c

Pistlar:

19. júní 2015 kl. 10:57

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Virðum réttinn

iceland_flag.jpgÍ dag fögnum við því að formæður okkar, 40 ára og eldri fengu kosningarétt fyrir 100 árum síðan. Margar konur sameinuðust í átaki til að öðlast þennan rétt, en eins og svo oft eru það einungis nöfn fárra sem haldið er á lofti nú 100 árum síðar. Allar hinar, sem við vitum engin deili á eiga ekki síður þakkir skildar.

Frá því ég fékk kosningarétt hef ég alltaf nýtt mér hann, einfaldlega vegna þess að mér finnst þetta svo mikilvægur réttur. Hið sorglega er hins vegar að margar yngri konur (og menn) nýta sér ekki þennan rétt. Þau virðast ekki skilja vægi atkvæði síns, því með því að kjósa ekki deyr þeirra rödd og skoðun í þjóðmálaumræðunni. Ég vil hvetja þetta unga fólk til að endurmeta stöðu sína og virða réttinn sem þau hafa til að hafa áhrif, jafnt og formæður okkar gerðu þegar þær fengu sinn kosningarétt.

Í dag er því einnig fagnað að 100 ár eru liðin frá því við fengum fánann okkar. Hann er að mínu mati sameiningartákn þjóðarinnar. Hann er líka tákn um að við séum þjóð meðal þjóða. Ég gleymi seint því stolti sem ég fylltist þegar ég var á ráðstefnu í Frakklandi fyrir tæpum fjörutíu árum síðan og leit upp og virti fyrir mér fánaborgina fyrir framan ráðstefnuhöllina og fann íslenska fánann. Við vorum virkir þátttakendur í þessari ráðstefnu og tákn um það var fáninn okkar.

Flöggum í dag fyrir þeim réttindum sem við öðluðumst á þessum degi fyrir 100 árum. Til hamingju með daginn landsmenn.

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira