c

Pistlar:

24. júní 2015 kl. 10:30

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Alltaf unga kynslóðin

Ég er ekki að tala um þá sem ungir eru í dag, heldur okkur sem teljumst vera ’68 kynslóðin. Okkur sem vorum unglingar þegar “táningurinn varð til”, þegar Karnabær opnaði “tískuverslun unga fólksins” og við stelpurnar, rétt nýfermdar, hættum að ganga í hnéðsíðum pilsum og peysusettum eins og mömmur okkar og fórum að ganga í stuttum pilsum, þröngum bolum og buxnadrögtum. Strákar og stelpur fóru í útvíðar buxur og strákarnir hentu hálsbindunum og gengu í skyrtum með blúndum á bringunni og létu sér vaxa sítt hár.

Það varð bylting og við sem þá urðum unga kynslóðin höfum haldið áfram að vera það, alla vega í eigin huga. Við höldum áfram að klæða okkur í takt við tískuna. Okkur stelpunum finnst ákveðinn fatnaður of “kerlingalegur” fyrir okkur, þótt við séum orðnar sextíu plús. Við viljum ennþá hafa kjólana stutta, vel fyrir ofan hné, buxurnar þröngar og bolina flegna. Við lærðum að klæða okkur eftir tísku unga fólksins og höfum í raun gert það alla ævi. Við erum fyrsta kynslóðin sem eldist með þessum formerkjum.

Bætum æsku við árin
Aldurinn er ekki að þvælast fyrir okkur nema þá helst í kennitölunni og þegar við fáum boð um að nú getum við sótt um aðild að Félagi eldri borgara. Ég segi yfirleitt þegar ég er spurð að aldri að ég sé 23 ára, en bæti svo gjarnan við þegar fólk setur upp spurnarsvip, að ég hafi komið til jarðar árið 1950.

Því er ekki nema eðlilegt að við viljum bæta æsku við árin, líta unglega út og halda lífsþrótti okkar og orku sem lengst, svo við getum verið virkir þátttakendur í samfélaginu. Ekki er nauðsynlegt að gera það með dramatískum skurðaðgerðum eða efnum með eitrandi áhrifum eins og bótoxi, því nú er hægt að fá andlitskrem og bætiefni sem yngja okkur jafnt að utan sem innan. Við getum því haldið áfram að vera “unga kynslóðin” til æviloka.

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira