c

Pistlar:

21. október 2015 kl. 9:42

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Hvers virði er heilsan?

Í þessum heimi þar sem við leggjum verðmætamat á nánast hvað sem er, þætti mér forvitnilegt að vita hvaða verðmat væri lagt á heilsuna hjá markaðsfræðingum samtímans. Ég hef ekki sett tölur á mína heilsu, en ég geri mér grein fyrir að hún er það dýrmæstasta sem ég á. Frá því ég var barn og unglingur hef ég verið að takast á við ýmis heilsufarsvandamál og leita leiða til bata eftir náttúrulegum leiðum. Í fyrstu var það gert af algerri vanþekkingu, en smátt og smátt lærði ég meira, einfaldlega af því ég var alltaf að lesa og leita.

Fyrir ekki svo mörgum árum síðan hrapaði svo heilsan mín nánast alveg niður að núlli á skalanum 1 til 10. Ég hafði alveg brennt mig út á of mikilli vinnu og streitu sem bæði tengdist makamissi, svo og vinnuálaginu. Lífsreynslan sem veikindunum fylgdi var erfið og mikil áskorun og í raun erfitt að snúa ferlinu við. Þá komu í huga minn orðin sem Hallgrímur heitinn Magnússon vinur minn var alltaf með á stofunni sinni: “Ef þú hefur ekki tíma fyrir heilsuna í dag, hefurðu ekki heilsu fyrir tímann á morgun!” Mikill sannleikur í þeim orðum.

Eftir þessa lífsreynslu mína verð ég alltaf undrandi þegar ég hitti fólk sem leggur enga áherslu á að hugsa um heilsuna. Hefur það gleymt þeirri dýrmætu gjöf sem lífið er? Er það fyrirfram búið að ákveða að það tapi hreyfigetu, þreki og áhuga á lífinu á einhverjum ákveðnum tímapunkti? Vill það ekki leggja sitt af mörkum til að svo verði ekki?

Lífaldur okkar verður sífellt lengri, en hvers virði er það ef við höfum ekki heilsu og þrek til að njóta þessara ára. Heilsan er nefnilega að mínu mati mikilvægasti hluti lífsgæðanna, því án hennar eru okkur svo margar takmarkanir settar.

Svo ég spyr: “Hvers virði er heilsan þín?”

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira