c

Pistlar:

1. janúar 2016 kl. 0:09

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Láttu draumana rætast

Nýtt ár hefur hafið göngu sína og þótt við séum búin að plana eitthvað af því sem við ætlum að gera á þessu ári, er ljóst að stór hluti þess er enn óskrifað blað. En þeim mun fleiri hugsanir sem við setjum niður á blað um það hvernig við viljum að árið verði, þeim mun líklegra er að þannig verði það. Sumir kalla þetta markmiðasetningu og það er frábært að byrja á henni á nýársdag. Taka svona eina klukkustund eða svo til að skrifa niður hvaða markmiðum við viljum ná á næstu þremur mánuðum.

Jafnvel þótt við séum með stærri markmið fyrir allt árið er gott að skipta árinu í fjóra hluta og beina sjónum sínum í upphafi að því hvaða markmiðum á að ná fyrstu 3 mánuði ársins, því á þeim árangri byggjum við síðan næstu þrjá mánuði og svo koll af kolli.

Stundum höfum við ekki hugmynd um hvernig við ætlum að ná þeim markmiðum sem við setjum okkur, en þegar við skrifum þau niður og förum að lesa þau daglega er eins og hugmyndirnar fari að fæðast og við finnum lausn og leiðir fyrr en varir. Hvert markmið sem næst verður eins og þrep að því næsta og svo koll af kolli. Skráning í nám, lærdómurinn, próf sem þarf að taka og svo útskrift. Allt eru þetta þrep upp áfangastigann og með því að stíga þau jafnt og þétt náðum við þeim markmiðum sem við höfum sett okkur.

Þannig virka öll markmið, hvaða árangri sem við viljum ná í að láta drauma okkar rætast. Ekkert gerist nema framkvæmd fylgi áætlun, svo láttu árið 2016 endilega vera árið þar sem þú lætur drauma þína rætast.

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira