c

Pistlar:

1. mars 2016 kl. 12:45

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Hvað ræður öldrun - og hvernig má hægja á henni?

„Ekki harma það að eldast. Það eru sérréttindi sem sumir fá aldrei að njóta.“ – Höfundur óþekktur

Auðvitað eru ótal þættir í ytra og innra umhverfi okkar sem ráða því hvernig og hversu hratt við eldumst. Hugsanlega fer öldrunarferlið af stað um leið og við fæðumst eða þegar líkaminn hættir að hafa þau næringarefni sem hann þarf til að frumur hans geti endurnýjað sig. Eitt er víst, að líkamar okkar eru ekki hannaðir til að lifa að eilífu, þannig að væntanlega er innbyggt í þá kerfi sem sér til þess að svo verði ekki. Með aukinni þekkingu og rannsóknum eru vísindin þó sífellt að uppgötva eitthvað nýtt í starfsemi þess flókna fyrirbæris sem líkaminn er og þá líka hvað hægt er að gera til að lengja lífaldur hans og gera það að verkum að við náum að eldast með meiri reisn.

Okkur er auðvitað í sjálfsvald sett hvernig við förum með eigin líkama. Líkt og bíllinn sem við ökum þarf á reglulegu viðhaldi að halda, þarf bíllinn okkar eða líkaminn líka sitt viðhald. Ef við leggjum okkur fram um að halda honum vel við með réttu eldsneyti; hollri og heilsusamlegri fæðu, daglegum skammti af bætiefnum og reglulegri notkun, það er hreyfingu og líkamsrækt, skilar hann okkur lengra áleiðis í lífinu, án meiriháttar bilana.

Við getum sjálf ráðið því hversu mikið við leggjum í viðhaldið hverju sinni. Mikilvægt er þó að hafa það reglulegt og jafnt, frekar en átakamikið annað slagið. Reglulegt og jafnt viðhald skilar nefnilega mun betri árangri þegar til lengri tíma er litið en stuttir og átakamiklir kúrar annað slagið. Staðreyndin er sú að eitthvað í líkamanum endurnýjar sig daglega og því þarf eitthvað í honum á réttum byggingarblokkum að halda jafnoft til að styðja við það ferli.

Rannsóknir fræða okkur um margt er viðkemur líkamanum og niðurstaðan er alltaf sú sama. Við njótum hans lengur og við betri heilsu ef við neytum hollrar fæðu, tökum reglulega inn bætiefni, stundum líkamsrækt, erum jákvæð og vinnum úr neikvæðum tilfinningalegum áföllum.

LITNINGAENDARNIR
Í október árið 2009 hlutu Elizabeth H. Blackburn, Carol W. Greider og Jack W. Szostak Nóbelsverðlaunin í læknisfræði fyrir að hafa uppgötvað hvernig litningar (chromosomes) í frumum okkar eru verndaðir af litningaendum (telomeres) og litningaensíminu telomerase. Þessi uppgötvun var talin ein mikilvægasta erfðafræðilega uppgötvun síðustu hálfrar aldar eða svo.

Hún kann að hafa mikil áhrif á líf okkar og skýra hve lengi við lifum almennt, því samkvæmt henni er í frumum okkar nokkurs konar tímaklukka sem ræður því hversu lengi frumur líkamans geta endurnýjað sig og þar með hversu lengi við lifum. Um er að ræða svokallaða litningaenda (telomeres), sem eru endurteknar DNA-raðir á hverjum litningi í líkamanum. Þeir vernda og aðgreina litningana í DNA-röðinni hvern frá öðrum. Á vissan hátt loka þessir litningaendar litningunum á svipaðan hátt og plasthulsa lokar endunum á skóreimum og koma þannig í veg fyrir að þær trosni og eyðileggist.

Í mannslíkamanum hefur hver fruma 23 pör af litningum eða samtals 46 litninga. Hver litningur hefur erfðaefni eða DNA (byggingarefni lífsins) ásamt hundruðum af genum eða erfðavísum. Litningaendarnir aðgreina litningana hvern frá öðrum. Þessir litningaendar virðast vera klukkan sem stýrir því hversu oft hver fruma getur skipt sér.

Við skiptingu frumunnar styttist endinn á hverjum litningi í frumunni aðeins. Þegar litningaendinn hefur styst ákveðið mikið getur fruman ekki skipt sér lengur og deyr. Í stuttu máli má því segja að flestar frumur geti einungis skipt sér ákveðið oft og þær eldast við hverja skiptingu. Í þessu felst öldrun líkamans á frumustiginu og útskýrir af hverju vísindamenn eru svo spenntir yfir möguleikanum sem felst í því að geta hægt á eða jafnvel stöðvað alveg styttingu litningaendanna. Þeir hafa komist að því að lengd endanna er fyrsta vísbending um hættu á sjúkdómum, framrás þeirra og ótímabært andlát einstaklinga. Stytting litningaendanna er yfirleitt undanfari margra sjúkdóma, meðal annars krabbameina og kransæðasjúkdóma.

JURTABLANDA SEM LENGIR LITNINGAENDANA
Þar sem ég hafði fjallað um rannsóknir læknanna sem hlutu Nóbelsverðlaunin 2009, í bók sem kom út árið 2012, varð ég ekkert lítið spennt þegar mér bar boðið á vörukynningu í maí á síðasta ári (2015). Meginástæða þess að ég mætti var myndband, sem ég hafði fengið sent og sýndi að til væri ný jurtablanda, byggð á þessum Nóbelsverðlaunuðu vísindum, sem lengdi litningarendana. Ég VARÐ að sjá þetta og fá að vita meira.

Vörurnar sem kynntar voru eru frá fyrirtæki sem heitir JEUNESSE GLOBAL. Bætiefnið sem ég var spenntust fyrir heitir FINITI. Það er eina þekkta jurtablandan á heimsmarkaðnum í dag, sem sannreynt er að lengir litningaendana hjá fólki. Með því lengir það lífaldur frumunnar og um leið líkamans sjálfs, auk þess sem það dregur úr bólgum í líkamanum, en aðaljurtaefnið í blöndunni er unnið úr Astragalus jurtinni, sem er hefur verið notuð til lækninga í Kína í nokkur þúsund ár.

Sjá nánari upplýsingar á vefsíðu minni: http://www.gudrunbergmann.is undir hlekknum JEUNESSE.

 

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira