c

Pistlar:

21. nóvember 2015 kl. 9:47

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Eigið þið aukasett?

Eigið þið aukasett af öllu? Aukasett af hreinsikremi, dagkremi, næturkremi, andlitsfarða, maskara, tannbursta, body lotion, hárkremi og ýmsu öðru sem snýr að persónulegri umhirðu húðar og líkama? Kannski eins gott að koma sér því upp ef mikið er ferðast, því skili farangurinn þinn sér ekki þegar þú ert á heimleið, þarftu að eiga aukasett eða storma út í næstu búð, eins og ég þurfti að gera, til að kaupa aukasettið. Ferðatryggingin þín, þessi sem þú heldur að þú sért með í gegnum greiðslukortið sem þú greiddir ferðina með, dekkar þig ekki. Hún gildir sem sagt ekki þegar þú ert að koma til eigin heimalands og því þarf kostnaðurinn við aukasettið að koma úr eigin vasa.

Ég kom heim frá Orlando síðastliðinn miðvikudagsmorgun. Þegar allir farþegar voru komnir út í vél í Orlando kvöldinu áður tilkynnti flugstjórinn að vélin væri yfirhlaðin og að það þyrfti að taka af henni töskur, sem yrðu sendar til Íslands með vél frá Boston næsta dag. Þegar svona tilkynning berst vonar maður alltaf að það séu töskur einhvers annars sem skildar verða eftir, en í þessu tilviki voru það mínar og eitthvað rúmleg 100 aðrar töskur. Ég velti því fyrir mér hvort það hafi alveg gleymst að telja töskurnar við innritun eða er venjan að taka við öllu og tína svo af.

Eitthvað eru þeir hjá Icelandair ekki með dagatalið á hreinu, því þeirra næsti dagur rann ekki upp fyrr en í dag, rúmum þremur sólarhringum eftir að ég kom heim, nema því aðeins að leiðarkerfið þeirra hafi legið niðri þessa daga.

Ég sendi pósta vegna málsins til þjónustueftirlits Icelandair bæði í gær og fyrradag, en þeir hafa ekki látið svo lítið að svara þeim. Kannski hafa sérfræðingar félagsins ekki skilgreint hvað ensku orðin customer service þýða á íslensku. Hins vegar hringdu starfsmenn Tapað, fundið deildarinnar í mig í gær og báðust afsökunar fyrir hönd félagsins. Ég sagðist móttaka hana en ekki meðtaka, þar sem félagið hefði ekki staðið við gefin loforð. Bíð enn eftir töskunum sem væntanlega koma síðdegis í dag - en nú á ég sem sagt aukasett af ýmsu, sem ég hefði ekki þurft að fjárfesta í ef töskurnar hefðu skila sér um leið og ég kom heim.

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira