c

Pistlar:

5. mars 2016 kl. 22:20

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Níu ástæður fyrir nætursvita

Það er kannski frekar ósmart að fjalla um nætursvita á Smartlandinu, en þegar ég var spurð að því hvað ylli honum ákvað ég að leita upplýsinga hjá Mr. Google. Á vefsíðunni Webmed fann ég grein um nætursvita og þar sem nætursviti er oft eitthvað sem fólk vill helst ekki tala um, ákvað ég að deila upplýsingunum hér.

Með nætursvita er átt við mikinn svita að næturlagi. Eðlilegt er að svitna ef svefnherbergið sem þú sefur í er óvanalega heitt og þú sefur undir of þykkri sæng. Hinn eiginlegi nætursviti birtist hins vegar í miklum svitaköstum að næturlagi, sem leiða til þess að náttföt og sængurfatnaður rennblotnar og tengist á engan hátt of miklum hita í herberginu.

Stundum er þó erfitt að greina á milli roðakasts (mikils hita og roða í andliti eða á líkama) og hins eiginlega nætursvita.

Margar mismunandi ástæður geta legið að baki nætursvita. Læknar þurfa yfirleitt að fá nákvæma sjúkrasögu og stundum senda fólk í ýmsar rannsóknir til að kanna hvort eitthvað heilsufarslegt liggi að baki nætursvitanum. Nokkur þekkt heilsufarseinkenni sem valdið geta nætursvita eru:

  1. Tíðahvörf. Hitakófin sem geta fylgt tíðahvörfum verða oft að nóttu til og eru algengasta orsök nætursvita hjá konum.
  2. Ofsvitnun. Ofsvitnun felst í því að líkaminn framleiðir sífellt of mikinn svita án þess að nokkrar læknisfræðilega skýringar finnist á því.
  3. Sýkingar. Berklar eru sú sýking sem algengast er að tengja við nætursvita. En bakteríusýkingar, eins og til dæmis hjartaþelsbólga (bólga í hjartalokum), beinsýking (bólgur í beinum) og ígerð í líkamanum geta valdið nætursvita. Nætursviti er líka merking um HIV sýkingu.
  4. Krabbamein. Nætursviti er oft fyrsta einkenni sumra krabbameina. Algengasta tegundin sem tengist nætursvita er eitlakrabbamein. Fólk sem er með ógreind krabbamein fær þó oft önnur einkenni líka, eins og sótthita eða það grennist af óútskýranlegum orsökum.
  5. Geðlyf. Algengt er að þunglyndislyf leiði til nætursvita. Talið er að 8-22% þeirra sem noti þunglyndislyf þjáist af nætursvita. Önnur geðlyf hafa líka verið tengd við nætursvita.
  6. Hitastillandi lyf. Lyf sem tekin eru til að lækka sótthita, eins og asprín og parasetamól, geta valdið nætursvita. Mörg önnur lyf geta valdið nætursvita og hitaköstum.
  7. Blóðsykurfall. Lágur blóðsykur getur valdið nætursvita. Fólk sem notar insulin eða töflur við sykursýki, getur fengið blóðsykurfall að nóttu til og vanalega fylgir því þá sviti.
  8. Hormónaójafnvægi. Nætursviti og hitaköst tengjast oft ýmsu hormónaójafnvægi, þar á meðal vanvirkni eða ofvirkni í skjaldkirtli.
  9. Taugakerfið. Það er ekki algengt, en ástand tengt taugakerfinu þar á meðal ósjálfráð ofviðbrögð, áfallaröskun, heilablóðfall og truflanir í taugakerfinu, geta valdið nætursvita.
Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira