c

Pistlar:

13. janúar 2016 kl. 12:10

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Nærðu markmiðum þínum?

Þetta er sá árstími þar sem margir setja sér markmið. Hjá sumum eru þau þaulhugsuð, skýr, tímasett og raunhæf. Og þeir sömu setja þau strax í framkvæmd með vikulegri framkvæmdaáætlun. Hjá öðrum eru þau óskýrari, án tímasetningar og líklegt að þau verði aldrei að veruleika. Og svo eru auðvitað sumir sem setja sér aldrei markmið.

Leiðin að markmiðunum er oft þyrnum stráð og margar hindranir í vegi. Ef þær verða of margar vill fólk oft gefast upp. Það eru því einungis þeir hörðustu sem fylgja þeim alla leið, einkum ef sú leið er erfið. En kannski liggur mesti þroskinn einmitt í gegnum erfiðleikana – og þegar þeir hafa verið yfirunnir, þá situr eftir góð saga. Saga sem getur verið dæmi fyrir aðra til að gefast ekki upp fyrr en markmiðunum er náð.

Hér eru nokkrar gullnar tilvitnanir og smá umfjöllun um gildi þeirra, sem kannski hvetja þig til að fylgja þínum markmiðum betur eftir.

“Gleymdu fyrir mistökum. Gleymdu því sem ekki gekk vel. Gleymdu öllu nema því sem þú ætlar að gera núna og gerðu það.” – William Durant
Það yrði erfitt fyrir þig að finna einhvern sem náð hefur miklum árangri í lífinu, og hvorki gert mistök né hrasað nokkrum sinnum á leiðinni. Ef við sættum okkur við þann sannleika, hvers vegna erum við þá að velta okkur upp úr gömlum mistökum sem við gerðum einhvern tímann fyrir langa löngu og láta þá minningu hefta okkur í dag. Þetta snýst allt um það hvert þú setur fókusinn. Ef hann beinist ekki að þeim markmiðum sem þú vilt ná, eru allar líkur á að þú náir þeim ekki.

“Áskoranir lífsins eiga ekki að lama þig; þær eiga að hjálpa þér að komast að því hver þú ert.” – Bernice Johnson Reagon

Hvað myndi breytast ef þú litir á allar þær hindranirnar og erfiðleika sem þú hefur farið í gegnum, sem hluta af þeirra sögu sem liggur að velgengni þinni? Þeim mun meiri hindranir sem á vegi þínum verða, því merkilegri verður sagan um árangur þinn og þeim mun meiri áhrif mun hún hafa á annað fólk. Það er eiginlega skylda þín að leggja á þig allt sem þart til að yfirvinna hindranirnar, svo þú getir verið öðrum hvatning.

“Að tuttugu árum liðnum munu þeir hlutir sem þú ekki gerðir, valda þér meiri vonbrigðum, en þeir sem þú gerðir.” – Mark Twain

Þessi tilvitnun er oft notuð, en hún tapar ekki gildi sínu þrátt fyrir það. Hafðu í huga að hún snýr ekki bara að markmiðum. Hverjum í lífi þínu þarftu að fyrirgefa áður en þeir hverfa úr lífi þínu? Hverjum þarftu að segja að þú elskir þá, meðan þú enn hefur tækifæri til?

Markmiðin þurfa ekki alltaf að vera niðurskrifuð. Þau geta orðið að einföldum lífsreglum, eins og þeim að faðma alltaf þá sem þér þykir vænt um, aldrei að skilja við ástvini í reiði og muna að segja alltaf öllum þeim sem þú elskar aftur og aftur, að þú elskir þá, líka þegar þú ert ekki í návist þeirra. Börn þurfa til dæmis oft að heyra það.

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira