c

Pistlar:

22. apríl 2016 kl. 13:50

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

DAGUR JARÐAR í dag

12973556_10153644379204576_5159588841929991537_o.jpgÞessi dagur, 22. apríl var formlega gerður að alþjóðlegum DEGI JARÐAR árið 1990, en hreyfing undir sama heiti hafði þá verið við lýði í Bandaríkjunum frá árinu 1970. Í fjörutíu og sex ár hefur fólk því verið að vekja athygli á því að eitthvað þurfi að gera fyrir Jörðina til að mannlíf og dýralíf geti þrifist þar áfram. Flestir eru LOKSINS farnir að skilja að hlýnun jarðar sé staðreynd, þótt það sem gert er til að sporna við henni, virðist varla halda í horfinu og hitatölur í heiminum hækki ár frá ári.

Það er svo ótrúlegt með okkur mannkynið að við virðumst ekki vilja trúa neinu fyrr en skaðinn er skeður. Ég var á Hawai’i í byrjun febrúar og þar er það óopinbert leyndarmál að nánast allur kórall í kringum eyjarnar er dauður, því hitastig sjávar þar hefur hækkað um meira en 1,5°. Hnúfubakur hefur í gegnum tíðina komið suður í hlýrri sjó yfir fengitímann og farið svo með kálfana norður í kaldari sjó þegar þeir hafa stækkað eitthvað. Færra er nú af hnúfubak við Hawai’i en nokkru sinni áður.

FARA DÝRIN EKKI EITTHVAÐ ANNAÐ?
Sumir kunna að segja að hvalirnir fari þá bara eitthvað annað – en hvert? Kyrrahaf er ótrúlega mengað af plasti og enginn gerir sér í raun grein fyrir hversu mikil áhrif það hefur á dýralíf í hafinu. Geislavirkur úrgangur eins og kom úr kjarnorkuverinu sem skemmdist þegar flóðaldan reið yfir Japan í kjölfar jarðskjálftans 2011, hangir ekki bara við strendur Japans. Hann dreifist um allt Kyrrahafið. Við höfum engin tök á að meta skaðann eða sjá hvað hefur gerst undir yfirborði sjávar. Og hvert eiga mörgæsirnar sem lifa á Suðurheimsskautinu og hvítabirnirnir sem lifa á Norðurheimsskautinu að fara þegar ísinn bráðnar undan þeim? Á sólarstrendur?

EF JÖRÐIN VÆRI HÚS?
Ef Jörðin væri hús sem við byggjum í, myndum við þá ganga um það hús eins og við göngum um Jörðina? Myndum við drepa í sígarettum á gólfinu heima hjá okkur eða henda rusli á gólfið eins og fólk hendir rusli um allt á Jörðinni? Láta plastflöskur, áldósir, glerflöskur, umbúðir af ýmsum gerðum og annan úrgang þekja gólfin okkar? Kannski bíða eftir því að bræðurnir þrír, einhver, sérhver og hver sem er kæmu og tækju til hjá okkur, líkt og við gerum ráð fyrir að þeir sjái um sóðaskapinn eftir okkur í umhverfinu.

GETUR ÍSLAND VERIÐ Í FARARBRODDI
Ég hef á undanförnum tuttugu og fimm árum unnið að því með ýmsum hætti að styrkja og efla umhverfisvitund mína og annarra og hvetja fólk til aðgerða. Ég hef meðal annars talað við þrjá síðustu borgarstjóra Reykjavíkur og hvatt þá til að gera Reykjavík að fyrstu umhverfisvottuðu höfðborg heims. Það yrði fordæmi fyrir aðra til að fylgja og myndi skapa Reykjavík sérstöðu á heimsvísu, líkt og það skapaði á sínum tíma sveitarfélögunum og Þjóðgarðinum á Snæfellsnesi, þegar þau urðu fyrstu EARTH CHECK umhverfisvottuðu sveitarfélög á norðurhveli jarðar árið 2008. Þau eru nú fyrirmynd ýmissa sveitarfélaga víða um heim sem hyggjast feta í fótspor þeirra.

Í rúm tuttugu ár hef ég líka hvatt til þess að ferðaþjónustufyrirtæki hér á landi létu umhverfisvotta rekstur sinn (Vakinn er bara gæðavottunarmerki). Örfáir, miðað við heildina, hafa fetað þá braut en flestir telja það ekki skipta máli, því þeir séu að standa sig svo vel umhverfislega.

Átroðsla á landið okkar er endalaus, nú þegar við tökum á Íslandi á móti 1,2-1,3 milljón manns á ári. Sífellt er leitað út fyrir hefðbundnar slóðir og farið með fólk inn á viðkvæm svæði á árstímum þar sem Jörðin þarf á hvíld að halda. Svo virðist sem þar, svo og annars staðar, sé enginn saðningspunktur til. Allir vilja ná í bita af ferðamannakökunni, sem byggist á miklum ágangi á þann hluta Jarðar, sem okkur íbúum landsins var falið að gæta. Menn benda hvor á annan ef gagnrýni kemur upp og enginn er tilbúinn til að slá af græðgi sinni. Já, græðgi, því svo virðist sem við séum að eyðileggja lífvænlegt umhverfi okkar og dýralífs á Jörðinni af einskærri græðgi.

Sjá nánar um EARTH DAY á http://www.earthday.org/

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira