c

Pistlar:

6. október 2015 kl. 10:16

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Bleikir þarmar

article-2627821-1dd3103400000578-861_634x632.jpgÉg fagna því að átak Krabbameinsfélagsins þetta árið skuli snúa að ristlinum, þessum mikilvæga þarmi okkar, sem auðvitað hefur sinn sjarma, þótt flestir vilja sem minnst um hann tala. Svo virðist sem við skömmumst okkar (var lengi vel engin undantekning þar sjálf) fyrir að tala um þetta líffæri, einfaldlega vegna þess að um hann fer úrgangurinn úr líkama okkar. Það er einhvern veginn ekki smart að tala um saur, skít, hægðir eða kúk – svo við þegjum yfir meltingarvandamálum og ræðum ekki um það hversu oft á dag, í viku eða mánuði við höfum hægðir, heldur söfnum vandanum upp með þögn. Og ef við ræðum málið, köllum við hægðirnar gjarnan “númer 2”, með tilvísun til þess að þvag sé “númer 1”.

Meltingarvandamál og þar með talið hæðgavandamál hafa lengi verið hluti af því sem ég hef verið að takast á við heilsufarslega. Man að í fyrsta sinn sem ég fór til meltingarsjúkdómasérfræðings, þegar ég var ca 17 eða 18 ára, vildi hann bara gefa mér Valium. Sem betur fer sleppti ég því að taka það og hélt fyrst áfram að þjást, en svo smátt og smátt að læra að það var mataræði mitt sem réði því hversu góðar hægðirnar voru.

Þarmaflóran, sem ræður miklu um upptöku fæðunnar og losun ristilsins, skiptir ekki síður miklu máli. Í bók okkar Candida sveppasýking, sem fyrst kom út árið 1993 og hefur síðan oft verið endurútgefin, fjölluðum við Hallgrímur heitinn Magnússon læknir um mikilvægi þarmaflórunnar og hvað gera þyrfti til að halda henni góðri. Með þeirri bók ruddum við brautina fyrir umræðu um þetta mikilvæga efni og voru ekki allir á einu máli þá um að mataræði og þarmaflóra skipti máli fyrir heilsu okkar.

“Síðan eru liðin mörg ár...” eins og segir í dægurlagatextanum og væntanlega heldur sá skilningur áfram að aukast hjá fólki að við erum það sem við borðum og að heilsa okkar er í samræmi við næringuna sem við í okkur látum – og að gott ástand “bleikra þarmar” er mikilvægt almennri heilsu okkar.

Ég held áfram að fræða fólk um mikilvægi mataræðis, nú á HREINT MATARÆÐI stuðningsnámskeiðum.

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira