði mig smám saman á því að þetta hafi bara verðið draumur. Samt sem áður sló hjartað hratt og augun voru farin að vökna. Mig hafði dreymt að ég var að flýja undan glæpagengi. Ég var föst í húsi, gísl ásamt lítilli stúlku. Allan drauminn var ég að reyna að flýja undan glæpamönnum sem höfðu eitthvað illt í huga. Við reyndum að komast í gegnum margar dyr og allt í einu opnaðist lítil hvít hurð og ég sá manninn minn. Ég hljóp til hans og við féllumst í faðma. Hann hafði verið að leita að mér, vissi að ég var í vandræðum og ég fann að ég var örugg. 

 

Þegar ég vaknaði áttaði ég mig á hvað þessi draumur hafði haft óþægileg áhrif á mig. Öryggi mínu hafði verið ógnað í draumnum og ég var skelfingu lostin. Þannig upplifðu lífið í nokkrar vikur í vetur og vor. Öryggi þeirra var ógnað og veiran yfirtók allt. En svo kom sumar. Fólk er nú farið að fallast í að faðma, snjórinn er farinn, sólin skín oftar og gleðistuðullinn vex. Þakklátt fyrir nýja tíma.

 

Þegar ég var lítil stelpa var ég mjög hrædd við að ganga fram hjá gömlu húsi í bænum sem ég bjó í. Ímyndunarafl mitt var mikið og ég óttaðist að inni í gamla kaupfélagshúsinu væri ísbjörninn sem ég hafði séð  úr þáttunum um Nonna og Manna. Í hvert skipti sem ég þurfti að fara framhjá húsinu hljóp ég eins hratt og fætur toguðu því ég var viss um að ísbjörninn ætlaði að ná mér.  Á bak við óöryggi er ótti. Stundum getum við óttast aðstæður, stundum getum við óttast fólk, stundum getum við óttast framtíðina. 

 

Ótti er oft eins og upplifun mín varðandi húsið og ísbjörninn. Ímyndunaraflið tekur völdin og við óttumst það versta. Í langflestum tilfellum er þetta svo óraunhæft að það mun aldrei gerast sbr. söguna um ísbjörninn. Það sem hefði  mun líklegar gerst er að ég hefði dottið í óttakastinu og fengið sár á hnén. 

 

Ertu til í að gera smá verkefni? 

 

Náðu í blað og penna. 

 1. Teiknaðu nú stóran hring á blaðið (á stærð við morgunverðarskál).
 2. Nú skaltu teikna mun minni hring inn í stóra hringinn (á stærð við glas).
 3. Nú skaltu teikna hring á stærð við tíkall inn í minni hringinn. Fyrsti hringurinn táknar allt það sem við ímyndum okkur að gæti gerst.

 

Næst minnsti hringurinn táknar allt það sem gæti mögulega gerst.

 

Minnsti hringurinn táknar það sem gæti gerst í alvörunniÓtti hefur lamandi áhrif á líf okkar. Því er mjög mikilvægt að muna að leyfa honum ekki að ráða ferðinni. Ef við tökum alltaf ákvarðarnir út frá stærsta hringnum verður lítill árangur og lítill vöxtur en ef við veljum að stíga á móti óttanum og inn í hugrekkið þá gerast magnaðir hlutir. 

 

Hvenær notar þú orðin “Hvað ef…”? á neikvæðan hátt? 

 

 • Hvað ef ég klúðra þessu? 
 • Hvað ef þau segja nei? 
 • Hvað ef ég fæ ekki inngöngu? 
 • Hvað ef mér verður hafnað? 
 • Hvað ef hann/hún elskar mig ekki ekki? 
 • Hvað ef ….? 

 

Hvernig væri að prófa í einn dag að nota orðin Hvað ef….? á jákvæðan hátt? 

 

 • Hvað ef þetta gengur ótrúlega vel? 
 • Hvað ef þau segja já? 
 • Hvað ef ég fæ inngöngu? 
 • Hvað ef þau taka mér rosalega vel? 
 • Hvað ef ef hann/hún elskar mig? 
 • Hvað ef….? 

 

Oft veljum við að bregðast við á neikvæðan hátt til þess að vernda okkur. Við veljum að sjá fyrir okkur höfnunina, eða aðstæðurnar á neikvæðan hátt því við teljum að við séum að verja okkur fyrir sársauka. Er ekki betra að taka áhættuna, opna hjartað sitt og vera opin fyrir þeim tækifærum sem lífið færir þér? Jú, svo sannarlega. 

Gangi þér vel, 

Gunna Stella 
Gunna Stella

Gunna Stella

Gunna Stella starfar sem Heilsumarkþjálfi, kennari og fyrirlesari. Hún er fjögurra barna móðir og eiginkona sem er búsett á Selfossi.  Gunna Stella sérhæfir sig í því að hjálpa einstaklingum  að minnka hraðann, njóta lífsins og finna leiðir til þess að einfalda lífið, heilsuna og heimilið. Hennar helstu áhugamál eru ferðalög, lestur, gæðastundir með vinum og fjölskyldu og góður nærandi matur. Nánari upplýsingar má finna á www.einfaldaralif.is og á Instagram:gunnastella

 

Meira