c

Pistlar:

26. nóvember 2015 kl. 13:58

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Þakkargjörð

Í dag er haldinn Þakkargjörðarhátíð í Bandaríkjunum. Eins og með svo marga aðra siði hefur hann að einhverju leyti breiðst hingað. Sögur um uppruna dagsins eru nokkuð mismunandi en í dag hefur hann orðið að einni stærstu fjölskylduhátíð þar í landi, einkum vegna þess að hann tengist á engan hátt trúarbrögðum. Fjölskyldumeðlimir ferðast ríkja á milli til að vera með foreldrum og öðrum fjölskyldumeðlimum á þessum degi, borða kalkún og ýmsan annan góðan mat og njóta samvista. Hjá sumum er það kvöð, en öðrum gleði og ánægja.

Börn fá í mörgum ríkjum lengra leyfi í skólunum í kringum Þakkargjörðarhátíðina, heldur en í kringum páskahátíðina. Í sumum skólum er foreldrum boðið að koma nokkru fyrir hátíðina sjálfa og borða þakkargjörðarmáltíð með börnunum, þannig að þakklætið svífur yfir vötnum í kringum hátíðina, þótt hún sé í raun bara einn frídagur.

Daglegar þakkir

Eitt af því sem fylgdi sjálfsræktarbylgjunni, sem fór af stað hér á landi rétt fyrir 1990, var hvatning til fólks um að þakka fyrir allt það góða sem í lífi þess er, einkum þó það smáa sem oft er talið svo sjálfsagt. Margir, þar á meðal ég, hófu að skrifa daglega niður allt það sem þeir voru þakklátir fyrir. Í fyrstu skrifaði ég allar þakkir mínar niður í dagbók, en svo fór ég að æfa mig í að skrifa þær niður á blað í huganum – til að spara pappír.

Við þurfum ekki endilega að takmarka þakkir okkar við Þakkargjörðarhátíðina. Með því að þakka daglega fyrir það besta sem í lífi okkar er, búum við til orku, sem gerir það að verkum að við löðum til okkar meira af því sama, sem er dásamlegt. Ég er í dag þakklát fyrir að vera heilsuhraust, hamingjusöm og full af hugmyndum, sem ég vinn daglega í að setja í framkvæmd. Það gerir lífið svo skemmtilegt.

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira